Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 16:25:05 (1145)

2001-11-02 16:25:05# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[16:25]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Það mál sem við ræðum nú er í framhaldi af lagasetningu fyrir tveimur árum. Málið varðaði það fyrst og fremst að bregðast við niðurstöðunni í Valdimarsdómnum eða dómi Hæstaréttar um Valdimarsmálið svokallaða, sem leiddi til þess að við urðum að afnema síðustu aðgangstakmarkanir að fiskveiðum. Um það er aðeins eitt að segja að enn sem komið er hef ég ekki kynnst fiskveiðistjórnarkerfi annarra ríkja sem viðhefur ekki aðgangstakmarkanir. Þetta mat Hæstaréttar hérlendis, sem er kannski ólíkt hæstarétti eða hæsta dómstigi annarra ríkja, er að slíkar takmarkanir standist ekki stjórnarskrá.

Hins vegar liggur fyrir að Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu í öðrum málum að þær takmarkanir sem notaðar eru til þess að hafa stjórn á fiskveiðum okkar í dag standist stjórnarskrá. Þær mismuna ekki mönnum og standast allar jafnræðisreglur og aðrar þær æðstu reglur stjórnsýslu sem við þurfum að hafa hliðsjón af.

Meginefni þessa frv. þó að það sé ekki stórt er að skapa þær aðstæður fyrir veiðar krókabátanna eftir þær aðgerðir að þeir geti unað við aflatakmarkanir sem þeir höfðu ekki búið við til þessa ólíkt öllum öðrum sem stunda fiskveiðar við landið. Ég skal árétta það enn sem fyrr að ég hef verið ósáttur við það fyrirkomulag sem ríkti fram að þessu. Ég hef alltaf séð á því mismunun milli manna sem stunda fiskveiðar, mismunun milli útgerða hvort sem þær eru í eigu einstaklinga eða félaga einstaklinga. Það er alltaf fólk að baki öllum fyrirtækjum. Við fyrirtækin vinnur fólk. Allir sem bera áhættuna af starfsemi þeirra og afkomu er fólk, karlar, konur og börn. Miklu máli skiptir að geta þess að sum þau atriði sem hafa komið fram í umræðunni eru ekki efnisatriði þessa frv. en það er ævinlega einkenni á umræðum okkar á hinu háa Alþingi, um stjórn fiskveiða, um sjávarútvegsmál og jafnvel um efnahagsmál að þær umræður fara út um víðan völl og enda ævinlega sem almennar umræður um sjávarútveg.

Ég tel rétt að láta það koma fram að ég hefði ekki haft frumkvæði að frv. sem þessu til að draga svo úr áhrifum laganna á krókabátana. Það er svolítið merkilegt að heyra þingmenn, sem sumir hverjir hafa minnst á hinn gleymda flota, standa frammi fyrir því eftir hverja umræðu að þeir hafa sjálfir gleymt þeim flota. Hann er ekki í hópi krókabáta. Hann er í hópi smábáta sem hafa ár og síð stundað veiðar undir hinu almenna stjórnkerfi, aflamarkskerfinu svonefnda.

Nú mun niðurstaðan verða sú að sumir þeirra báta, ekkert stærri en þessir og hafa jafnvel verið lengur í útgerð, munu verða starfræktir við minni aflaheimildir en krókabátarnir. Ég er næsta viss um það, herra forseti, að ef við berum saman aldur útgerðanna þá mun aldur þeirra krókabátaútgerða sem breytast núna og hægt verður að bera saman við þá aflamarksbáta sem ég var að nefna, þá grunar mig að þeir bátar sem standa betur eftir þær aðgerðir séu yngri í útgerð.

Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að þetta er eitt af þeim atriðum sem mér hefur alltaf þótt furðulegt við umræður okkar um stjórn fiskveiða. Þær hafa alltaf beinst að því ár og síð, ár eftir ár, að reyna að bæta hag krókabátanna. Mér hefur þótt þeir hv. þm. sem hafa haft sterkust orð um það og fært fram mest rök fyrir ástæðunni til þess gjarnan gleyma öðrum útgerðarmönnum sem starfa líka á bátum þar sem veiðar stýrast fyrst og fremst af veðurlagi og smæð bátanna.

[16:30]

Ég get meira að segja viðurkennt að mér sýnist að öllu stærri og miklu eldri bátar sem hafa alla tíð verið undir aflatakmörkunum, eða frá því fyrir 1990, verði núna eftir þetta með lægra aflamark en sumir af krókabátunum. En ef grannt er skoðað verður líka hægt að sjá að þeir krókabátanna sem fara yfir þessa báta í aflamarki eru svonefndir niðurmældir bátar, eru í raun talsvert stærri en 6 tonnin sem miðað er við í lögunum. Þetta eru aðgerðir sem þeir menn sem þurfa vegna sjóslysa að fjalla um öryggismál í sjósókn okkar hafa oftar en einu sinni bent á að gætu leitt til hættu.

Menn hafa velt fyrir sér nú af kannski meiri alvöru en áður hinum vísindalegu undirstöðum sem við Íslendingar áskildum okkur fyrir nokkrum áratugum að skuli vera grundvöllur fiskveiðistjórnar okkar, þ.e. vísindalegar niðurstöður af rannsóknum á ástandi nytjastofnanna. Á þessum áratugum sem liðnir eru höfum við gengið í gegnum nokkrar dýfur og núna eru veiðiheimildir á þessum stofnum miklu minni en var þegar við gripum til veiðistjórnar. En í millitíðinni hafa rannsóknirnar sem stofnað var til beinst að miklu fleiri þáttum lífkerfisins í hafinu en nytjastofnunum einum.

Mjög nýlega komu þær upplýsingar fyrir hv. sjútvn. þingsins að Hafrannsóknastofnun hefur unnið rannsóknir, að vísu takmarkaðar en rannóknir þó, á áhrifum veiðarfæra á lífríki botns og ástand hafsbotnsins á ákveðnum svæðum við landið, svæðum sem hafa verið nefnd jafnvel dæmigerð fyrir hugsanlega mikil áhrif dragveiðarfæra, dragnóta og annarra slíkra. Niðurstaðan að svo komnu er sú að veðurfar hefur meiri áhrif en veiðarfærin. (Gripið fram í.) Herra forseti. Ég hygg að hv. þm. sé á mælendaskrá. Hann gæti því kannski gert grein fyrir því sem honum sýnist. En ég man ekki betur en að hann hafi verið staddur í hv. nefnd þegar þetta kom fram. Þau svæði sem um ræðir eru grunnsævi og svo háttar til um mörg þau svæði á okkar grunnslóð sem menn hafa haft mestar áhyggjur af að veiðarfæri mundu hugsanlega skemma.

Ég tel því ekki rétt að tala eins og rannsóknir af þessu tagi og á þessum atriðum hafi alls ekki farið fram. Þetta er kannski svona ámóta og nokkuð reglulegar tillögur hér á þinginu um að Hafrannsóknastofnun skuli rannsaka ástand og veiðimöguleika á ákveðnum skeljategundum, en hún skilar nokkuð reglulega skýrslum um þær rannsóknir til hæstv. sjútvrh.

Ég tel samkvæmt þessu, herra forseti, að við beinum augum okkar og athygli í umræðunni oft að fáum þáttum í sjávarútvegsstarfseminni og því sem varðar ástand nytjastofnana eða það ástand sem þeir búa við. Eitt af því sem Hafrannsóknastofnun hefur bent á á fundum sem hún hefur átt nú undanfarnar vikur og á enn með almenningi, sjómönnum víða um landið, er að grunnslóð okkar við Ísland, beitilendur þorkstofnsins eins og hafrannsóknamenn hafa kallað hana, a.m.k. á þessum fundum, er í miklu verra ástandi en fyrir nokkrum áratugum þegar við allir vorum sammála um að þorskstofninn væri miklu stærri en í dag. En þá töldum við samt sem áður ástæðu til varfærni og rétt að rannsaka ástand hans og afkomu.

