Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 14:12:34 (1109)

2001-11-02 14:12:34# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[14:12]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kalla það að skila auðu að koma með tillögur um það að setja gjald á sjávarútveginn í þessari stöðu sem á þó ekkert gjald að vera, hóflegt kalla þeir það, sambærilegt við það sem er, þannig að það gengur út og inn. Það breytir engu.

Ég kalla það að skila auðu að ætla að taka örfá prósent af úthlutuðum afla og úthluta honum aftur. Það breytir engu.

Ég tel hins vegar auðsætt að við höfum ekki náð neinum árangri, og ég spyr: Er ekki efnislegt að benda á að það magn sem við veiðum hafi farið stöðugt minnkandi í öllum tegundum? Er það ekki efnislegt? Er ekki efnislegt að benda á að skuldir sjávarútvegsins sem hlutfall af tekjum hans í útflutningi hafi farið vaxandi og hafi aldrei verið hærri? Er það ekki efnislegt? Ég bendi á það að uppsett vélarafl flotans sem er að veiða bolfiskinn hefur aldrei verið hærra og hefur meira en þrefaldast núna á 15 árum. Er það ekki efnislegt? Það hefði ég talið mjög efnislegt því að þetta er það sem við er að glíma. Við erum að glíma við það að sjávarútvegurinn geti skilað þjóðfélaginu því sem hann gerði. Það var sjávarútvegurinn sem kom þessari þjóð frá örbirgð til álna. Hann hefur staðið undir þessu samfélagi alla tíð. Þetta samfélag okkar á allt sitt undir því enn í dag að við náum að nýta svo Íslandsmið sem við gerðum áður. Ef okkur tekst það ekki er mikil vá fyrir dyrum hjá okkur. Það verður ekki leitað svo auðveldlega til annarra þátta þar sem við getum verið samkeppnishæfir í þessum heimi.

Menn hafa verið að líta til virkjana og það er ágætt. Vonandi tekst okkur þar vel til. En okkur hefur ekki tekist það í neinum mæli. Sjávarútvegurinn er það stór og hlutfallslega mikill að það er borin von á næstu áratugum að nokkur annar atvinnuvegur eigi eða megi eða geti undir nokkrum kringumstæðum tekið þann sess.