Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 17:13:22 (1181)

2001-11-05 17:13:22# 127. lþ. 21.1 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[17:13]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil bæta örfáum atriðum við umfjöllun mína um þetta frv. nú í seinni ræðu minni. Við erum að ræða frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Ég lýsti því yfir fyrri ræðu minni að ég væri þeirrar skoðunar að hér væri aðeins um plástraaðferð að ræða. Við vitum öll og þjóðin gerir sér grein fyrir því að hér er verið að skera niður úr snörunni þá menn sem byggðu allt sitt, allan sinn vöxt og viðgang, á að hafa fría möguleika í veiðum á utankvótategundum. Það er náttúrlega afleit staða að þurfa að standa frammi fyrir því að setja lög til þess að milda þau áhrif sem heildarkvótasetning hefur á þennan hluta flotans.

[17:15]

Ég gat jafnframt um það í fyrri ræðu minni að við verðum öll hér að gera okkur grein fyrir því að staða smábáta er afleit annars staðar á landinu en þar sem möguleiki var á að bæta sér hana upp með því að veiða utankvótategundir. Í mörgum tilfellum er þar hrun í þessum veiðiflokki. Auðvitað hefði maður viljað sjá að hér væri verið að vinna með hugmyndir sem breyttu kerfinu þannig að það yrði skaplegra fyrir alla landsmenn, fyrir landið allt en ekki einvörðungu plástralausn fyrir þá sem eru í verstri stöðu vegna breytinganna núna. Það tel ég afleitt.

En til þess að gæta sanngirni --- ég kom líka inn á það í fyrri ræðu minni --- er viðleitni til að gefa mönnum tækifæri á því að koma að landi með meðafla. Ég tel mjög mikilvægt að viðurkenna þá staðreynd að það er nauðsynlegt að menn geti komið með meðafla að landi og hér er talað um 5%. Ég vil þó lýsa því yfir hér og ég hef gert það áður að ég var hjartanlega sammála hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni þegar hann talaði um það áðan að við ættum að gera myndarlegri tilraun hvað varðar meðafla og skoða bara stöðuna á einu til tveimur árum --- það getur ekki riðið baggamun í þessu tilliti --- þannig að við sjáum svart á hvítu hvernig sú staða er. Ég tel að við hefðum átt að gera tilraun með það, alla vega gagnvart þessum hluta útgerðarinnar, smábátaútgerðinni, að skoða það hreinlega í því ljósi.

Ég hef áhyggjur af stöðu mála í sambandi við úthlutun á pottum sem og hér eru lagðir til. Það skín í gegn, alla vega eftir mínum skilningi, að hér eru menn fyrst og fremst að hugsa um útgerðaraðilana sjálfa. Raunar er staðan sú að þar sem menn verða fyrir skakkaföllum þá eru náttúrlega í húfi ekkert síður afdrif fiskverkafólks í landi og fólksins sem vinnur í tengslum við útgerðina í landi. Allar tilraunir með byggðakvóta þurfa í raun að miðast við samfélagið í heild sinni þannig að tekin sé ákvörðun út frá heildarstöðu samfélagsins, ekki bara útgerðaraðilans á viðkomandi stað. Auðvitað höfum við reynslu af því, og við vitum hvernig kaupin gerast á eyrinni, að þó svo að útgerðaraðili fái úthlutað slíkum kvóta þá eru menn ekkert bundnir af því að landa og selja á viðkomandi stað þannig að það auki atvinnu eða sé atvinnuskapandi fyrir þá sem hafa lent í vondri stöðu eða byggðarlag sem hefur lent í vondri stöðu.

