Svar við fyrirspurn

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 15:23:51 (1166)

2001-11-05 15:23:51# 127. lþ. 21.92 fundur 102#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég verð að fara fram á það við hæstv. ráðherra að hann komi með afganginn af svörunum, a.m.k. yfir þær jarðir sem hafa verið seldar undanfarin fimm ár því að þær upplýsingar liggja fyrir og ætti ekki að vera neitt mál fyrir hæstv. ráðherra að bera sig eftir þeim hjá Ríkiskaupum. Ég fer því fram á að hér komi viðbótarsvör.

Það var enginn að efast um rétt ábúenda í gildandi jarðalögum til að kaupa jarðir sínar, enginn var að efast um þann rétt. Ég hef ekki verið nokkurs staðar á móti því að selja ríkisjarðir, það er í góðu lagi. En upplýsingar um hvað verið er að selja eigur ríkisins á, eiga auðvitað að koma hér fram. Upplýsingalög gilda ekki um þingmenn. Þeir verða að fara þá leið sem ég er að fara sem þingmaður (Gripið fram í.) til að veita hæstv. ráðherra aðhald í störfum hans. Það er með ólíkindum að ráðherra skuli ekki búa yfir þeim upplýsingum hvaða jarðir hafi verið seldar undanfarin fimm ár í ráðuneyti hans þegar Ríkiskaup hafa þær upplýsingar. Það ættu að vera hæg heimatökin fyrir hæstv. ráðherra að bera sig eftir þeim upplýsingum til þeirrar stofnunar.

Síðan vil ég, herra forseti, vísa til föðurhúsanna þeim ummælum sem hæstv. ráðherra hafði um félaga mína, löglærða, í Samfylkingunni. Það er náttúrlega fyrir neðan allar hellur fyrir ráðherra að koma með slík ummæli úr ræðustól Alþingis.

Hér hafa ekki komið svör við þeim spurningum sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra varðandi söluverð. Það er þó lágmark að koma fram með hvað verið er að selja þessar jarðir á, þegar menn nefna ekki hverjum er verið að selja. Hvað er verið að selja jarðirnar á? Er verið að gefa þær? Í fjölmiðlum hafa verið ummæli um að verðið sé óeðlilega lágt. Er ekki langbest fyrir hæstv. ráðherra að upplýsa það, herra forseti, á hvað ráðherrann og hans menn eru að selja þessar jarðir sem eru í eigu almennings?