Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 13:31:00 (1106)

2001-11-02 13:31:00# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[13:31]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, sem hæstv. sjútvrh. hefur mælt fyrir.

Þetta frv. snýr einkum eða nánast eingöngu að veiðum krókabáta og er, eftir orðum flutningsmanns, lagt fram í þeim tilgangi að bæta að einhverju það ástand sem skapaðist þann 1. sept. sl. þegar kvótasetning krókabátanna tók gildi en þeim lögum hafði ekki fengist frestað á sl. vori eins og kunnugt er.

Ég ætla fyrst að víkja að nokkrum almennum atriðum áður en ég ræði nákvæmlega efni frv.

Í fyrsta lagi er alveg ljóst að þó að hér sé verið að leggja til potta og auknar úthlutanir aflaheimilda inn í smábátakerfið er auðvitað verið að stefna að því að festa kvótakerfið í sessi fyrir allar gerðir fiskiskipa. Ég get lýst því yfir að það er algjörlega andstætt mínum skoðunum að þessi stefna, að knýja smábátana inn í hið stóra aflamarkskerfi, skuli vera í hávegum höfð þó að þeim sé með þessum breytingum ætlað að vera í sér potti. Ég tek undir þær áhyggjur sem m.a. hv. þm. Hjálmar Árnason lýsti áðan úr þessum ræðustól, og ég óttast mjög að þessi kerfi, þ.e. krókaveiðar smábátanna og hið stóra aflamarkskerfi, renni saman í eitt kerfi enda er margt í þessu frv. sem getur m.a. ýtt undir það.

Eins og áðurnefndur hv. þm. Hjálmar Árnason sagði áðan er staða smábátanna skelfileg í óbreyttu kerfi. Ég tek undir þau orð hans. Og þó að það verði gert sem hér er lagt til af hæstv. sjútvrh. mun staða þeirra áfram verða að mörgu leyti skelfileg og afleiðingarnar engan veginn fyrirséðar hvað varðar atvinnustig og atvinnuþróun á landsbyggðinni og afkomu fólks í hinum dreifðu sjávarbyggðum sem margar hverjar hafa á undanförnum árum notið þess takmarkaða frjálsræðis sem var til staðar í smábátakerfinu.

Ég get auðvitað tekið undir það sem áður hefur verið sagt, bæði hér í ræðustól og eins í rituðu máli, að það verður aldrei sátt um það til framtíðar að hinar dreifðu byggðir verði skornar niður við trog með því að sníða þeim svo þröngan stakk í fiskveiðistjórnarkerfinu, sem er undirstaða byggðanna, að þær fái ekki haldið velli. Þess vegna tel ég að þetta frv. sem við erum núna að ræða sé skammtímalækning sem enginn sér fyrir hvort verður lækning í þá veru að bæta ástandið til frambúðar. Þær aðgerðir sem hér er verið að boða ofan á þá kvótasetningu smábátanna 1. sept. geta vissulega orðið til þess að hinar dreifðu sjávarbyggðir haldi hreinlega ekki velli, lifi ekki af. Það er hlutur sem ég óttast mjög, og ég tel að það sé afar óheppilegt að vega þannig að mörgum sjávarbyggðum í kringum landið sem hafa þegar orðið fyrir skakkaföllum í hinu stóra kvótakerfi --- að vera þá að þróa málin til þess að kerfið verði með sem líkustum hætti og í stóra aflamarkskerfinu.

Ég vil, með leyfi forseta, lesa hér upp ályktun aðalfundar Landssambands smábátaeigenda sem haldinn var nýlega í Reykjavík, en hún hljóðar svo:

,,Á undanförnum árum hafa fjölmargar hinna minni strandbyggða hafið kröftuga sókn í uppbyggingu atvinnulífs og búsetu. Útgerð smábáta og umsýslan sem línuútgerð þeirra kallar á hefur leikið þar meginhlutverk. Þessi ánægjulegi viðsnúningur úr langvarandi hnignun og samdrætti gaf íbúum byggðanna von, kjark og ekki síst trú á að þau markmið sem Alþingi festi í lögin um stjórn fiskveiða, hefðu, þegar upp væri staðið, dýpri þýðingu en blekið sem þau voru skrifuð með.

