Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 16:01:23 (1176)

2001-11-05 16:01:23# 127. lþ. 21.1 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[16:01]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Það lýtur að því hvernig veiðum smábáta skuli háttað í framtíðinni. Þessi mál hafa verið mjög ofarlega á baugi undanfarið, allt frá því í vor þegar ekki var hægt að taka til afgreiðslu frv. sem ég ásamt hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni lagði fram. Það fól í sér mikla bót frá því sem sýnt þótti að mundi verða eins og komið hefur á daginn. Menn hafa séð að þau lög sem gilda núna um smábátana eru óferjandi og óalandi. Þau munu hafa þær afleiðingar, fái þau að gilda áfram, að byggðir komist í stórhættu. Það hefur mikið verið rætt um allt sjávarútvegskerfið á Íslandi. Oft hefur verið talað um hversu mikla óvissu það hefur skapað, hvernig aflaheimildir flytjast frá einum stað til annars með tilheyrandi óöryggi og jafnvel atvinnuleysi og leiðindum.

Það hefur verið mikil óánægja með þetta kerfi eins og ég sagði og menn úr öllum flokkum hafa lýst yfir mikilli vanþóknun á því. Samt á innan skamms að leggja fyrir þingið frv. um að festa þetta kvótakerfi algerlega í sessi eins og það er í dag. Ekki nóg með það heldur á frv. sem við erum að fjalla um núna að verða til þess að loka öllu kerfinu, hafa það allt undir þeim lögmálum að menn geti verslað með réttinn til veiða sín á milli án þess að þeir þurfi að svara einum eða neinum til um áhrifin sem það hefur á umhverfi þeirra.

Þegar við skoðum útgerðarsögu á Íslandi, sérstaklega ef við hugsum til fyrri hluta síðustu aldar og nokkuð langt fram á seinni hlutann jafnvel, þá er athyglisvert að sjá hve margir menn lögðu mikið á sig til að fara út í útgerð og stunda sjóinn. Þeir voru ekkert að velta því fyrir sér sölu á aflaheimildum sem þeir kynnu að verða sér úti um. Það sem fyrir þeim vakti var að veiða fisk og skapa vinnu og vera hluti og lifandi partur af því samfélagi sem þeir bjuggu í.

Því miður er útgerðarmaðurinn í dag í mörgum tilvikum orðinn allt öðruvísi. Hans útgerð fer mikið fram á þann hátt að hann veltir fyrir sér hvernig verðið á kvótanum verði, hvort betra sé að leigja einhverjum eða selja eða kaupa jafnvel. Hann veltir því fyrir sér hvort breyta eigi skipum, stækka þau eða minnka þau, breikka þau eða stytta. Hvað þetta varðar er allt á verri veginn.

Það er grátlegt, herra forseti, að horfa upp á að það eigi að leysa vandann sem blasir við hjá mörgum byggðarlögum og mörgum smábátaútgerðarmönnum með því að loka kerfinu og setja þá inn í sama kerfið og allt hitt. Ég leyfi mér að halda því fram, herra forseti, að meiri hluti þjóðarinnar er afar ósáttur við kvótakerfið eins og það er í dag, þ.e. það sem kallað er fiskveiðistjórnarkerfi en menn eru farnir að kalla kvótakerfi.

Það eru til dæmi um að menn hafa verið að veiða fisk fyrir nokkrar milljónir. Ég veit dæmi um menn sem veiddu fisk fyrir 60 millj. kr. og þeir þurftu að greiða 30 millj. kr. fyrir það. Hvert runnu þeir peningar? Runnu þeir í sjóði elliheimila, sjúkrahúsa eða skóla? Nei, þeir runnu bara í einhverja hulda vasa sem kannski þurftu síðan ekki að greiða neinn skatt af þeim allt eftir því hvers konar fyrirtæki átti í hlut sem tók við þessari greiðslu.

Nú bíða margir smábátamenn og velta fyrir sér hvernig kerfið verði. Þeir velta líka fyrir sér við hvað muni verða miðað þegar ýsunni verður úthlutað. Við hvaða daga? Sumir vona að það verði frá mars á þessu ári til mars á næsta ári. Aðrir vona að það verði frá janúar til janúar og kannski enn aðrir frá október til október, allt eftir því hvaða reynslu þeir hafa af ýsuveiðum. Hið sama gildir um steinbítinn.

Svo fara menn kannski jafnvel að hugsa með sér í laumi: Skyldi ekki vera best að selja þennan kvóta bara þegar ég fæ hann? Leggja bátnum og reyna að fá sem mest fyrir?

Herra forseti. Það er oft sagt að sjávarútvegskerfið sem við búum við verði að vera stabílt, öruggt og gott. En það kerfi sem við búum við núna er það ekki, einkum vegna þess að aflaheimildirnar færast yfir á æ færri hendur eins og margoft hefur verið sýnt fram á í skýrslum, m.a. góðri skýrslu Byggðastofnunar Um sjávarbyggðir í sókn og vörn.

1. og 2. gr. í þessu frv. gera ráð fyrir því að það fari fram bullandi framsal í kerfinu.

Í 3. gr. er síðan talað um byggðakvóta. Hins vegar skilst mér að Byggðastofnun muni ekki fá að úthluta þeim kvóta. Ráðherra mun sjálfur sjá um það. Eftir hvaða leiðum á að fara til þess að úthluta þeim kvóta? Það er talað um að honum eigi að úthluta til þeirra byggða sem illa fara út úr þessum lögum, þeirra byggða sem fara munu illa út úr kvótasetningu á smábátana. Nánast þetta má lesa úr frv.

