Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 15:54:18 (1173)

2001-11-05 15:54:18# 127. lþ. 21.1 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[15:54]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar þessir hlutir eru ræddir verða menn að hafa í huga að auðlindanefndin hafði það verkefni að fjalla um allar auðlindir, allar auðlindir sem eru eða kynnu að vera í þjóðareign. Sjórinn var þar undir einnig. Meginregla, meginniðurstaða auðlindanefndar að því er varðar allar auðlindir er sú að þar sem um takmarkaða auðlind er að ræða skulu réttindin verða boðin upp. Það er meginregla að því er varðar allar auðlindir.

Þegar kom að sjávarútvegi treysti ákveðinn hópur í nefndinni sér ekki til að standa að þessu. (SvH: Einkavinir Davíðs Oddssonar.) Þeir treystu sér ekki til þess að standa að þessari meginreglu þegar að sjávarútvegi kom. Í því skyni að nefndin gæti skilað af sér og skrifað undir sameiginlegt álit var opnað á þessa leið, eins og fram kemur í þeim athugasemdum og fyrirvörum sem þarna koma fram.

Virðulegi forseti. Ég taldi sjálfur ekki ástæðu til að fjalla um svo augljósa hluti að meginregla nefndarinnar er skýr. Menn hljóta þá að vera með fyrirvara við meginregluna. Meginreglan er sú að þegar kemur að takmörkuðum auðlindum sem þarf að takmarka aðgang þá skuli þessi réttindi boðin upp, a.m.k. tryggt í alla staði að allir geti haft af þessu jafnan aðgang. Það er meginniðurstaða nefndarinnar.

Þessi nefnd var sett á laggirnar til þess að reyna að skapa einhverja sátt og í ljósi þess og í ljósi tilrauna til þess, var opnað á þetta og þeim gefinn kostur á að vera með þennan fyrirvara til þess að við gætum skilað sameiginlegu nefndaráliti.