Þúsundir íbúa með ströndum fram hafa þar af leiðandi litið svo á að framlag kvótakerfisins til hinna minni strandbyggða sé krókakerfið, kerfi sem hefur þá sérstöðu að virkja alla bestu eiginleika smábátaútgerðarinnar og drifkraft og útsjónarsemi einstaklingsframtaksins.

Í kjölfar þessarar jákvæðu þróunar hefur hugvit og handverk fjölmargra framleiðslu- og þjónustuaðila blómstrað, jafnvel svo mynduglega að orðspor þess hefur farið langt út fyrir landsteinana.

Í einu vetfangi hefur löggjafarsamkoma þjóðarinnar umturnað þessari þróun og upprætt þá bjartsýni sem einkenndi orðið líf og störf íbúanna. Í einu vetfangi hafa eignir, atvinna og verðmætasköpun sú sem þessi þróun framkallaði að engu orðið hjá fjölmörgum smábátaeigendum, með tilheyrandi margfeldisáhrifum.

Það er með ólíkindum að á tímum þegar endalaust eru kallaðir til sérfræðingar sem meta skulu áhrif alls og einskis, hafi því í engu verið sinnt að rannsaka fyrir fram áhrif þeirra lagabreytinga sem yfir dundu 1. september sl. og þýddu gríðarlegar breytingar í rekstrarumhverfi útgerðarflokks með 10 milljarða króna verðmætasköpun og gífurlega atvinnuuppbyggingu. Sú sátt sem fjölmargir töldu að væri innan seilingar er því úti í hafsauga.

Ástæða alls þessa er látlaus flótti frá þeirri staðreynd að árangur kvótakerfisins við uppbyggingu fiskstofna er hörmulegur. Við upphaf kvótakerfisins var heildarveiði fiskiskipaflotans á helstu botnlægum tegundum u.þ.b. 550 þúsund tonn en eftir þrotlaust og óeigingjarnt uppbyggingarstarf síðustu 18 ára er veiðin komin niður í 400 þúsund tonn og viðkomandi stofnar flestir í sögulegum lágmörkum.

Fundurinn lýsir furðu sinni og áhyggjum af því að stjórnvöld vogi sér að halda því fram að hér séu stundaðar ábyrgar fiskveiðar sem séu öðrum til eftirbreytni.

Þvert á móti ætti helsta verkefni stjórnvalda að vera að einhenda sér í að kanna hvort ekki séu aðrar leiðir vænlegri og vill fundurinn sérstaklega benda á það fiskveiðikerfi sem Færeyingar hafa nú notað um skeið með athyglisverðum árangri.

Svo fjarri er umræðan um þessi grundvallaratriði að helst er að skilja að vandinn sem leysa þurfi sé með hvaða hætti skuli skattleggja sjávarútveginn umfram það sem nú þegar er gert. Þessu mótmælir fundurinn harðlega. Að ætla það grundvöll til sátta að núa aukinni skattlagningu í þau sár sem nýjustu lagabreytingar eru að valda þeim strandbyggðum sem hér um ræðir, er fráleitt.

Réttindabarátta trillukarla hefur frá upphafi kvótakerfisins verið brjóstvörn hinna smærri strandbyggða. Skilningur almennings hefur verið mikill á málstað og rökum trillukarla og þakkar fundurinn þann stuðning heils hugar.

Það er höfuðkrafa Landssambands smábátaeigenda að krókaveiðar hafi skýlausan forgang við stjórnun fiskveiða og að strandbyggðirnar hafi aðgang að þeim miðum sem í upphafi grundvölluðu búsetuna.

Þannig er von til að sátt geti skapast milli veiðimanna og náttúru, sátt sem leiðir sjálfkrafa til friðar meðal þjóðarinnar.``

Þarna held ég að mjög sé rétt mælt. Það er auðvitað þannig, eins og ég gat um í upphafi máls míns, að strandbyggðirnar margar hverjar hafa byggt afkomu sína í vaxandi mæli á afla smábátanna. Þess vegna á þessi ályktun fullt erindi hingað inn í sali Alþingis.