Virðulegi forseti. Ég mun að sjálfsögðu taka þessi mál til umfjöllunar í nefndinni eins og aðrir nefndarmenn. Frv. fer núna til sjútvn. og verður þar til umfjöllunar. Ég vil bara segja að almennt séð eru það auðvitað stórkostleg vonbrigði að menn skuli ekki hafa getað náð farsælli lendingu við að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið í heild sinni með það að markmiði að ná heildarárangri, bæta stjórnina og ekki síst að reyna að brjóta í blað og finna nýjar leiðir til þess að ná þeim markmiðum sem kvótasetning átti að ná upphaflega, þ.e. að fara betur með auðlindina. En eins og margoft hefur komið fram í málflutningi manna hér þá gerum við okkur öll grein fyrir því að við stöndum mjög illa hvað varðar stöðu fiskstofna. Það er alveg ljóst að þetta kerfi okkar, kvótakerfið, hefur ekki náð tilætluðum árangri hvað varðar verndun fiskstofna og þeirrar sýnar að ná hámarksafrakstri. Því er ærið tilefni til þess að feta sig inn á nýjar leiðir í fiskveiðistjórnarkerfinu öllu. En þetta frv. sýnir bara að stjórnarmeirihlutinn ætlar að keyra áfram með óbreytt kerfi eins og raunar hefur margoft komið fram. Nú er byrjað að smíða lög á grundvelli í raun og veru meirihlutanefndarálits sem kom fram hjá nefndinni um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða og ríkisstjórnarmeirihlutinn og þeir embættismenn sem stóðu að þeirri tillögusmíð bera ábyrgð á þeirri línu. Ég held að það sé dapurlegt. Ég held að öll þau markmið sem við erum að reyna að ná og þau vandamál sem við erum að reyna að leysa í sambandi við fiskveiðistjórnarkerfið kalli hreinlega á að við vindum ofan af því kerfi sem hefur leitt okkur fyrir margra hluta sakir í algjörar ógöngur.

Sú staðreynd að kerfið leiðir til þess að sjávarbyggðirnar munu enn og aftur komast í vandræði vegna kerfisins er náttúrlega viðurkennd með byggðatengdum kvóta eins og lagt er upp með hér, svokölluðu pottakerfi, vegna þess að sú lína sem er keyrð núna byggir á því að menn geti enn þá fækkað og stækkað fyrirtækin sem eru í greininni og í frv. eru menn einfaldlega að horfast í augu við það að sú mun þróunin verða og sjávarbyggðir geta átt von á því í framtíðinni að tekin verði frá þeim öll lífsbjörg í einu vetfangi eins og gerst hefur í mörgum tilvikum. Þess vegna er svo sorglegt að menn skuli ekki viðurkenna í raun afleiðingar þess sem þeir eru að ákveða með því að keyra vissa línu í sambandi við stjórn fiskveiða eins og reyndar svo margt annað í þessu samfélagi upp á síðkastið, því að afleiðingarnar eru svo augljósar ef leikreglurnar eru þannig að menn mega fara með þetta eins og þeir vilja, kaupa og selja og síðan að fara með fyrirtækin til og frá stöðum eins og þeir kjósa hverju sinni. Þetta eru ágallar. Ég og félagar mínir í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum lagt fram stefnu um heildarsýn okkar til þess að vinda ofan af þessu óréttláta kerfi gagnvart sjávarbyggðum. Auðvitað hefði maður viljað að sú leið væri farin í einu og öllu sem við lögðum til, þ.e. svokölluð fyrningarleið með skilyrðum um ráðstöfunarrétt sjávarbyggða o.s.frv.

Ég vildi bara að þetta kæmi fram, virðulegi forseti. En svo að maður gæti allrar sanngirni þá eru þarna hugmyndir sem ég tel góðra gjalda verðar, t.d. í 4. gr. Ég held að þar sé fetað inn á þá braut sem við verðum að fara, þ.e. að eitthvert svigrúm sé fyrir meðafla og meðaflalöndun án þess að það komi niður á útgerðaraðilum.

Að svo mæltu mun ég vinna að þessu máli í hv. sjútvn., virðulegi forseti.