Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 15:27:00 (1129)

2001-11-02 15:27:00# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Í upphafi vil ég gjarnan beina spurningu til hæstv. sjútvrh. af því að ég missti af því og ég hef ekki heyrt að það hafi komið fram, að í síðustu málsgrein 7. gr. er talað um að útgerðum báta verði heimilt að velja milli veiðileyfis með krókaaflamarki og veiðileyfis til handfæraveiða með dagatakmörkunum og skuli útgerðirnar velja fyrir 1. nóvember. Spurningin er hvort gefin hefur verið einhver skýring á þeim degi, að hann flytjist til, því að þegar menn lesa þetta velta þeir auðvitað fyrir sér hvaða tímatakmörk verða, það hljóti náttúrlega að verða að miða við einhverja daga eftir gildistökuna, ef af verður. Ég hef svo sem engar sérstakar áhyggjur af því að þessu verði ekki skotið inn en ég vona að hæstv. ráðherra geri grein fyrir því á hvern hátt þetta er.

Virðulegur forseti. Það frv. sem við ræðum í dag sker nokkra úr þeirri snöru sem lagasetningin er gekk í gildi með nýju kvótaári 1. september sl. setti þá í. Menn voru komnir í snöruna og þegar þeir tóku við tilkynningunni, þeir sem stunduðu veiðar á svokölluðu 40 daga 30 tonna kerfi, meðaltalsafli þeirra var kominn niður í 8 tonn, hafði verið 22 tonn í þeim flota hjá 89 bátum, þá sögðust þeir hafa verið að taka á móti dauðadómnum.

Þess vegna sagði ég að verið væri að skera menn úr snörunni. Þeim er gefið færi á að velja það kerfi sem er núna orðið 21 dagur með þeim kostum og göllum sem því fylgja. En það kerfi er þannig að það kallar á varasamar vökur þegar menn eru að reyna að nota allan sólarhringinn til veiðanna. Og þetta segi ég til að benda á ágallann í því kerfi.

En ég vil segja við hæstv. sjútvrh. að virða ber það til betri vegar þegar menn reyna að bæta úr svo augljósum göllum eins og þarna voru við lagasetninguna sem tók gildi 1. september. Og ég skil það svo að þeim bátum, fimm bátum á landinu sem eru með línu- og handfæraleyfi, gefist kostur á að velja sig inn í þetta kerfi um leið. Þetta eru því, ef ég man rétt, 94 bátar alls sem þarna fá þó möguleika á að halda áfram.

[15:30]

Í þessu frv. er gert ráð fyrir auknum kvóta í ýsu, steinbít og ufsa til þeirra manna sem fá þá úthlutun, og það verður fróðlegt að sjá hvernig það gerist. Fyrir skömmu var líka útdeilt kvóta í karfa, löngu og keilu. Svo að menn bara viti það hafa margar þær úthlutanir verið aðhlátursefni á heimilum sjómanna þar sem þeim hefur verið úthlutað jafnvel bara tveimur kílóum af löngu eða ufsa eða einhverri annarri tegund. Ég held að það sé hreinlega kjánaskapur að vinna að úthlutun á þennan veg, að senda mönnum í pósti tilkynningu um að þeir megi veiða tvö kíló af löngu eða keilu eða einhverju öðru.

Ég held að menn verði að átta sig á því að ef þeir eru að gefa heimildir fyrir meðafla þarf að setja a.m.k. hálft tonn, 500 kíló --- því að það er kannski um lítinn afla að ræða í þessum tegundum --- en menn geta þá sloppið við að gerast lögbrjótar, því að um leið og maður sem hefur tveggja kílóa heimild í löngu er kominn með einn fisk verður hann að henda öllum öðrum fiskum í sjóinn eða koma með þá í land, kaupa sér kvóta fyrir þeim eða þá að gerast lögbrjótur og landa fram hjá eða finna enn aðra úrlausn. Það eru svona gallar í þessu öllu saman, kvótakerfinu og öðru, sem menn þurfa að hafa eitthvert svigrúm fyrir. Og ég vona bara að hv. sjútvn. taki á svona málum og reyni að koma inn einhverri sveigju. Ég veit að hæstv. sjútvrh. skilur alveg hvað ég er að tala um í þessum málum.

Í þessu frv. er einnig verið að gæla við byggðakvóta. Það liggur ekkert enn þá fyrir hvernig á að fara með þá úthlutun og það hefur þegar komið fram mikill ótti varðandi slíkan kvóta, byggðakvóta. Menn eru alveg sannfærðir um að allveruleg mismunun geti komið út úr því. Rétt er að geta þess að líklega misstu á annað hundrað manns vinnuna 1. sept. þegar gildistakan varð með nýju kvótaári. Þá hættu margir menn að róa, og í sjávarplássunum, sérstaklega á vestanverðu landinu, Vestfjörðum og á Vesturlandi og allt suður á Suðurnes, misstu menn hreinlega vinnuna. Það er á annað hundrað manns sem ég vona að fái einhverja vinnu aftur þegar menn eru búnir að bæta svolítið úr með þessu frv. Og ég treysti hv. sjútvn. til þess að ná niðurstöðu um smámál sem þarf að lagfæra svo að þetta gangi betur fyrir sig.

Herra forseti. Ég get heldur ekki sleppt því frekar en oft áður í mínum ræðum að nefna gleymda flotann. ,,Gleymdi flotinn``, hvaða floti ætli það sé? Gleymdi flotinn er bátarnir frá 40 og upp í u.þ.b. 200 tonn, það er flotinn sem minnst hefur verið rætt um. Þar sitja margir í þeirri súpu að hafa litlar aflaheimildir, þeir eru leiguliðar stórútgerðarmanna og eru sumir að leigja sér kvóta fyrir yfir 100 milljónir. Bátar með sex, sjö manna áhöfn eru að leigja til sín kvóta fyrir yfir 100 milljónir og fá til skiptanna verð sem er frá 20 og upp í kannski 70 kr. Þetta er nú allt hagræðið sem er í kerfinu.

Og hverjir hirða þetta hagræði? Það eru einhverjir kvótaeigendur, hvort sem menn kalla þá litla eða stóra, sægreifa, smágreifa eða eitthvað annað. Kerfi, sem býður upp á slíkt, finnst mér ranglátt og ég held að það sé ómanneskjulegt og ég held líka að það sé ekki það hagræði í því sem menn hafa reiknað út.

Virðulegi forseti. Ég tek þátt í þessari sjávarútvegsumræðu á sömu forsendum og áður --- það verður að auka jafnræði milli þeirra manna sem starfa við sjávarútveg, vilja starfa við sjávarútveg og eiga ekki möguleika á öðru en að vinna þau störf sem tengjast sjávarútvegi. Ég vil enn þá ítreka það sem ég hef oft sagt hér í þessum ræðustól, öll útgerðarmynstur eiga rétt á að vera með í íslensku útgerðarflórunni. En ég verð að segja það aftur að ég finn mest til með þeim sem hafa verið að brjótast í að byrja í kerfinu og þeim sem eru að berjast meira og minna við leigukvótana.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að flytja langt mál að þessu sinni. Ég verð að segja að ég vona að hv. sjútvn. nái að bæta úr því sem hefur farið aflaga. Ég hef farið nokkrum viðurkenningarorðum um þau atriði sem losa snöruna frá hálsum manna en ég get ekki, virðulegur forseti, gengið mikið lengra en það. Ég óska sjútvn. alls hins besta í sínum störfum, að hún nái að lagfæra eitthvað af þeim atriðum sem ég var að nefna.