Í athugasemdum við einstakar greinar þessa frv. segir um 3. gr., varðandi heimildina til að útdeila þessum byggðakvóta, sem ég kalla svo, með leyfi forseta:

,,Með slíkri heimild yrði unnt að koma til móts við þau byggðarlög sem mest hafa misst í því efni.``

Þetta býður heim hættunni á illindum, deilum, vonbrigðum og reiði, þegar einn fær úthlutað og annar við hliðina ekki, kannski vegna þess að hann hafði róið á vitlausum dögum, vitlausum tíma.

Það ber allt að sama brunni með þetta frv. til laga. Það er ekki gott. Þetta er ekki gott frv. og það mun leiða til mikillar óánægju.

Í 4. gr. frv. er viðleitni til að taka á brottkastinu. Þar segir, með leyfi forseta, um heimild til að undanskilja 5% afla hverrar veiðiferðar frá aflamarki skipsins:

,,Sé ofangreind heimild nýtt skulu forráðamenn uppboðsmarkaðarins þar sem aflinn er boðinn upp standa skil á andvirði hins selda afla til Hafrannsóknastofnunarinnar að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið. Þá skal útgerð skipsins fá 10 kr. fyrir hvert kíló selds afla, sem skiptist milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum þar um.``

Eru þetta verðlaun til Hafrannsóknastofnunar?

[16:15]

Mér dettur í hug að spyrja, herra forseti, á tímum einkavæðingar, hvort ekki sé rétt að nota þetta fjármagn til þess að láta óháða aðila, eins og það heitir oft, fá þessa peninga, menn sem eru að stunda rannsóknir á lífríki hafsins hér í kring. Ég leyfi mér að nefna t.d. mann eins og Jónas Kristjánsson. (Gripið fram í.) Jón Kristjánsson sem hefur komið með ágætar kenningar um fiskstofna við landið. Hæstv. umhvrh. lagði fram frv. um daginn þar sem gert er ráð fyrir því að Náttúruverndarráð verði lagt niður og einkaaðilar komi þar að. Má ekki láta hinn sama anda ríkja, eða kannski hafa sjálfstæðismenn minni áhuga fyrir einkavæðingu en framsóknarmenn og vilja því ekki hrófla við Hafrannsóknastofnun. Það má allt eins spyrja sig að þessu, hvort ekki væri rétt að gefa öðrum færi á því, háskólum og öðrum aðilum og einstaklingum, eins og ég nefndi hér áðan, herra forseti, að koma að því að gera rannsóknir á ástandi fiskstofna og lífríki hafsins hér í kringum landið.

Í 6. gr., herra forseti, er í raun og veru verið að opna á það að viðskipti á milli stóra kerfisins og trillukerfisins geti farið fram. Og það getur verið stórhættulegt að setja allt í þennan eina pott, í einn og sama stóra pottinn, eins og mér sýnist tilhneiging vera til. Ef menn ætla að fara þá leið hljóta líka að vakna spurningar um það hvort þeir bátar sem þessi lög eiga að gilda um eigi þá ekki að fá heimild til að nota sams konar veiðarfæri og hætta á krókum, krókaveiðum og línuveiðum, og fara jafnvel á netaveiðar eða hugsanlega aðrar veiðar sem eru ekki eins vistvænar og krókaveiðar.

Það hefur verið mjög ánægjulegt að sjá hvernig lítil þorp voru farin að byggjast upp þegar glufan í kerfinu varð mönnum ljós, þegar fólk sem bjó í litlum byggðum, og býr enn, gat farið að gera út á þessa báta og skapað þannig atvinnu í byggðunum. Það var meira að segja svo, herra forseti, að hús sem stóðu auð fylltust aftur af fólki og það voru margir sem fylltust bjartsýni og gleði yfir því að byggðin þeirra var að lifna við aftur. Og svo þegar kominn er nokkuð góður skriður á lífið í byggðunum ríður höggið af. Stundum hvarflar að mér, herra forseti, að það sé stefna ríkisstjórnarinnar, Sjálfstfl. og Framsfl., að útrýma fámennum byggðarlögum, það sé ekki æskilegt að það sé eitthvað til sem heitir litlar byggðir, í þeirri trú að hið stóra og sterka sé alltaf það besta og hagkvæmasta eins og menn halda gjarnan um fyrirtæki, því stærra sem fyrirtækið er því hagkvæmara er það og betra. En við höfum séð á undanförnum dögum í þjóðlífi voru að það er ekki algild regla.

Fiskurinn í hafinu í kringum Ísland er okkar auðlegð, og það er æskilegt og best að sem flestir hafi aðgang að henni og að sem flestir geti notið hennar. Ekki eins og í einhverju grimmu ríki þar sem t.d. olía er eina auðlind landsins og fámenn furstafjölskylda hirðir allan olíugróðann og lætur ekki fátæka þegna þess ríkis njóta neins af þeim olíuauði. Fiskurinn er okkar olía og við þurfum að ganga varlega um dyrnar og gæta þess að eignarhaldið, eins og það er kallað, á fiskimiðum íslensku þjóðarinnar endi ekki í höndum færri og færri manna sem eru ekki í tengslum eða sambandi við fólkið í landinu.