Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 12:40:39 (1101)

2001-11-02 12:40:39# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[12:40]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason hefur lýst skoðunum sínum á fiskveiðistjórnarkerfinu, en segir jafnframt að úr því sem komið er þá verði hann að hlýða og fylgja línu Sjálfstfl. og þar með hæstv. sjútvrh.

Ég vil spyrja hv. þm., sem er mjög hrifinn af fiskveiðistjórnarkerfinu í Færeyjum, hvort hann geri sér grein fyrir því að það sem verið er að samþykkja hér, þ.e. kvótasetning og síðan núna þetta frv. sem við erum að fjalla um, gengur eiginlega þvert á það sem hann hugsar sér sem hina eftirsóknarverðu leið til fiskveiðistjórnar á grunni þess sem gert er í Færeyjum.

Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann viti --- ég þykist nú vita að hann viti það --- að Færeyingar eru náttúrlega í algjörri sérstöðu með strandveiðar sínar þar sem bara helmingurinn af aflanum sem þeir fiska er tekinn á heimamiðum, um 100.000 tonn. Frystiskip og stórir togarar eru allir utan færeysku landhelginnar.

Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann geri sér ekki grein fyrir því að það að aðhyllast færeyska kerfið kallar á gjörbreytingu á útgerðarmunstrinu í landinu. Það hlýtur að gera það. Færeyingar eru með lokuð svæði eins og við erum reyndar með, en nánst engin stór skip, engin frystiskip og enga stóra togara innan lögsögu sinnar. Þar af leiðandi hlýtur þetta að kalla á allt aðra fiskveiðistjórn en hér er verið að leggja drög að og samþykkja lagafrv. um hvert á fætur öðru.