Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 17:03:04 (1180)

2001-11-05 17:03:04# 127. lþ. 21.1 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[17:03]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið afar fróðleg umræða á köflum og lengst af og margt borið á góma sem vert væri að tala um. Mig langar til þess að bæta dálitlu við það sem ég sagði fyrr í umræðunni. Mig langar til að ítreka svolítið það sem ég sagði í sambandi við 3. gr.

Ég tel að til hennar sé þannig stofnað að menn þurfi að fara yfir það og endurskoða það. Það er ekki, að mér finnst, bjóðandi upp á það að menn komist að þeirri niðurstöðu að það eigi að úthluta til viðbótar til þessa hóps, til einstaklingsútgerða til þess að rétta hlut byggðarlaga. Rökstuðningurinn er sá að menn hafi verið að fjárfesta í þessu og að það eigi að koma til móts við þá vegna þess að þeir hafi verið að fjárfesta í skipum eða bátum.

Þegar þessar tvær röksemdir eru farnar að vega saman myndast náttúrlega mikið óréttlæti milli manna eftir því hvort þeir búa á stað þar sem þeir eiga möguleika á að fá úthlutun af þessu tagi eða hvort þeir búa einhvers staðar annars staðar. Nóg er nú samt. Ég tel að ef þessi úthlutun eigi að hafa einhvern þokkalegan rökstuðning þá verði hún að fara fram á grundvelli byggðasjónarmiða eingöngu og að það eigi að úthluta til fleiri en bara krókaaflamarksbáta. Ég sé ekki hvers þeir eiga að gjalda sem eru í aflamarkinu og eru illa staddir vegna skerðingar ár eftir ár á veiðiheimildum þeirra, þ.e. að þeir sem eru á sambærilega stórum bátum t.d. eða bátum sem eru á sambærilegum veiðum og þarna er verið að tala um, komi ekki til greina við úthlutun á þessum viðbótaraflaheimildum sem þarna er verið að tala um að úthluta til einhverra byggðarlaga. Þessu vildi ég nú bæta við í sambandi við 3. gr.

Menn hafa verið að ræða um eðli kerfisins. Ég segi það fyrir mig að aflahlutdeildarfyrirkomulagið er náttúrlega gjörsamlega óviðunandi þegar haft er í huga að mönnum hefur verið úthlutað hér langtímaveiðheimildum. Hvað ef menn fá t.d. úthlutað veiðiheimildum í fiskstofni meðan hann er lítill? Menn vonuðust til þess þegar þetta kerfi var tekið upp að hægt væri að byggja upp fiskstofnana. Ef það hefði nú tekist, hvar stæðu menn þá? Þá segði veiðireynsla þessara manna eða útgerða, þegar kerfið var tekið upp, ekki til um hve mikið þeir ættu að fá að veiða, heldur gæti það verið tvöfalt eða þrefalt ef tekist hefði að byggja upp fiskstofninn því þeir eiga hann allan sem voru við veiðar þegar ákvörðunin var tekin. Það er auðvitað gjörsamlega fráleitt eins og fleira í eignarhaldi veiðiheimildanna.

Hins vegar getur aflahlutdeildarkerfi prýðilega gengið upp ef menn væru hér með skilgreindar veiðiheimildir til tiltekinna ára og leigðu þær út frá hinu opinbera til ekki mjög margra ára í einu. Þá getur aflahlutdeilarkerfið verið til mikils hagræðis. Það er í raun nauðsynlegt til þess að gera kleift að leigja veiðiheimildir út til einhvers tiltekins tíma því að annars hafa menn ekki í raun þann tonnafjölda við höndina þegar úthlutað er, þ.e. ef menn ætla að fara að úthluta veiðiheimildum til einhverra ára. Hann verður ekki til fyrr en aflamarkið er ákveðið fyrir komandi fiskveiðiár. Þess vegna mundi þetta nýtast mjög vel og væri eðlilegt í kerfi þar sem veiðiheimildir væru leigðar út.

