Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 15:59:32 (1133)

2001-11-02 15:59:32# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[15:59]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því í ræðu hv. þm. Kristjáns Pálssonar að hann útlistaði nákvæmlega hvað einn bátur sem hann sagðist kannast við eða ein útgerð hefði fengið annars vegar í kvótaúthlutun, ég held að hann hafi nefnt ýsu ef ég tók rétt eftir, og hvað hann fengi samkvæmt þessu frv. Ég verð að segja að ég get bara ómögulega lesið það út úr frv. hvar hönd er á festandi nákvæmlega hvað menn fá í úthlutun því að í 3. gr. segir að ráðherra sé heimilt að úthluta til árs í senn samtals allt að..., og síðar segir: ,,Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.``

Ég vil spyrja hv. þm. úr því að hann getur nefnt svona dæmi hvort hann geti útlistað fyrir okkur eftir hvaða reglum er unnið. Hann hlýtur að hafa það úr því að hann getur nefnt slíkt dæmi að 5 tonn verði 15 tonn og einhver annar bátur fái 17 tonn o.s.frv.

Þá vil ég einnig spyrja hvort ekki sé rétt að slíkt skjal komi þá fram, ef það er til hjá stjórnarliðum, sem skýrir út allt efni frv. því að hér er bara heimildarákvæði sem enginn veit hvað þýðir.