Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 16:05:42 (1137)

2001-11-02 16:05:42# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[16:05]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til að biðja hv. þm. að útskýra það fyrir mér af hverju við ættum að trúa því að í þessu smábátakerfi sem þarna er verið að skapa núna, með framseljanlegum veiðiheimildum og með því að loka því alfarið eins og nú er stefnt að, verði nýsköpun og lífvænlegt. Hvernig mun nýliðun koma til eftir að það er gengið í gegn sem hér er lagt til? Nánast má segja að engin nýliðun hafi verið í útgerð á Íslandi frá því á síðasta áratug --- nema í gegnum smábátakerfið, bara í gegnum þessa smugu sem verið er að loka núna. Hvað fær hv. þm. til að trúa því að með þessu fyrirkomulagi sem þarna er, sem hefur í sjálfu sér algjörlega sama grunn og stóra kerfið, verði tryggð einhver nýliðun og farsæl framtíð fyrir útgerð af þessu tagi?

Menn eru að tala um sátt við sjómenn í þessu --- ég vil bæta því við að ég hef séð marga sem hafa verið á móti kvótakerfinu taka U-beygju og fara að vinna með því, þ.e. að tala með því. Það hefur yfirleitt verið vegna þess að þeim hefur verið úthlutað kvóta sem hefur verið það mikils virði að þegar þeir hafa áttað sig á hvað þeir gætu selt kvótann á hafa þeir talið sig hafa meiri hagsmuni af því að viðhalda þeim möguleika heldur en að fara að styðja einhverjar hugmyndir um breytingar sem mundu kannski gefa þeim miklu betri rekstur í framtíðinni. Þeir hafa einfaldlega ekki tekið áhættuna af því að styðja það. Þannig hefur breytingin ævinlega orðið, þegar menn hafa ruglast af gullfæti útgerðarinnar.