Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 14:30:21 (1120)

2001-11-02 14:30:21# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[14:30]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson afgreiddi þetta frv. sem hér liggur fyrir nokkuð vasklega áðan þegar hann talaði um það sem kjarasamning á milli sjútvrh. og hinna einstöku hópa útgerða í landinu, þ.e. samningaviðræður við sjútvrh. um það hvernig skyldi skipt. Og segja má að það megi horfa á þetta frv. með þeim augum. Ég ætla ekki að gera það afstæða réttlæti sem í þessu frv. felst að megininntaki máls míns þar sem menn eru með handafli að færa veiðiheimildir milli aðila. Menn geta á hverjum tíma velt fyrir sér hvað sé til bóta innan þess ramma sem þeir starfa samkvæmt, og ugglaust geta menn komist að þeirri niðurstöðu, eins og hv. þm. sem hér talaði á undan, að innan þess ramma sem hann teldi sig eiga möguleika væri þetta skásta niðurstaðan. Eins og ég sagði: Réttlætið getur verið afstætt. Kannski er þetta skásta niðurstaða einhverra og við eigum eftir að ræða frekar í dag um aðra möguleika til að mæta þeim sjónarmiðum sem helst hafa verið uppi varðandi þróun smábátaútgerðar á Íslandi.

Það sem mig langaði til að tala um í dag, herra forseti, er aðdragandi lagasetningarinnar sem menn rekja í rauninni það frv. til sem varð að lögum í janúar 1999. Það innibar þau ákvæði sem síðan leiða til þess frv. sem við ræðum í dag, þ.e. sá hluti þess sem sneri að smábátum. Ég vil í öðru lagi ræða aðeins um 3. gr. þessa frv. sem snýr að byggðakvóta og síðan um 4. gr. sem er um brottkast og aðgerðir gegn því.

Herra forseti. Lögin sem breyttu umhverfi smábátanna með þeim hætti sem menn horfa nú framan í við gildistöku laganna 1. sept., og væntanlega einhverra þeirra frv. sem hér liggja fyrir, rekja sig til svokallaðs Valdimarsdóms sem Hæstiréttur felldi í desember 1998. Eftir þann dóm var það álit sérfræðingahóps ríkisstjórnarinnar að afnema yrði 5. gr. laganna um stjórn fiskveiða enda bryti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að ekki gætu allir fengið veiðileyfi sem á annað borð gætu orðið sér úti um skip. Jafnframt var það niðurstaða þessa sérfræðingahóps að allt yrði að vera í seljanlegum einingum, þ.e. það yrði að vera hægt að framselja allar aflaheimildir í fiskveiðistjórnarkerfunum hvernig sem þau væru og þar með urðu til hinir framseljanlegu sóknardagar. Um tíma voru menn uppteknir af því að grásleppan yrði að vera þarna inni líka en komust að niðurstöðu um að þar væri málið það einfalt að veiðileyfið gilti jafnframt till þess að menn gætu veitt þó að það gerði það ekki í öðrum tilfellum þar sem menn urðu sérstaklega að verða sér úti um aflaheimildir eða sóknardaga.

Eins og þeir muna sem fylgdust með þeim umræðum urðu hér nokkrar deilur um þessa túlkun sérfræðingahópsins. Menn voru ekki á eitt sáttir um það að einungis væri átt við 5. gr. og menn voru heldur ekki á eitt sáttir um það hvort breyta bæri 5. gr. með þeim hætti sem gert var og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson rakti það áðan að nokkru vegna þess að þarna var um að ræða flotastýringargrein fiskveiðistjórnarlaganna, þá grein sem tók á því að menn mættu ekki stækka fiskveiðiflotann. Með því að taka hana úr sambandi var auðvitað verið að opna hér á mikla stækkun eða aukningu í flotanum.

