Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 13:51:44 (1107)

2001-11-02 13:51:44# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[13:51]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er eins og allir vita komið til vegna þess að því miður voru í janúar 1999 samþykkt lög nr. 1 sem kváðu á um að afnema þorskaflahámarkið í þeirri mynd sem hafði verið samið um. Ef ég ætti að gefa því frv. sem hér liggur fyrir einkunn, herra forseti, þá held ég að það væri fljótlegt að segja að þar sé verið reyna að krafla í bakkann.

Það var ákaflega hörmulegt að ríkisstjórnin og sjútvrn. skyldu hrapa að því fljótræði að draga þá ályktun af dómnum 3. desember 1998 að nauðsynlegt væri að fara út í þessar breytingar. Það var mjög hrapallegt. Efnislega hefur þeirri lögfræði allri verið svarað, og ég ætla ekki að fara út í það, að á Íslandi sé slík stjórnarskrá að ekki væri hægt að stjórna og takmarka aðgang að fiskimiðum. Það er náttúrlega alveg einstakt vegna þess að öll ríki Evrópu og Ameríku sem land eiga að Atlantshafinu stjórna einmitt á þann hátt, þau takmarka aðgang. Það er mjög slæmt og mjög sorglegt að enn þá skuli menn vera að vitna í þær lagaútskýringar einmitt þegar okkur liggur svo mikið á að reyna að fá stjórn á veiðar á Íslandsmiðum.

Ekki þarf að taka það fram því að ég held að alþjóð sé það í fersku minni og vel kunnugt að reynt hefur verið allar götur frá því um áramótin 1999 fram til 1. september að koma í veg fyrir að þetta gengi í gildi. Það hefur því miður ekki tekist. Góðir og gegnir menn hafa gengð sig upp að hnjám, boðið alls konar boð til að koma í veg fyrir þetta en það hefur ekki tekist, því miður.

Ég hef margsinnis sagt opinberlega að ég teldi þetta ákaflega hörmulega ákvörðun og mundi skaða íslenska landsbyggð gríðarlega mikið, hinar dreifðu byggðir og hin litlu sjávarþorp og reyndar skaða efnahagslíf Íslands í heild. Ég er alveg sömu skoðunar í dag og ég hef alltaf verið. Ég tel allan þann málatilbúning óþarfan, bæði lagalega svo og rökin um að það stafaði slík ógnarhætta af veiðum þessara báta. Það er bara barnalegt að halda því fram vegna þess að við höfum náttúrlega veiðisögu Íslendinga í áratugi og mannsaldra aftur í tímann og þess vegna er alveg fáránlegt að taka dæmi um einstaka einstaklinga sem hafa verið mjög framúrskarandi og veitt miklu meira en allir aðrir, við þekkjum það á öllum tímum, og að ætla síðan að útfæra það og leggja það að jöfnu við hvern einasta mann sem væri að sækja sjóinn. Þetta er náttúrlega allt fjarstæða og allt vitleysa.

Um frv. er það að segja --- ég vil taka fram strax í upphafi að í fréttum þegar það var tilkynnt og lagt fram þá sagði hæstv. sjútvrh. frá því að um það væri sátt. Ég tel það gróflega missagt. Um þetta er náttúrlega alls engin sátt. Um þetta er bullandi ósátt, veit ég, í báðum stjórnarflokkunum. Hið rétta er að þetta varð niðurstaða og ég ætla að flestir ef ekki allir stjórnarþingmennirnir hafi heitið því að styðja frv. í meginatriðum. Þetta varð niðurstaðan vegna þess að í frv. er þó tekinn sárasti broddurinn úr þessari aðgerð. Komið er til móts við smáu byggðirnar með aðgerðum sem eiga að hjálpa töluvert þó að þær komi alls ekki og langt frá því neitt í staðinn fyrir þann mikla skaða sem af því hlýst að halda sig ekki við það samkomulag sem búið var að gera 1996.

Því er alveg ljóst, herra forseti, og er rétt að ég taki það fram sérstaklega með tilliti til þeirra umræðna sem hafa verið hér í dag að afstaða mín er sú og samviska mín er sú --- samviska mín stendur einfaldlega með sjávarbyggðunum í kringum landið og ég mat það þannig, það var bara kalt mat mitt að þetta væri það skásta. Við gætum þannig komið aðeins til móts við byggðirnar þó að í litlum mæli væri. Annarra kosta væri ekki völ. Menn geta síðan deilt um hvort svo er. Ég mat það svo og met það svo enn. Það er rétt að taka fram til að forðast allan misskilning að fyrir liggur þingmannafrv. sem hefur ekki verið rætt enn þá, 1. flm. er Guðjón A. Kristjánsson, að ég er efnislega alveg sammála því frv. en mat mitt er það, herra forseti, að það nái ekki fram að ganga og því kaus ég þann kost að fylgja þessu vegna þess að þarna kemur fram bót fyrir bæina sem er umtalsverð og munar um svo hörmulega sem þeir standa. Það er rétt að þetta sé alveg ljóst þannig að það fari ekkert milli mála í hugum manna. Þegar menn krefja alþingismenn um að fylgja sannfæringu sinni þá er þetta sannfæring mín. Hún er svona.