Það er auðvitað verið að setja smábátaflotann í kerfi sem smábátamenn vilja ekki vinna í. Þessi yfirlýsing sem ég las, hæstv. forseti, tekur af allan vafa um það að smábátamenn hafa engan áhuga á því að vinna í þessu kerfi sem er sett á af stjórnvöldum, sett á þvert ofan í allar ályktanir smábátasjómanna, alls staðar að af landinu, og nú síðast með tilvitnun til aðalfundarins sem ég las áðan.

Það virðist hins vegar vera eindreginn vilji sjútvrh. að skipa málum svo við fiskveiðar þessa hóps að þeim verði nauðgað til verka sem þeir alfarið hafna. Ég held að það sé afar misráðið hjá stjórnvöldum að ætla að fara þessa leið. Ég held að það muni ekki reynast okkur vel.

Ef ég hef tíma til síðar í dag mun ég koma að ýmsum fleiri atriðum sem varða það sem verið er að gera en ég hygg að nú sé réttast að ég noti seinni hluta tíma ræðu minnar til þess að víkja í stuttu máli að þessu frv. sem hér er til umræðu. Ég vil þó, áður en ég vík að því, vekja athygli á næsta máli á dagskrá, frv. sem stjórnarandstöðuþingmennirnir, ég og hv. þm. Karl V. Matthíasson ásamt hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni, hafa lagt fram um veiðar smábáta sem mundi, ef samþykkt yrði, fara nánast að þeim óskum sem Landssamband smábátaeigenda hefur sett fram í ályktun sinni, ásamt því að uppfylla óskir fjöldamargra félaga vítt og breitt um landið, sveitarstjórna og ýmissa annarra. Það mundi leiða til þess að við byggjum við aflahámarkskerfi og óbreytt sóknarkerfi smábátanna.

Í frv. ráðherrans hæstv. er lagt til að veiðileyfi smábátanna verði aðeins tvö, þ.e. veiðileyfi með krókaaflamarki sem þegar hefur tekið gildi og handfæraveiðar með dagatakmörkunum.

Í 7. gr. er einnig lagt til að útgerðum báta, sem á fiskveiðiárinu 2000--2001 stunduðu línu- eða handfæraveiðar í tiltekinn fjölda sóknardaga með föstu þorskaflahámarki, svokallaðra 40 daga báta með 30 tonna þorskaflahámarki, verði heimilt að velja milli veiðileyfis með krókaaflamarki og veiðileyfis til handfæraveiða. Út af fyrir sig má segja sem svo að þarna sé mönnum gefinn kostur á að velja sér að vera áfram í sóknarstýrðu kerfi.

Það hlýtur hins vegar að vekja miklar spurningar um það hvers vegna menn eru ekki með tillögu um það að setja botn varðandi veiðidaga í þessu kerfi handfæramannanna.

[13:45]

Veturinn 1999 var flutt tillaga á Alþingi um að breyta skerðingarákvæðum í dagakerfi smábátanna, sem þá var í lögum frá því í janúar, úr 25% skerðingu daga milli ára niður í 10% skerðingu daga milli ára. Um þetta var þingheimur sammála. Hæstv. sjútvrh. greiddi þeirri tillögu atkvæði ásamt fjölda annarra þingmanna. Þarna voru menn að minnka þá skerðingu sem gæti orðið í dögum milli ára. Það hefur hins vegar verið svo að þeim ákvæðum ásamt öðrum ákvæðum laganna hefur hingað til verið frestað og menn hafa búið við þessa 23 daga. Ég held að það væri algert lágmark að menn reyndu að ná þeirri sátt að setja lágmark í dagana. Þá væri a.m.k. sá þáttur málsins viðunandi að því leyti til að menn rúlla þá ekki endalaust niður dagatakmörkunina. Ég vek athygli á því að Alþingi var sammála um að breyta 25% skerðingunni í 10% skerðingu en núna þykir mönnum við hæfi að aflahámarksbátarnir taki á sig miklu meiri skerðingu en 10%. Aflahámarksbátarnir eru eðlilega að fá skerðingu af þorskveiðinni úr 220 þús. tonnum niður í 190 þús. tonn. Þeir eru að taka þá skerðingu á sig eins og allir aðrir.