Jafnframt var mikið rætt um jafnræðisreglu og segja má að hún hafi fengið nokkuð meiri umfjöllun en verið hafði. Reyndar hafði stjórnarskránni verið breytt nokkrum árum áður og kannski var þetta í fyrsta skipti eftir að henni var breytt að dæmt var á grundvelli jafnræðisreglu og menn tóku hana jafnítarlega til umfjöllunar og gert var þarna og síðar var gert, eins og menn muna, þegar öryrkjadómurinn var krufinn til mergjar á Alþingi. En alltént varð niðurstaða meiri hlutans á Alþingi sú að taka 5. gr. út, setja smábátunum ákveðnar reglur sem þó voru að hluta til kannski grófara brot á stjórnarskránni en það sem verið var að forða þeim frá núna þar sem endurnýjunarreglan var þyngd þar og síðan varð það niðurstaða, ekki síst eftir áeggjan stjórnarandstöðu, að endurskoða þyrfti lögin um stjórn fiskveiða. Ef ég man rétt, og ég þykist nú gera það því að ég tók þátt í þessari atburðarás, þótti mikilvægt að lögin um stjórn fiskveiða yrðu endurskoðuð, ekki síst til þess að þar gætti innra samræmis. Menn voru svona gróft tekið sammála um að það væru ekki nógu góð vinnubrögð að taka eina grein út eins og 5. gr. Menn yrðu að reyna að horfa á þetta í samhengi og í heild sinni og því var sett inn bráðabirgðaákvæði sem kvað á um að endurskoða skyldi lögin um stjórn fiskveiða. Það er sú endurskoðun sem nú hefur farið fram. Sú endurskoðunarnefnd hét ekki sáttanefnd fyrr en í síðustu alþingiskosningum. Fram að þeim tíma var hér einungis um að ræða bráðabirgðaákvæði í fiskveiðistjórnarlögum sem var hugsað til þess að menn færu yfir löggjöfina til þess að hún væri vönduð og í henni væri ákveðið samræmi vegna þess að það var ljóst að m.a. vegna þess ósamræmis sem menn töldu vera í lögunum var líka endalaus ágreiningur um framkvæmd laganna.

Nú ætla ég að biðja hæstv. ráðherra að vera í salnum ef þess er nokkur kostur svo að ég geti haldið áfram máli mínu. Það er mikilvægt að hann sé viðstaddur.

(Forseti (ÁSJ): Forseti mun láta athuga það.)

Það sem ég er að leiða ræðu mína að, herra forseti, er að fyrir kosningar var skipuð svokölluð auðlindanefnd samkvæmt tillögu sem Alþingi samþykkti og þegar Alþingi samþykkti hana samþykkti það jafnframt hóflegt auðlindagjald. Það gerðist árið 1998. Hlutverk þeirrar nefndar var fyrst og fremst að útfæra þessa tillögu Alþingis sem fól í rauninni í sér samþykkt á svokölluðu hóflegu auðlindagjaldi. En sáttanefndin sem nú var að skila var, eins og ég sagði áðan, hluti af lögunum sem voru sett í janúar 1999, fyrir kosningar.

Ég ætla rétt að víkja að ummælum --- það var reyndar verið að vitna í ályktun í máli hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar áðan þegar hann talaði um skattlagningu á sjávarútveginn --- og niðurstöðum þessarar endurskoðunarnefndar. Menn tala um að í þeim niðurstöðum sem þar liggja fyrir eigi að liggja einhvers konar sátt sakir þess að þar sé verið að tala um auðlindagjald, um veiðigjald sem þegar best lætur á að geta farið upp í 2,5 milljarða. Á móti fellur niður þróunarsjóðsgjald og þetta ætla menn að kalla skatt. Ég held að mér hafi ekki misheyrst að Kristján Ragnarsson hafi á aðalfundi LÍÚ í gær, um leið og hann skammaði þingmenn fyrir heimsku, verið að skammast út í þessa skattlagningu. En þá vil ég, herra forseti, að hér komi fram, ekki í fyrsta skipti og sjálfsagt ekki í það síðasta, að menn geta tæpast kallað það skattlagningu á meðan þeir eru enn að greiða fyrir þann kostnað sem skattgreiðendur nú standa undir vegna útgerðar og stjórnar fiskveiða í landinu.

Málum er þannig háttað að skattgreiðendur á Íslandi greiða að langstærstum hluta fyrir það sem það kostar hið opinbera að stunduð sé útgerð hér og stjórn fiskveiða, standa að því hvernig auðlindin er nýtt. Það hefur verið talið eðlilegt að atvinnugreinar --- ég tala nú ekki um einstaklingar --- hefðu kostnaðarvitund og greiddu fyrir þann kostnað sem hlýst af ýmsum athöfnum þeirra og mér hefur fundist að það væri fullkomlega eðlilegt að slíkt ætti við um sjávarútveginn líka, að hann greiddi sín kostnaðargjöld, að hann greiddi fyrir þann kostnað sem af honum hlýst og nú er ég að tala um útgerðina.