Hins vegar, herra forseti, finnst mér ástæða til þess núna að benda á hvernig fiskveiðistjórn stendur á Íslandi. Það eru komin 16 eða 17 ár síðan við hófum að stjórna fiskveiðunum og það er ástæða til að menn horfi framan í þá bláköldu staðreynd að okkur hefur miðað aftur á bak en ekki áfram, aftur á bak á öllum sviðum. Ég tel, herra forseti, að við verðum að horfast í augu við þetta og komumst ekki hjá því.

Það er sama hvernig við lítum á málið. Við erum að veiða af bolfiski, ég ætla að taka bara bolfiskinn fyrir, svona 50%, kannski 60% af því sem var hér í frjálsri veiði. Sjávarbyggðirnar kringum Ísland byggðust vegna þess að verið var að taka á móti þessum fiski sem kom af Íslandsmiðum. Tilvera sjávarbyggðanna allt í kringum Ísland byggðist á því. Þess vegna urðu þær til og það er engin önnur forsenda fyrir byggðirnar.

Menn ræða mjög mikið um stöðu landsbyggðarinnar. Ég fullyrði að þetta er aðalvandi landsbyggðarinnar. Tekjufallið sem þetta veldur, þ.e. við erum kannski að taka núna 315--320 þús. tonn af bolfiski í staðinn fyrir 500--550 þús. tonn, tekjufallið á landsbyggðinni er aðalorsök vandamála okkar. En það er eins og enginn vilji horfa á þetta. Menn hafa uppi allar aðrar skýringar. Það er alveg sama hvernig á það er litið, tekjufallið er vandamálið. Ég hef séð skýrslur um byggðamál, þar er farið vítt og breitt um sviðið en ég heyri engan tala um þetta sem er þó alveg augljóst.

[14:00]

Ég sé fjölmiðlana ræða mikið um fiskveiðistjórnina. Ég sé þá hvergi segja að okkur hafi mistekist. Það er enginn sem ræðir það að okkur hafi miðað stórkostlega aftur á bak, að við höfum ekki náð neinum árangri. Ég sé ekki neinn tala um að við notum núna þrefalt meira vélarafl til að veiða kannski helmingi minni fisk en við veiddum áður. Ég sé ekki að prófessorar Háskóla Íslands sem hafa farið vítt og breitt um heiminn til að kynna íslenskt stjórnkerfi séu neitt að ræða þetta. Ég sé ekki að stjórnmálaflokkarnir á Íslandi séu neitt að taka á þessu máli.

Það virðist liggja fyrir, herra forseti, að allir flokkarnir fimm séu komnir í deilur og skiptist í tvennt. Tveir þeirra virðast vilja fara þá leið að koma hér á smáveiðileyfagjaldi, ,,hóflegu`` veiðileyfagjaldi segja þeir. Þrír þeirra vilja fara þá leið að fyrna smávegis veiðiheimildirnar og úthluta þeim svo aftur samanber till. til þál. sem liggur hér fyrir frá foringjum þriggja stjórnmálaflokka.

Ég fullyrði, herra forseti, að með þessu eru stjórnmálaflokkarnir allir fimm að drepa umræðunni á dreif, hvort sem þeir eru með eða á móti hóflegu gjaldi. Ég tel ekki ástæðu til að reyna að taka afstöðu til þess eða hvort menn væru með eða á móti að einhver örfá prósent væru fyrnd á hverju ári og úthlutað aftur í aflakvóta --- það breytir engu. Hin skelfilega staða sem við stöndum frammi fyrir er sú að við förum aftur á bak. Við förum aftur á bak. Ef við horfumst ekki í augu við þetta er voðinn vís fyrir þetta þjóðfélag. Ég ætla ekkert að segja hvers vegna. Menn geta deilt um það. En við eigum að spyrja allra spurninganna. Erum við að veiða fisk frá þorskinum og bolfiskinum? Erum við að eyðileggja skilyrðin til uppvaxtar? Erum við að veiða of mikið af rækju, loðnu og öðru slíku sem bolfiskarnir hafa sér til viðurværis? Ég þori ekki að segja til um það. Erum við að gera eitthvað stórkostlega rangt í veiðunum? Erum við að nota röng veiðarfæri á röngum tíma á röngum stað? Margir hafa bent á það. Það hefur samt enginn viljað taka það til umræðu. Eða það sem kannski er allra verst --- ef það er rétt sem mjög margir hafa bent á --- er hugsanlegt að stofnform fisktegundanna sé orðið mjög rangt og fiskurinn nái ekki að vaxa, og við náum ekki þeim fiski úr hafinu sem við gerðum áður. Fyrir fjölda ára voru allir þeir sjómenn sem ég þekkti --- í ein 6, 7 eða 8 ár sem það stóð --- á einu máli um að það væri þó nokkuð mikill fiskur á Íslandsmiðum og þeir trúðu ekki því sem Hafrannsóknastofnun var að segja. Nú ber annað við. Nú virðast næstum allir þeir sjómenn sem ég þekki og hef talað við vera sammála Hafrannsóknastofnun um að fiskigengd sé að minnka stórkostlega. Nú eru þeir sammála. Nú er samhljómur í því sem menn segja. Hvað segir það okkur? Það segir að okkur miðar enn þá meira aftur á bak. Og er þá ekki, herra forseti, tími til að stansa aðeins, hætta að rífast um það hvort eigi að fyrna 1, 2 eða 3% af veiðiheimildum og úthluta þeim aftur, eða hvort eigi að setja eitthvert auðlindagjald sem er víst til málamynda að því er mér skilst? Vonandi. Ég hef ekki kynnt mér það nákvæmlega. Og alþingismenn fari að átta sig, burt séð frá flokkum úr því að flokkarnir eru allir sammála um að skila auðu --- þeir eru allir sammála um það, allir fimm --- og fari þá að skoða í mikilli alvöru hvað við höfum verið að gera og hvort okkur beri ekki að velta við hverjum einasta steini og skoða nákvæmlega hvað við mættum annað gera og hvað gæti orðið okkur til bjargar.

