Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 16:01:23 (1134)

2001-11-02 16:01:23# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[16:01]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki nákvæmlega hvort hv. þm. er eitthvað að ruglast í ríminu. Ég er ekki að tala um 3. gr. sem er eins konar byggðakvóti og eingöngu fyrir sjávarbyggðir sem að verulegu leyti eru háðar veiðum krókaaflamarksbáta. Ég er að sjálfsögðu að miða við 7. gr. þar sem verið er að bæta við krókaaflamarksbátana, í fyrsta lagi 1.800 lestum af ýsu, í öðru lagi 1.500 lestum af steinbít og svo í þriðja lagi 300 lestum af ufsa. Því skal skipta á milli þeirra á grundvelli veiðireynslu þeirra í þessum tegundum á tímabilinu 1. júní 2000 til 31. maí 2001. Þetta magn kemur til viðbótar við þá úthlutun í þessum tegundum sem ákveðin var í reglugerð nr. 631, 3. ágúst 2001, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2001--2002.

Það stendur hér einnig, með leyfi forseta: ,,Hlutur krókaaflamarksbáta skal eftir endurreikning hlutdeildar vera 14,4858770% í ýsu ...`` o.s.frv. Ég ætla ekki að lesa upp allar þessar tölur en þetta stendur hér nákvæmlega. Það á út af fyrir sig ekki að vera vandamál fyrir þá sem vita hvað þeir hafa veitt mikið á þessu tímabili og hver úthlutunin er að finna út hvernig staða þeirra yrði eftir breytinguna. Allir vita væntanlega hvað þeir fengu úthlutað 1. sept.

Ég hef ekki fengið neitt skjal frá ráðuneytinu, ég vil bara taka það fram. Þetta kemur ekki frá ráðuneytinu í einhverju skjali til mín. Þetta er eingöngu það sem ég hef verið að skoða, og ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en sú niðurstaða sé rétt.