Það hefur verið tekið saman af nokkrum aðilum hver þessi kostnaður er. Menn hafa farið allt upp í 3% af útgjöldum ríkisins. Hvað er það mikið í dag þegar við erum að tala um fjárlög upp á 230 milljarða, er að ekki? Þetta eru yfir 6 milljarðar sem menn eru að tala um í kostnaðargjöld. Þá reikna menn stíft að mínu mati, ég er til í að reikna mun vægar, ég er til í að fara í 2,5 milljarða og vera þá ekki með sjómannaafsláttinn inni. En þá erum við að tala um þessa tölu sem hæst verður farið, þegar best lætur, í því gjaldi sem endurskoðunarnefndin telur að eigi að vera hér til sátta. Þá spyr ég: Hvar er þá greiðslan fyrir aðganginn að auðlindinni? Ætla menn þá bara að fá hann frítt? Það virðist vera, herra forseti. Og þá ætla ég að koma að niðurstöðum auðlindanefndar vegna þess að hæstv. sjútvrh. --- sem ég treysti að sé í næsta herbergi önnum kafinn og sé á leiðinni hingað inn --- hefur viljað leita skjóls fyrir tillögur meiri hluta endurskoðunarnefndar í tillögum auðlindanendar. Það skjól sem hann finnur er í nafninu veiðigjald. En ég held að hæstv. ráðherra hafi aldrei lesið álit auðlindanefndar, a.m.k. hefur hann ekki gefið því gaum sem hann hefði átt að gera, vegna þess að auðlindanefndin vill að útgerðin greiði kostnaðargjald, og hún reifar m.a. þá hugmynd að árlega sé selt aflamark fyrir þessu kostnaðargjaldi, að allir sem fá úthlutað aflamarki á Íslandsmiðum þurfi að skila inn tilteknum hluta á hverju ári sem verði síðan nýttur til kostnaðargjalda. Þar fyrir utan komi síðan greiðsla fyrir auðlindina, fyrir aðganginn. Þar fyrir utan, herra forseti. Og svo ég vitni beint í niðurstöðu auðlindanefndar, þá var meginniðurstaðan sú að þar sem samkeppnisforsendur væru fyrir hendi, þar skyldi bjóða afnotarétt sameiginlegra auðlinda út. Telja menn að samkeppnisforsendur séu fyrir hendi í sjávarútvegi? Eru fleiri sem vilja gera út á Íslandi en gera það í dag? Ég held að það sé tvímælalaust, herra forseti. Ef ekki væru samkeppnisforsendur fyrir hendi skyldi samið um gjald með hliðsjón af mögulegri auðlindarentu.

Varðandi fiskveiðarnar tók nefndin tvær meginleiðir til skoðunar, fyrningarleið sem var meginviðfangsefnið mestan tíma af starfi nefndarinnar vegna þess að það var leið sem flestir gátu sætt sig við, og raunar allir um tíma, og síðan svokölluð veiðigjaldsleið sem kom inn sem eins konar varaskeifa og var að mínu mati allan tímann það slöpp að ég reiknaði aldrei með að hún yrði notuð. Hún var þó ólíkt burðugri en sú leið sem meiri hluti endurskoðunarnefndar er nú að leggja til sem, eins og ég sagði áðan, er búinn að stefna á tiltekið gjald sem varla nær að dekka kostnaðinn, og búinn heilagur. Leið auðlindanefndar, veiðigjaldsleiðin, var auk kostnaðargjaldsins, herra forseti, að menn greiddu fyrir aðgang að auðlindinni en auk þess þyrfti að setja sérstakar reglur til að tryggja sveigjanleika í viðskiptum með aflaheimildir og aðgengi að greininni. Það taldi nefndin að best yrði gert með því að bjóða upp tiltekna aflahlutdeild árlega til þess að vera þarna með ákveðna opnun. Ég er ansi hrædd um, herra forseti, að þetta sé dálítið langt frá því sem hæstv. sjútvrh. telur að sé niðurstaða endurskoðunarnefndar --- aðra hvora niðurstöðuna hefur hann ekki lesið nægjanlega --- en þetta er, herra forseti, kannski í stíl við aðra túlkun hæstv. ráðherra á niðurstöðum auðlindanefndar og endurskoðunarnefndarinnar. Sem dæmi um ummæli ráðherra vil ég nefna það að endurskoðunarnefndin leggur það til að hægt sé að setja kvóta á fiskvinnsluhús. Hæstv. ráðherra lét þau orð falla á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva að þessi tillaga ætti ákveðna samsvörun í tillögum auðlindanefndar og þá fór ég að sperra eyrun, að tillaga um að setja kvóta á fiskvinnsluhús gæti átt ákveðna samsvörum í tillögum auðlindanefndar. En þetta er kannski alveg dæmigert. Jú, herra forseti, það var þannig að auðlindanefndin tók til umræðu þann möguleika að setja kvóta á fiskvinnsluhús en hafnaði hugmyndinni vegna þess að það var niðurstaðan að ef á annað borð yrði farið með handhöfn kvóta út fyrir fiskiskipin væri eðlilegra að það yrði skoðað að allir gætu þá orðið handhafar aflahlutdeilda. Hins vegar taldi nefndin að slík hugmynd þýddi það mikla breytingu að áður en hægt væri að leggja slíka tillögu fyrir yrði að fara fram víðtæk umræða í samfélaginu. Þetta er samsvörunin.