Ég hef alloft velt því fyrir mér undir umræðum af þessu tagi að mér hefur skilist menn stundum mæla með því að við ættum að auka veiðina vegna þess að hugsanlega hafi Hafrannsóknastofnun rangt fyrir sér um ástandið. Ég verð að viðurkenna ég hef hverju sinni komist að þeirri niðurstöðu með sjálfum mér að ástæða væri til að fara varlega en ekki á hinn bóginn.

Nú er það svo að Hafrannsóknastofnun kom fram með þá niðurstöðu fyrr á þessu ári að ástand okkar helsta nytjastofns er enn þá lakara en við töldum en hugsanlega muni betri tíð í vændum því að nokkuð stórir árgangar munu vera að vaxa upp. Það er þó aðeins sýnd veiði en ekki gefin, sérstaklega í ljósi þess sem sömu menn segja um ástandið í bithögum þorsksins. Ef hann hefur minna æti og lakari aðbúnað í hafinu en áður eru ekki líkur til þess að hann komist betur upp núna en undanfarin ár. Ég get a.m.k. ekki ályktað annað.

Herra forseti. Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að við hefðum löngu fyrr átt að taka upp meiri varfærni en við höfum viðhaft í veiðum og vísa til þess að allt fram til fyrir u.þ.b. áratug síðan voru útgefnar veiðiheimildir nokkuð reglulega talsvert umfram ráðgjöf vísindamanna. Og síðan var veiðin sjálf enn þá meiri, því að hún fór ævinlega umfram úthlutaðar veiðiheimildir.

En það verður líka að segjast eftir að hæstv. sjútvrh. og forveri hans í því starfi tóku að fylgja meira en áður ráðgjöf vísindamanna og hv. Alþingi mótaði með lögum reglur þess efnis, að aflatakmarkanir náðu meiri árangri en áður í að stýra veiðinni. Öðruvísi er ekki hægt að líta á upplýsingar um niðurstöður af stjórn með aflamarkskerfinu sl. áratug, en á þeim tíma hafa einmitt krókabátarnir farið sífellt meir fram úr og verið að einbeita sér að smærri nytjastofnum. Kynni nú einhver að hugsa eins og ég að ástæða hefði verið til þess, þótt fyrr hefði verið, að reyna að stjórna veiðum þeirra með sambærilegum hætti og annarra. En ég hef raunar verið þeirrar skoðunar líka af öðrum ástæðum því ég tel nauðsynlegt að menn sem starfa við sama atvinnuveg á Íslandi, ekki stærra en það nú er og ekki stærri þjóð en við erum, þeir búi við sambærileg kjör, sambærilega möguleika og sambærilegar skyldur. En ég tel svo ekki hafa verið.

Veiðistjórn með ýmsum aðferðum á sér nokkuð langa sögu, herra forseti, fáeina áratugi aftur í tímann. Fyrsta aðgerðin var sú að berja útlendinga út úr lögsögunni. Það var fyrsta aðgerðin við að hemja veiðar. Á sama tíma voru upphafðar aðgangstakmarkanir sem voru lagðar af með Valdimarsdómnum. En í millitíðinni tóku menn upp sóknarstýringu og enn hafa menn verið að tala fyrir sóknarstýringu. Niðurstaðan af því tímabili er sú að sóknarstýring reyndist ekki vel, en veiðitækifæri og þar með afli fluttist á milli skipa, ekki til smáu skipanna meðan stóru skipin máttu stunda sóknarkerfi. Aflinn fluttist til stóru og öflugu skipanna. Þá eins og að undanförnu var niðurstaðan sú að venjulegu smáu aflamarksskipin voru að missa afla til annarra. Kerfið var þannig að það fékk enginn neitt fyrir slíkar tilfærslur. Rétturinn var bara tekinn.