En þegar verið er að úthluta mönnum veiðirétti til án nokkurra endimarka, þá er þetta kerfi fráleitt. Tökum sem dæmi þá sem hafa veitt síld og eiga aflahlutdeild í síld, þessi örfáu skip sem hafa veitt þetta lítilræði sem hefur mátt veiða. Ef þannig væri að norsk-íslenska síldin kæmi á ný að Íslandsströndum og hægt yrði að veiða hana þá ættu örfáar útgerðir alla þá síld. Allir sjá að það er fráleitt. En svona hafa menn nú haft þetta.

Einnig hefur borið á góma hér hvernig þetta hafi tekist og ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst alveg ömurlegt að við skulum standa frammi fyrir því að það skuli hafa gengið aftur á bak hjá okkur í öllum botnfiskstegundunum frá því að menn fóru af stað með þessa verndun. Það er búið að fara yfir þessar tölur hérna. En ég bara minni á 1994 vegna þess að þeir sem hafa stutt þetta kerfi sem harðast og borið af því blak á allan hátt hafa haldið því fram að ekkert hafi verið að marka útkomuna á kerfinu fyrr en eftir að farið var að fara eftir tillögum fiskifræðinga. Og mismunur á veiðum og því sem fiskifræðingar hafa lagt til hefur gjörsamlega verið innan allra skekkjumarka, ég mundi segja frá 1990. En ef við tökum bara tölurnar frá 1994 og til dagsins í dag þá lítur dæmið þannig út að nú er ekki hægt að veiða meira úr einum einasta botnfiskstofni en var veitt þá, og næstum allir eru í þannig ásigkomulagi að lagt er til að veiða mun minna en var lagt til og var veitt árið 1994. Þetta er árangurinn. Ég held að tími sé kominn til að menn horfist í augu við að það verður að fara mjög vandlega yfir þessi mál með framtíðina í huga.

Ég var á afar fróðlegum fundi, fannst mér, uppi á Akranesi þar sem Hafrannsóknastofnun var að kynna starfsemi sína. Þar var m.a. farið yfir veiðiráðgjöfina og menn veltu hlutunum fyrir sér. Eitt vakti sérstaklega athygli mína. Þarna var einn fiskifræðingur sem var sérfræðingur í karfa. Hann gerði okkur grein fyrir því vandamáli að þeir væru ekki vissir um hvort til væru fleiri karfastofnar og þess vegna þyrftu þeir að hafa borð fyrir báru og leggja til varlegri veiðar en annars þyrfti úr þessum stofnum. Því ef þeir væru fleiri en einn þá væri hættulegt að leggja ekki til minni veiðar í því skyni að koma í veg fyrir að veiðar verði of miklar úr einhverjum stofninum þannig að hann yrði ofveiddur.

Á sama fundi var farið yfir þorskveiðiráðgjöfina. Þar kom fram að talið er að hrygning þorsks hér fyrir sunnan land fari stundum allt niður í 30%, en á tímabili var talið að nánast allur þorskur hrygndi hér fyrir sunnan og suðvestan land. Þessi hrygning hefur farið niður í 30% sem hlutfall af allri hrygningunni eins og hún hefur verið mest fyrir Suðvesturlandinu stundum.

Menn eru að velta því fyrir sér hvort þetta séu ekki margir stofnar og þá hljóta menn að velta fyrir sér hvernig standi á því að menn hafi ekki sömu áhyggjur af þessum stofnum og af karfanum. Þurfa menn þá ekki að finna leiðar til þess að stýra sókninni í hina einstöku stofna allt í kringum landið í flóum og fjörðum? Ég spyr: Hvernig ætla menn að fara að því ef menn halda áfram að láta útgerðarmenn í þessu landi eiga tiltekna prósentu úr fiskstofnunum? Hvernig ætla menn þá að stjórna veiðum úr einstökum stofnum þegar á þarf að halda að stýra veiðiálagi kannski á einstök svæði og einstaka stofna? Það er útilokað. Það er hins vegar hægt ef menn leigja út veiðiheimildir. Meira að segja er auðveldlega hægt að leigja út og bjóða út veiðiheimildir á tilteknum svæðum.

Æðimargt styður það að menn endurskoði þessa hluti alla saman.