Veiðarnar við Ísland eru nefnilega áfram höfuðundirstaða gjaldeyrisöflunar okkar, og þó að góðir menn í Reykjavík haldi að það sé bara vandamál smábyggðanna ef við náum ekki að veiða við Íslandsmið kemur það fljótt við Reykjavík því að þetta er ekki aðeins vandi smábyggðanna, þetta er efnahagsvandi Íslands. Þetta er í reynd stærsta efnahagsvandamál Íslands. Allt annað er hjóm eitt.

Það er ástæða fyrir alla stjórnmálaflokka, alla háskóla, alla fjölmiðla og alla þá sem fjalla um þetta mál að hætta að rífast um smámuni og fara að horfast í augu við blákaldar staðreyndirnar sem eru þær að í bolfiskveiðunum hefur allt mistekist sem við erum að gera, allt saman. Við höfum náð árangri varðandi veiðar á uppsjávarfiski. Þar gengur þetta ágætlega, að ég held. Þar er nokkurn veginn jafnvægi í vinnslu og veiðum. Þar er góð nýting á framleiðslutækjum og ég veit ekki til þess að þar séu neinar deilur, ekki neins staðar. En núna, að 12--16 árum liðnum, höfum við ekki náð neinum árangri heldur hefur okkur auðsjáanlega miðað mjög mikið aftur á bak --- og flokkarnir fimm ákveða allir að skila auðu.

Við eigum, held ég, ekki mikinn tíma eftir ef við ætlum að komast hjá stórkostlegum skaða á landsbyggðinni og í útgerðinni. Útgerðin stendur ekkert vel á Íslandi. Það er tilfellið. Hún stendur mjög illa. Eini nothæfi mælikvarðinn sem ég þekki er að mæla skuldastöðu sjávarútvegsins sem hlutfall af útflutningsframleiðslunni, verðmæti útflutningsframleiðslu sjávarafurða. Það er sá mælikvarði sem við verðum að nota og höfum alltaf notað.

Í dag er hlutfallið óhagstæðara en nokkurn tíma áður. Skuldir sjávarútvegsins eru um það bil tvöfalt verðmæti útflutningsframleiðslunnar, og þetta er stórkostlegt efnahagsvandamál vegna þess að þetta kemur í veg fyrir það að þessi grundvallaratvinnuvegur geti borgað laun og arð eins og hann svo sannarlega þarf á að halda, eins og byggðirnar þurfa svo sannarlega á að halda að hann geti gert. Þetta er málið og menn geta ekki vikist undan þessu. Það er ekki vandamál á Íslandi, þótt menn vilji rífast um það, hver fiskaði 4.000 eða 5.000 tonn af ýsu þetta árið eða hitt. Í dag er leyfilegt að veiða og landa helmingi minna magni af þeirri tegund heldur en við veiddum hér að meðaltali í frjálsri sókn áratugum saman, og svo er með alla aðra nytjastofna. Enginn undanskilinn. Efnahagsvandamál Íslands er eitt, okkur vantar gjaldeyri, og það er undarlegt ef menn gera sér ekki grein fyrir því. Það er ekkert annað vandamál í efnahagslífinu á Íslandi. Okkur ber að horfast í augu við það og það er engin skömm, ég geng út frá því að öllum þeim góðu mönnum sem að því hafa staðið og vilja vel og hafa lagt sig alla fram um að reyna að byggja upp einhverja vitræna stjórn hafi gengið gott eitt til. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað. En því frekar ber mönnum að horfast heiðarlega í augu við þennan veruleika og viðurkenna að okkur hefur mistekist, ekki eitt, heldur allt.