Svar við fyrirspurn

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 15:07:50 (1159)

2001-11-05 15:07:50# 127. lþ. 21.92 fundur 102#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[15:07]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Þegar stórt er spurt verður auðvitað að svara af vandvirkni. Hv. þm. sem ann mannréttindum og frelsi einstaklinganna og hefur staðið að lagasetningum til að vernda þann rétt hlýtur að skilja að hér verður að fara að þeim reglum, og það vil ég gera. Réttur einstaklinganna í þessu efni er stór.

Árið 1998, löngu áður en ég kom í þetta ráðuneyti, var jarðadeild ráðuneytisins gagnrýnd harkalega af Ríkisendurskoðun. Í framhaldi af því og í maí 1999 voru settar mjög skýrar reglur í samráði við ríkisendurskoðanda um hvernig staðið skyldi að sölu ríkisjarða.

Í fyrsta lagi á að auglýsa og selja í gegnum Ríkiskaup allar þær jarðir sem seldar verða á frjálsum markaði, og sá sem hæst býður fær jörðina keypta.

Í öðru lagi lá líka fyrir að það er vilji þingsins, og lög um það samkvæmt 38. gr. jarðalaga, að bændur sem búið hafa á jörðum sínum í tíu ár eða lengur eiga ótvíræðan kauprétt á jörðum sínum.

Í þriðja lagi eiga sveitarstjórnir einnig rétt á að kaupa jarðir án auglýsingar.

Þetta er í þeim farvegi. Hvað söluverð einstakra ríkisjarða varðar, hv. þm., hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál komist að þeirri niðurstöðu að upplýsingar um söluverð ríkisjarða sem seldar eru einstaklingum og lögaðilum séu þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari í skilningi 5. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996, og séu þar af leiðandi undanþegnar aðgangi almennings. Það gildir þó ekki ef kaupsamningum eða afsölum sem innihalda upplýsingar um kaup- eða söluverð hefur verið þinglýst. Í öllum tilvikum þar sem ríkisjarðir eru seldar er það hlutverk kaupanda að þinglýsa kaupsamningi og greiða af því kostnað. Landbrn. hefur því ekki upplýsingar um hvort einstökum kaupsamningum hefur verið þinglýst eða ekki. Það er sem sé verkefni þess sem keypt hefur.

Starfsmenn landbrn. eru bundnir þeirri þagnarskyldu sem hvílir á opinberum starfsmönnum. Þeir mega þannig ekki upplýsa hvert söluverð einstakra ríkisjarða hafi verið hafi kaupsamningum eða afsölum sem innihalda slíkar upplýsingar ekki verið þinglýst að viðlagðri þeirri ábyrgð sem því fylgir. Þetta er svona flókið. Síðan er auðvitað margt í fyrirspurn hv. þm. sem ekki er hægt að svara eins og hvert hafi verið markaðsverð jarða á einstökum svæðum. Markaðsverð getur orðið til af ýmsum ástæðum. Sumir bjóða hátt til að ná í kæra jörð sem þeir vilja eignast. Markaðsverðið er mjög misjafnt eftir landshlutum o.s.frv. Það er engin leið fyrir ráðuneytið að leggja mat á það. En þessari fyrirspurn hefur verið svarað með þeim hætti sem ráðuneytið taldi sig ráða við lögum samkvæmt og innan þeirra tímamarka sem þingið hefur sett slíkum fyrirspurnum.