Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 15:17:43 (1125)

2001-11-02 15:17:43# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[15:17]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. 1. þm. Vestf. tók mikinn þátt í umræðunni í vor þegar lagt var fram frv. sem gekk út á það að endurskoðunin á veiðum smábátanna fylgdi endurskoðuninni á fiskveiðikerfinu í heild. Og það var hann sem ákvað það hér að það frv. sem ég var að nefna kom ekki til afgreiðslu í þinginu. Ég spyr þess vegna: Er hv. þm. þá ánægður með það sem upp úr þessu hafðist sem er þetta frv. núna? Eða telur hann að það hefði kannski verið heppilegra að menn hefðu horft á allt málið í einu? Eða þriðji möguleikinn: Er það kannski svo að hann reikni ekki með því að neinar marktækar breytingar verði á lögunum um stjórn fiskveiða og þess vegna hefði endurskoðun á smábátakerfinu í sjálfu sér ekki haft neitt annað í för með sér en að verða svolítið seinna á ferðinni og útkoman hefði orðið sú sama? Því að hv. þm. er greinilega að boða og gerir fastlega ráð fyrir því --- ég dreg það af orðum hans --- að seinna í vetur muni menn glíma við aðrar lagabreytingar en þessar á lögunum um stjórn fiskveiða. Það hlýtur þá að þýða að hingað eigi að koma með frv. sjútvrh. sem hann hefur boðað í kjölfar þess að meiri hluti endurskoðunarnefndarinnar skilaði af sér. Það verður þá ekki mjög langt á milli þeirrar lagasetningar sem nú er verið að tala um um smábátana og síðan endurskoðunarinnar sem á að gera á grundvelli afskilnaðar nefndarinnar.