Svar við fyrirspurn

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 15:04:25 (1158)

2001-11-05 15:04:25# 127. lþ. 21.92 fundur 102#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[15:04]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að ræða störf þingsins vegna svars frá hæstv. landbrh. við fyrirspurn um sölu ríkisjarða á þskj. 65 sem mér barst fyrir helgina á þskj. 224.

Það er algerlega óviðunandi að hæstv. ráðherra svari litlu eða engu af því sem spurt er um. Á þingskjalinu eru fjórar spurningar og í þeirri fyrstu er spurt hvaða ríkisjarðir hafi verið seldar sl. fimm ár. Í svarinu eru aðeins upplýsingar um sölu jarða undanfarin tvö ár. Ég bið um upplýsingar um hverjum hafi verið seldar þessar jarðir og á hvaða verði. Þar eru engin svör nema að ekki sé til samantekt um þessar upplýsingar í ráðuneytinu, að lengri tíma taki að vinna slíka samantekt miðað við tímamörk til að svara fyrirspurnum frá Alþingi og það sé mjög kostnaðarsamt. Hvað er hér á ferðinni, herra forseti? Er enn verið að vinna með hraða snigilsins í þessu ráðuneyti? Ég óskaði eftir þessum upplýsingum hjá Ríkiskaupum eftir að mér barst þetta svar frá hæstv. ráðherra. Ríkiskaup sjá um sölu ríkisjarða. Þar liggja þessar upplýsingar fyrir og ekki mikið mál að taka þær saman en þeir eru ekki tilbúnir að afhenda þær nema með heimild eða fyrir tilstuðlan ráðuneytisins og þar með er þetta algjör fyrirsláttur í svari hæstv. ráðherra. Upplýsingarnar liggja fyrir. Það er ekki rétt sem kemur fram í svarinu, að þær liggi ekki fyrir.

Ég spyr: Hvað hefur hæstv. ráðherra að fela í þessum efnum? Þó að menn hafi ekki svarað því hverjir keyptu jarðirnar --- það kemur fram í svarinu að það hafi verið ábúendur --- þá hefði a.m.k. átt að svara því á hvaða verði er verið að selja jarðir í eigu ríkisins, jarðir í eigu almennings. Það er sjálfsagður réttur minn sem þingmanns að fá þær upplýsingar. Í svarinu er vísað í upplýsingalög um að óheimilt sé að veita upplýsingar um einka- eða fjárhagsmuni einstaklinga. Þetta eru ekki hagsmunir einstaklinga, þetta er ekkert einkamál þeirra. Það er verið að selja ríkisjarðir og þess vegna er þetta opinbert málefni.

Hvers vegna er bara upplýst um síðustu tvö ár um sölu ríkisjarða? Hvað með þrjú árin þar á undan? Er eitthvað gruggugt þar? Hvers vegna má ekki upplýsa um þau? Ég hefði haldið að það hefði verið til hagsbóta fyrir hæstv. ráðherra að upplýsa um það þannig að það væri þá samanburður milli hans og fyrrv. ráðherra.

Hinum spurningunum þremur er illa eða ekki svarað, og þegar svona er staðið að málum gerir það manni ókleift að sinna eftirlitsskyldu og aðhaldshlutverki sem þingmönnum ber að sinna.

Herra forseti. Ég vil fá svör frá hæstv. ráðherra um það hvernig standi á því að hann svarar ekki spurningunum á þingskjalinu betur en svona.