Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 14:27:57 (1118)

2001-11-02 14:27:57# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[14:27]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst aftur koma fram í ræðu hv. þm. gagnrýni á það að við hin gæfum þessum málum ekki nægilegan gaum, litum ekki nógu vítt til, værum of einskorðuð við stjórnkerfið, réttlætið eins og hann nefndi það og ég vil taka undir það. Það er réttlætismál hvernig við stjórnum aðgangi að okkar sameiginlegu auðlind.

En ég vil líka mótmæla því sem hann fullyrðir hér að menn séu almennt ekki að hugsa um þessi mál í víðara samhengi. Ég vil benda á þær ótal ræður sem hér eru fluttar þar sem menn lýsa viðhorfum sínum og ekki síður þau þingmál sem hér liggja fyrir hvort sem það eru fyrirspurnir eða þingsályktanir þar sem sannarlega koma fram áhyggjur manna af því hvernig þessum málum er háttað, því að það gera sér auðvitað fleiri en hv. þm. grein fyrir því að hér erum við að ræða það sem skiptir mestu máli varðandi efnahagsundirstöður hjá okkur á Íslandi.

Ég er komin að þeirri niðurstöðu, herra forseti, að það sem hv. þm. er fyrst og fremst að lýsa hér er óánægja með umræðu í eigin flokki og hann reynir að drepa málum á dreif með því að láta sem svo að allt sé við það sama í öllum flokkum.