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að flest af því sem hæstv. ráðherra hefur viljað meina að ætti sér samsvörun í tillögum auðlindanefndar er á þennan veg. Það er hörmulegt að ekki skuli vera hægt að fara með öðrum hætti með þær niðurstöður sem fyrir liggja en þeim sem ég hef hér verið að lýsa, og kannski sýnu verra þegar hæstv. ráðherra gerir síðan þeim sem að þessum álitum standa eða þeim sem kunna að vera í minni hluta eða skrifa sérálit upp aðrar skoðanir en þeir hafa. Þannig má kannski segja að blekið hafi ekki verið þornað á pappírum auðlindanefndar þegar hæstv. ráðherra var farinn að gera því skóna að einhverjir mundu hlaupa undan þeirri niðurstöðu. Ég held að menn hafi ekki hlaupið undan þeirri niðurstöðu sem þar varð. Meginniðurstaðan varð sú --- og það er sama meginniðurstaða og varð í tillögum endurskoðunarnefndarinnar --- að bæði væri rétt og eðlilegt að menn greiddu fyrir afnot af sameiginlegri auðlind. Það var meginniðurstaðan. Ég veit ekki til að neinn hafi hlaupið frá henni. Hins vegar er alveg ljóst að það var ekki samkomulag í auðlindanefndinni um það hvaða leiðir ætti að fara og ég er búin að gera grein fyrir því, bæði hér í ræðustól Alþingis og eins í blaðagreinum sem ég hef skrifað og pistlum, að það lá alveg ljóst fyrir innan nefndarinnar, án þess að það þyrfti að bókast sérstaklega, hvar fulltrúar Samfylkingarinnar í auðlindanefnd voru staddir þegar þetta álit var afgreitt. Það kemur fram í álitinu að nokkrir nefndarmanna muni einungis geta fellt sig við aðra leiðina og ég hélt satt að segja, herra forseti, þegar nefndin lauk störfum sínum að þar væri um að ræða sameiginlega bókun allra. Það gerðist svo á síðustu metrunum að tveir fulltrúar ákváðu að bóka séstaklega til að ítreka kannski ákveðið frávik frá þeirri meginlínu sem nefndin var með sem var allt önnur. Þeir sem fylgja meginlínu þurfa síður að bóka en hinir sem eru með frávik. Tveir voru klárlega með frávik frá meginlínunni. En meginlínan var eins og ég sagði áðan að þar sem samkeppnisforsendur væru fyrir hendi skyldi bjóða afnotarétt þjóðareigna út. Meginlínan var fyrningarleið.

Mér finnst, herra forseti, að menn eigi ekki að þurfa að standa í svona karpi hér, satt best að segja, og ég ætlaði mér aldrei og taldi aldrei að ég þyrfti hér að vera að rekja nefndarstarf. Kannski endar þetta með því að ég fari að sækja fundargerðir til þess að hæstv. ráðherra fari að skoða hlutina eins og þeir eru en ekki eins og hann vildi að þeir væru.

Ég sé, herra forseti, að ég hef tekið megnið af tíma mínum í það sem átti að verða hluti af ræðu minni, og það þýðir einfaldlega að ég þarf að fara aftur á mælendaskrá til þess að fara yfir þau tvö atriði sem ég vildi fara yfir, en mér fannst mikilvægt að koma þessu á framfæri, ekki síst vegna þeirrar umræðu sem hér átti sér stað í upphafi þingfundar í dag. Það er óþolandi fyrir mig og fyrir aðra þá sem sátu í auðlindanefnd og fyrir þá sem sátu í endurskoðunarnefndinni að búa endalaust við það að ráðherra þykist hafa betri upplýsingar um það sem raunverulega gerðist þar heldur en þeir sem í nefndunum sátu.