Svar við fyrirspurn

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 15:30:25 (1170)

2001-11-05 15:30:25# 127. lþ. 21.92 fundur 102#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), landbrh. (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[15:30]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Herra forseti. Það var helst varðandi þetta með fjólubláu augun í mér sem ég get borið af mér sakir því að ef ég hef séð rétt eru þau blá og svolítið grá.

En hvað þessa umræðu varðar liggur það auðvitað fyrir að a.m.k. lögfræðingar Samfylkingarinnar kusu hér að þræða gráa svæðið, hafna því sem stendur í fyrirspurninni að samkvæmt ýmsum lögum eru mál trúnaðarmál af hálfu ríkisins við einstaklinga sem hafa keypt. Ég hef ekkert að fela. Ég hef leitað til löglærðra manna í þessum efnum og góðra lögfræðinga. Ég ætla ekki að gera lítið úr þessum hv. lögfræðingum. Þeir eru ábyggilega starfi sínu vaxnir.

En ég verð að styðjast við og fylgja ýmsum mannréttindaákvæðum og upplýsingalögum sem sett hafa verið. Ég vil ekki brjóta á þeim einstaklingum. En ég sagði hér áðan, til þess að það sé alveg ljóst, að ég vil ekki liggja undir sök í þessu máli. Þetta er ekki mitt felumál. Ég hef ekkert að fela í því, ekki eitt einasta atriði. (BH: Gott.) Þess vegna hef ég beðið Sigurð Þórðarson ríkisendurskoðanda að fara yfir störfin frá því að ég kom í ráðuneytið. Í fyrsta lagi til að kanna hvort við höfum farið að þeim reglum sem lögin segja og hvort ekki sé alveg skýrt að við fylgjum því að Ríkiskaup sjái um söluna og þeir sem hæst bjóða hafi fengið keypt á því verði. Í öðru lagi að ábúendurnir, sem eru langstærsti hópur þessa máls, hafi fengið að kaupa, að það mat hafi verið gert af hlutlausum aðila sem hafi tekið þær jarðir út og samningur gerður við þá og svo í hvaða tilfellum samið var við sveitarfélög. Allt er þetta gert eftir skýrum reglum sem ég þarf ekkert að fela.

Ég er þannig gerður, hv. þm., að ég vil ekki brjóta á mannréttindum fólksins í landinu. Ég hefði trúað því að Samfylkingin, sem dreymir um að verða stór og öflugur flokkur, vildi líka virða mannréttindi og fara að lögum þessa lands. Ég efast í raun ekkert um það. En svona er málið vaxið, svona liggur þetta svar fyrir. Það gat því miður ekki orðið öðruvísi. (Gripið fram í: Hvað með fimm ár aftur í tímann?) Nú getum við ekki, hv. þm., talað saman tvö og ein. Það verðum við að gera í kaffistofunni á eftir.