Ég er þeirrar skoðunar að það fyrirbrigði sem við köllum í nútímasamfélagi eignarrétt, ekki aðeins varðandi eignir heldur líka ýmis réttindi, eigi sér margar góðar vel rökstuddar forsendur í sjávarútvegi eins og öðrum atvinnuvegum. Ég tel raunar að það sé eina leiðin til þess að hver og einn sem starfar innan slíks kerfis, innan stjórnkerfis sem takmarkar athafnir manna, telji sig sjálfur hafa ávinning af því að takmörkunin nái jafnt til allra. Hann telji sig sjálfan hafa þann hag af því, eins og í tilviki fiskveiða, að verndunaraðgerðir geti náð árangri til þess að enginn hlaupi og éti útsæðið eins og sagt var um kartöflur áður. En meðan aðrir hafa mátt stunda eins miklar veiðar og þeir gátu hefur þetta ekki verið hægt að rökstyðja að fullu.

Afleiðinguna sjáum við í dag á ýsustofninum. Ég hygg að þær sveiflur, niðursveiflur, sem hafa birst í ástandi hans sé beint hægt að rekja til þessara aðstæðna sem lagakerfið skapaði.

Ég er sem sé þeirrar skoðunar að það sé skynsamlegt út frá mörgum ástæðum að stjórna fiskveiðum eftir aflatakmörkunum, aflamarkskerfi. Og ég verð að viðurkenna að þær upplýsingar sem við þingmenn höfum um færeyska kerfið sem hér hefur verið nefnt nokkuð, sýna mér að þeir sem stjórna því kerfi enn þá, þ.e. þeir menn sem komu því á og beittu sér mest í umræðum í Færeyjum fyrir því, viðurkenna að innan þess sé mikil vannýtt sóknargeta sem muni smám saman verða dregin fram. Það er einmitt reynsla okkar af sóknarkerfi krókabátanna.

Þetta hefur komið fram berum orðum í máli sjávarútvegsráðherra Færeyinga. Það eru hins vegar hans orð, og þurfa ekki endilega að hafa áhrif á okkur Íslendinga, að þeirra stjórnkerfi henti þeim, ekki endilega öðrum. Það eru hans orð.

Menn hafa mikið velt fyrir sér brottkasti og segjast verður eins og er að nú nýlega höfum við fengið þau svör frá Fiskistofu að upplýsingar hennar af öllu tagi, bæði frá veiðieftirlitsmönnum og eftir öðrum leiðum, bendi til þess að brottkast hafi mjög minnkað á síðustu vikum og mánuðum. Það verður einnig að segjast að mikil umræða um brottkast síðustu ár hefur ævinlega leitt til einhverra áhrifa á brottkastið sjálft. Umræðan virðist vekja menn til umhugsunar um þau verðmæti sem eru í húfi, ekki aðeins í þeim fiskum sem hverju sinni er fleygt, heldur áhrifin á auðlindina. Við ættum því að huga að því að taka þau mál til umræðu nokkuð reglulega. Það kann líka að skipta máli að að þessu sinni fremur en áður hafa menn lagt vinnu í það á vegum hæstv. sjútvrh. að finna leiðir, m.a. í löggjöf og eftir öðrum hugsanlegum leiðum, til að gera mönnum kleift kannski betur en áður að koma með allan afla að landi. En ég hlýt að segja að mér finnst stundum bera á því að menn telji að veiðarfæri taki allan fisk. Það kann að gilda um króka. En það á ekki við um öll önnur veiðarfæri. Það er sem sé hægt að skipuleggja veiðar með tilliti til hugsanlegs afla með því að velja sér veiðarfæri. Það er staðreynd.

