Svar við fyrirspurn

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 15:14:08 (1161)

2001-11-05 15:14:08# 127. lþ. 21.92 fundur 102#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[15:14]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það fór ekki hjá því að það vekti sérstaka athygli þegar þessu blaði var dreift á borð sem svari við fyrirspurn hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur nú fyrir helgi hversu snautlega var staðið að verki varðandi þetta svar, og farið í alls konar útúrkróka til afsökunar á því að spurningunum er hreinlega ekki svarað, að mínum dómi. Það er t.d. sagt að í landbrn. sé ekki til samantekt um þær upplýsingar sem er beðið um, þ.e. hvaða jarðir hafa verið seldar á undanförnum fimm árum. Ég segi bara, guð hjálpi þessari þjóð ef landbrn. heldur ekki einu sinni skrá yfir þær ríkisjarðir sem verið er að selja í landinu. Hvernig í ósköpunum er hægt að gefa slíkt svar?

Það er fleira sem vekur athygli. Eitt af því sem kemur í veg fyrir að hv. ráðuneyti geti svarað er að það kostar að svara. Þeir eru svo illa haldnir að þeir geta ekki keypt penna, eða hvað? Eru tölvurnar bilaðar? Hvað er í veginum? Það er mjög sérkennilegt hvernig þetta er borið á borð hér. Ég verð að segja það.

Þeir geta að sjálfsögðu ekki gefið upp söluverðið. Hv. ráðuneyti getur ekki gefið upp söluverðið vegna þess að það varðar upplýsingalög. Það vill nú svo til að það er hv. alþingismaður sem spyr og ráðuneytin hafa upplýsingaskyldu gagnvart alþingismönnum. En menn snúa sig út úr því og vitna til upplýsingalaga sem varða upplýsingar til almennings. Þeir telja sig vera stikkfrí þess vegna. Ég verð að segja að ég mótmæli þessari túlkun.