Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 16:52:39 (1179)

2001-11-05 16:52:39# 127. lþ. 21.1 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[16:52]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni á föstudag, þegar tíma mínum lauk í þessum ræðustól, er ég hugðist víkja að nokkrum efnisatriðum í frv. þessu. Ég held nú áfram nokkurn veginn þaðan sem frá var horfið.

Í fyrsta lagi er í 1. gr. kveðið á um það að veiðileyfi í íslenskri lögsögu verði þrenns konar, þ.e. veiðileyfi með aflamarki, svokallað krókaaflamark og handfæraveiði með dagatakmörkunum, en tvö síðari veiðileyfin eru ætluð smábátaflotanum sem skilgreindur hefur verið við 6 tonn.

Í 2. gr. er síðan einfaldlega verið að festa niður svokallaða krókaaflahlutdeild og krókaaflamark.

Mig langar því að ræða aðeins um 3. gr. Þar kemur inn það sem menn hafa kallað byggðapott eða uppbótarpott, þ.e. úthlutun til þeirra sjávarbyggða sem hafa verið mjög háðar veiðum krókaaflamarksbáta, eða svokallaðra þorskaflahámarksbáta, við þær reglur sem giltu fyrir 1. sept. sl. Ég verð að segja eins og er að mér finnst þessi ákvæði í 3. gr. ákaflega opin og í raun að Alþingi mundi með samþykkt þeirra framselja vald til ráðherrans. Ráðherrann skal setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis en ákvæðið sjálft er ákaflega opið eins og ég mun núna gera grein fyrir.

Í fyrsta lagi stendur í ákvæðinu að ráðherra sé heimilt að úthluta til ,,árs í senn`` og ,,samtals allt að``. Þetta gengur allt út á að ráðherra meti hvort þörf er fyrir úthlutunina. Honum er þetta heimilt, að gera þetta til ,,árs í senn`` og heimilt að úthluta ,,allt að``. Hér er aðeins sagt til um hvað ráðherra er heimilt og honum síðan í sjálfsvald sett hvað hann gerir.

Síðan koma pottarnir, 1.000 tonn af ýsu, 1.000 tonn af steinbít og 300 tonn af ufsa til krókaaflamarksbáta sem gerðir eru út frá sjávarbyggðum sem að verulegu leyti eru háðar veiðum krókaaflamarksbáta. Ráðherrann skal svo setja um þetta reglugerð, eins og áður segir. Mér finnst heimildirnar þarna vera ákaflega rúmar. Ég vonast alla vega til þess að í hv. sjútvn. verði þetta ákvæði vandlega rætt og reynt að betrumbæta það. Mér finnst það mikil spurning þegar svona frv. eru lögð fram, að gera þau að lögum án þess að festa þetta meira niður en hér er gert, þar sem ráðherra fær þetta vald til sín, eins og gerð er grein fyrir hér. Að vísu er svona ákvæði í lögunum um stjórn fiskveiða, í 9. gr. minnir mig, svokallaðar bætur þegar verður aflabrestur. Þær eru þó eingöngu til komnar þegar virkilegur aflabrestur verður í einhverri tegund og menn hafa svo sem mótað nokkrar reglur um það, m.a. þegar brestur verður á rækjuveiðum.

Síðan kemur 4. gr. þar sem heimild er gefin til að tilkynna afla utan aflamarks. Ég get sagt fyrir mig að ég er hlynntur því að svona ákvæði komi í lög, alla vega meðan við erum með aflamarkskerfi. Það er auðvitað viðurkennt að aflamarkskerfið gerir það að verkum að menn sem gera út lenda iðulega í því að hafa ekki nægar aflaheimildir, fyrir utan það að síðan erum við með ákveðið leigukvótakerfi inni í þessu aflamarkskerfi okkar, þ.e. kvótakerfinu. Það eitt og sér veldur því auðvitað að menn eru í mjög misjafnri stöðu varðandi leigumarkaðinn. Ég get bara skýrt það út með örstuttu dæmi.