Menn hafa velt fyrir sér hvers vegna aflamarksbátar eigi ekki að fá einhverja umbun núna, þeir smáu líkt og krókabátarnir. Þeir fengu umbun þegar þessi ákvæði voru leidd í lög sem nú hafa nýlega tekið gildi og verið er að breyta. Það er verið að gera breytingar með þessu frv. sem eiga að gera krókabátum auðveldara en áður að undirgangast krókaaflamarkið. Þegar krókaaflamarkið var leitt í lög voru jafnframt sett inn sérstök ákvæði um viðbótaraflaheimildir til minnstu aflamarksbátanna. Þá voru líka leidd í lög ákvæði um byggðakvóta. Núna á að leiða í lög ákvæði um sérstaka byggðakvóta vegna krókabáta. Ég viðurkenni að ég tel sæmilega í borið fyrir krókabáta.

Enn heyrum við, og ég verð að álíta að það heyri fleiri en ég, að þeir sem starfrækja smæstu aflamarksbátanna telji fram hjá sér gengið og þeirra hlutur gleymdur eins og stundum áður.

Það er þó lykilatriði í þessu að með þessu ákvæði á að huga sérstaklega að möguleikum þeirra sjávarbyggða sem eru umfram aðrar háðar starfsemi og útgerð krókabáta. Ég tel raunar að það sama geti átt við um byggðarlög sem eru háð starfsemi smárra aflamarksbáta.

Mér sýnist að með þeim ákvæðum sem varða flutning ýsukvóta, þ.e. aflaheimilda í ýsu til krókabáta, sé hlutdeild þeirra nánast tvöfölduð, nærfellt tvöfölduð. Og ég verð að viðurkenna að ég tel eðlileg ummæli útgerðarmanna á smáum aflamarksbátum þess efnis að þeir skilji illa hvers vegna ekki verði unnt að koma til móts við þeirra hag í þessu efni.

Núna er ég aðeins að tala um þá viðbót í aflaheimildum til krókabáta sem ekki á að vera tímabundin. Mér skilst að hlutdeild þeirra hækki úr u.þ.b. 8% upp í u.þ.b. 14% hlutdeild. Og það stendur beinlínis í frumvarpinu að með þeim aðgerðum eigi að minnka hlutdeild aflamarksskipanna. Ég vil rekja þetta vegna þess að menn hafa haldið því hér oft fram á hinu háa Alþingi að viðbótaraflaheimildir til sérstaklega þessara báta geti engin áhrif haft á aflaheimildir hinna. Ég verð að viðurkenna að ég hef alltaf átt svolítið erfitt með að skilja að þegar tekið er af einhverju þá minnki ekkert.

Nokkur önnur atriði hafa komið hér til umræðu, ekki síst í dansinum sem stiginn var áður en tekið var að ræða dagskrárefnið. Um það verður að segjast að fyrir liggur á þingskjölum sú tillaga sem leiddi til skipunar auðlindanefndarinnar svokölluðu. Í því máli og endanlegu samþykktinni stendur, þ.e. í tillögu þáv. hv. þingmanna Alþýðubandalagsins og ályktun Alþingis:

,,Um verði að ræða hóflegt gjald ...``

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að fyrningarleiðin svokallaða sem á að leiða til uppboðs á veiðiheimildum muni ekki endilega geta uppfyllt það skilyrði að ávallt verði um að ræða hóflegt gjald. Ég hef dregið þá ályktun af því sem fram fer á mörkuðum eða viðskiptum milli skipa með aflaheimildir. Við þekkjum að verðið sem þar er um að ræða er býsna hátt. Menn standa frammi fyrir því að þeir hafa lagt í mikinn fastakostnað, miklar fjárfestingar og telja sér þess vegna fært að leggja mikið undir við að auka aflaheimildir sínar. Ég tel, herra forseti, að það muni verða ofan á við uppboð á aflaheimildunum þannig að verð á þeim markaði muni verða hátt.