Til viðbótar skulu þeir síðan taka á sig þá skerðingu sem fylgir lögunum sem tóku gildi 1. september þó að þeir pottar sem hér eru lagðir til komi inn. Sú skerðing er miklu meiri en 10% skerðing. Þingheimur var þó sammála um að eigi bæri að láta menn taka á sig meiri skerðingu í smábátakerfinu milli ára en 10%. Það var samþykkt í þessum sal með öllum atkvæðum og hæstv. sjútvrh. greiddi því atkvæði. Menn voru sammála um að það væri ofætlan að skerða atvinnurétt manna í smábátakerfinu um meira en 10% milli ára. Það stendur núna í lögum. (Sjútvrh.: Hvaða skerðing er þetta?) Það er varðandi dagana sem áður hafði verið 25% skerðing. Því var breytt og skerðingin minnkuð niður í 10%. Um það voru menn allir sammála.

Núna eru menn með þessu frv. að leggja til að skerðing á aflahámarksbátunum verði mun meiri en 10% sem menn voru þó sammála um að mætti ekki vera hraðari milli ára en það. Sú stefnumótun sem Alþingi lagði upp með vorið 1999, í apríl 1999 ef ég man rétt, að ekki væri eðlilegt að láta frekari skerðingu eða víðtækari skerðingu en 10% koma til framkvæmda, er ekki höfð að leiðarljósi í frv. vegna þess að verið er að kvótasetja ýsuna, ufsann, steinbítinn, keiluna, lönguna, skötuselinn og karfann. Menn gleyma náttúrlega skarkolanum og grálúðunni hvernig sem á því stendur. Það er ekki talið upp í frv. og á þó að gæta jafnræðis milli manna, en þetta þýðir að margir útgerðaraðilar smærri báta, einkum þeir sem hafa verið að koma sér fyrir í kerfinu á undanförnum árum verða fyrir heiftarlegri tekjuskerðingu.

Ég hugsa að hægt sé að nefna dæmi um það að menn sem hafa verið að veiða á annað hundrað tonn af ýsu, 110--130 tonn á ári síðan þeir byrjuðu í þessu kerfi fyrir 1--2 árum, komi til með að fá núna um 20--30 tonn í úthlutun. Það hljóta allir að sjá að þegar þeirri skerðingu er bætt við niðurskurðinn í almenna þorskaflanum þá eru menn að taka á sig skerðingu sem er miklu meiri en sú stefna sem mótuð var á Alþingi um að eigi skyldi vega harðar að mönnum en sem nemur 10% skerðingu milli ára. (KPál: Það var alltaf vitað.) Svakalega er það gott, Kristján Pálsson, að þú skulir vita svona mikið inn í framtíðina.

(Forseti (GÁS): Ég bið hv. þm. að beina orðum sínum til forseta.)

Ég held að við ættum að biðja um það að fá að njóta leiðsagnar þinnar við að útfæra þetta kerfi. Þú þarft eiginlega að koma hérna í pontu og segja mönnum hvernig framtíðin verður við þetta.

(Forseti (GÁS): Forseti biður hv. þm. afsökunar en verður að ítreka það að hann beini orðum sínum til forseta.)

Herra forseti. Mætti ég mælast til þess að næst þegar hv. þm. Kristján Pálsson kemur í pontu, þá minni forseti hann sérstaklega á að gera okkur hinum grein fyrir framtíðinni.

(Forseti (GÁS): Forseti skal verða við því.)

Það eru ýmis fleiri atriði í frv. eins og upptökuákvæðin eða réttara sagt að menn megi landa fram hjá afla sem ekki telst til aflamarks. Það er atriði sem hægt er að taka undir. Hins vegar hlýtur þá útfærslan á því að verða almenn, ekki bara í krókakerfinu. Hún hlýtur þá að verða almenn í aflamarkskerfinu, að allir sitji þar við sama borð.

Ég vil hins vegar benda á að ekki væri vanþörf á því að eitthvað af þeim fjármunum sem hugsanlega koma fyrir afla sem veiddur er utan aflamarks rynni í lífeyrissjóði sjómanna því að þar eru gamlir menn með lítil lífeyrisréttindi sem munu þurfa jafnvel að skerðast enn frekar en orðið er og væri ástæða fyrir Alþingi að taka á því.