Ef tveir aðilar leigja sér hvor um sig eitt tonn af þorski og annar býr á Bakkafirði en hinn í Grindavík þá leigja þeir báðir á sömu krónutölu, sennilega á um 130--140 kr. kílóið. Þegar þeir hins vegar fara til veiða þá hagar þannig til, vegna náttúrulegra skilyrða við landið, að fiskur fyrir Suðvesturlandi er jafnan mun stærri en fyrir Norðausturlandi. Hvað gerist þá? Jú, báturinn í Grindavík kemur með tonn að landi, af fiski sem er yfir fimm kíló eða jafnvel stærri, jafnvel þó að veitt sé á króka. Fyrir þann fisk fær hann kannski 250 kr. á kílóið. Þegar báturinn á Bakkafirði kemur að landi með fallþunga fisks á bilinu tvö kíló fær hann fyrir það 130--140 kr. fyrir kílóið, eða nokkuð svipað því og hann leigir kvótann á.

Sé það eindreginn vilji stjórnarliða að festa kvótakerfið í sessi til frambúðar þá er náttúrlega augljóst að svona fyrirkomulag getur ekki staðist til framtíðar. Það hljóta allir að sjá. Nema þeir ætli þá að færa byggðina, alla sjávarbyggðina og alla útgerðina inn að því svæði þar sem stærsti fiskurinn er og veiða alltaf ofan af stofnunum. Þetta getur ekki leitt til neins annars.

[17:00]

Auðvitað er hægt að mæta svona útfærslu, en þá verða menn að þora að gera það. Það væri best að gera það, ef menn ætla að halda svona á þessu, með því að kvótareikningurinn miðaðist við fallþunga og verðmæti fisks, þannig að þó að báðir leigðu á sama verði þá væri mismunandi frádrag inn í kvótaheimildirnar miðað við þá stærð á fiski sem menn lönduðu. Þannig væri hægt að koma að einhverju leyti til móts við þessa geysilegu mismunun sem er auðvitað bara innbyggð í kerfið vegna þess að náttúrulegar aðstæður við landið eru bara svona. Fiskurinn elst upp við Norður- og Norðausturland en þegar hann er orðinn kynþroska er hann við Suður- og Suðvesturland og að jafnaði miklum mun stærri. Það á að leiðrétta svona mismunun, ætli menn sér að lifa eingöngu við kvótakerfi við framtíðinni sem ég tel mjög misráðið. Ég tel í raun að það sé mjög misráðið sem hér er verið að gera, að setja kvótakerfi yfir smábátana, því að breytileikinn á grunnslóðinni er jafnvel enn meiri heldur á dýpri miðunum. Menn þekkja það að fiskigengd á grunnslóð allt í kringum landið ræðst mikið af hitafari sjávar sem er mjög breytilegt.

Ákvæðið um að mega landa afla fram hjá vigt tel ég því til bóta. Fimm prósent finnst mér hins vegar allt of lítið. Ef menn væru raunverulega að gera svona tilraun og vildu sjá hvað kæmi raunverulega að landi þá hefðu menn þetta ákvæði bara opið og gerðu heiðarlega tilraun með það í eitt ár eða tvö ár, og gerðu það jafnt í aflamarkskerfinu, stóra kerfinu, eins og í smábátakerfinu. Ég hlýt að velta því fyrir mér hvort það standist að setja svona ákvæði aðeins inn í smábátakerfið. Hvar er þá jafnræðið milli þeirra sem eru að gera út? Ég er hlynntur því að svona ákvæði komi inn, ekki takmarkað við 5% heldur að það kæmi almennt í flotanum þannig að þau miklu verðmæti sem á undanförnum árum hefur verið hent í sjóinn komi að landi og nýtist íslenskri þjóð. Og síðast en ekki síst til að menn sjái hvað raunverulega er drepið.

Ég ætla að þessu sinni ekki að hafa þessi orð fleiri. Í 7. gr. koma inn hinir fjölmörgu pottar, a.m.k. tveir, þ.e. 1.800, 1.500 og 300, og síðan 200 lestir og 600 lestir. Í lokamálsgrein 7. gr. er svo ákvæði um útgerðir þeirra 80--90 báta sem hafa verið á dagatakmörkunum með 30 lestir af þorski sem hámark, og að þeir fái að velja sér að fara yfir í dagakerfið. Ég styð að þeir fái það val. Mér finnst hins vegar þurfa að setja botn í þessa daga og jafnframt að gera dagakerfið mannlegra þannig að það sé ekki skylda 70 ára gamalla manna að róa samfleytt í sólarhring. Það held ég að sé grundvallaratriði. Þá gæti maður alla vega stutt þann þátt málsins þó að ég geti með engu móti fallist á að við séum að fara rétta leið með því að kvótasetja allar fleytur í öllum tegundum.