Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 17:23:06 (1182)

2001-11-05 17:23:06# 127. lþ. 21.1 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[17:23]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það stóð þannig á hjá mér fyrir helgi að ég átti þess ekki kost að vera viðstaddur umræðuna á föstudaginn var. Ég kem því nokkuð seint til umræðunnar eins og gefur að skilja við þessar aðstæður. Ég vildi engu að síður koma hér upp og reifa aðeins fáein atriði í þessu máli og láta viðhorf mín koma fram auk þess sem störf endurskoðunarnefndarinnar hafa verið töluvert til umræðu eins og heyra mátti í fréttum. Ég tel ástæðu til þess að víkja nokkrum orðum að því máli.

Herra forseti. Ég vil fyrst segja að það sem sett hefur verið fram sem aðalatriði málsins er að mikill vafi léki á því að það fyrirkomulag sem gilti fyrir 1. september á veiðum smábáta stæðist ákvæði stjórnarskrár og því bæri nauðsyn til að breyta því fyrirkomulagi með þeim hætti að setja allar veiðar smábáta í kvóta. Ég er ekki sammála þessu sjónarmiði, herra forseti, og ég vil aðeins reifa nokkur atriði því til stuðnings þannig að því verði haldið til haga, a.m.k. upp á seinni tíma, að það er engin lögbundin nauðsyn á því að veiðum, hvort heldur smábáta eða annarra báta, verði stjórnað með hlutdeildarkerfi.

Þegar dómur Hæstaréttar féll í desember 1998 fékk ríkisstjórnin nefnd fjögurra manna til þess að greina dóminn og koma fram með tillögur um hvernig ætti að bregðast við honum. Nefnd þessi komst að þeirri niðurstöðu að ákvæði 5. gr. sem þá voru í lögum um úthlutun veiðileyfa stangaðist á við jafnræðisreglu stjórnarskrár og því yrði að gera bragarbót á lögunum hvað það snerti. Það yrði að vera þannig fyrirkomulag að allir þeir sem vildu halda úti skipi til veiða gætu fengið veiðileyfi að uppfylltum almennum skilyrðum um öryggi og búnað og annað þess háttar. Þetta sjónarmið gilti bæði um aflamarksflotann og smábátaflotann þannig að ekki væri hægt annað í ljósi þessa dóms en að breyta lögum á þennan veg. Af því leiddi að ef menn brygðust við samkvæmt þessu áliti þá mundi sú staða vera uppi hvað varðar smábátakerfið að allir bátar sem uppfylltu almenn skilyrði þess kerfis gætu fengið veiðileyfi þannig að fjöldi bátanna í því kerfi gæti vaxið endalaust. Það leiddi til þess að þeir gætu aukið veiði sína í tegundum utan kvóta og gengið þannig á rétt annarra sem fyrir voru til veiða úr þessum tegundum. Það var því álit okkar sem stóðum að þessu máli þá að við yrðum að bregðast við með því að takmarka veiðar smábáta með aflamarki. En það var ekki á þeim forsendum að kerfið bryti í bága við stjórnarskrána heldur vegna þess sem mundi leiða af því að opna kerfið fyrir öðrum bátum, með öðrum orðum að sú ákvörðun að hætta að takmarka fjölda veiðileyfa mundi leiða hitt af sér og menn yrðu að bregðast við því. Það er því misskilningur sem hefur stundum verið haldið fram að dómurinn hafi kveðið beinlínis á um að ekki væri heimilt að stjórna veiðum öðruvísi en með aflamarki. Þvert á móti veit ég ekki til þess að í þeim dómi né öðrum sem gengið hafa síðar hafi Hæstiréttur tekið neina afstöðu sem feli þetta í sér.

Dómar sem gengið hafa eftir þetta hafa að mörgu leyti breytt því sem við stóðum á þá og síðan vikið hlutum dálítið til baka þannig að töluverðar sviptingar hafa verið í því hvernig skilja beri dóma hvað þetta varðar.

Í frv. því sem hér er til umræðu er einmitt vikið að þessu og látið að því liggja að það verði að kvótasetja allar veiðar vegna þess að gildandi fyrirkomulagi hætti til að stangast á við stjórnarskrá. Ég vil aðeins fara nánar ofan í það vegna þeirrar forsögu sem ég rakti áðan sem byggir á því að það var ekki forsenda sjútvn. þá eða stjfrv. að veiðar sem stýrt var með öðrum aðferðum en aflamarki stönguðust á við stjórnarskrána.

Sú fullyrðing að þetta sé nauðsynlegt felur í sér tvennt sem ég geri athugasemdir við. Í fyrsta lagi þau viðbrögð sem urðu ofan á og margir töldu rétt. Ég taldi a.m.k. þá að það væri réttur skilningur á dómnum að það yrði að opna veiðileyfin fyrir öllum. Ég hef efasemdir um það nú vegna þess að ef það er réttur skilningur að ekki megi takmarka flotastærð þá er það alveg sérstakt í heiminum því mér er ekki kunnugt um það annars staðar í veröldinni að stjórnvöld hafi ekki þau tæki undir höndum til að stjórna veiðum á sínum miðum, að geta takmarkað flotastærð. Ég tel því að Hæstiréttur hafi ekki kveðið neitt upp úr um að stjórnvöldum sé óheimilt að hafa reglur sem takmarka flotastærð, hvort sem þar er um rúmmetra að ræða eða reglur af öðrum toga, um fjölda veiðileyfa eða slíkt. Það liggja ekki fyrir að mínu viti neinir dómar sem kveða á um að slíkt sé óheimilt. Ég tel í ljósi þess að erlendis er það, a.m.k. þar sem ég veit til, alls staðar heimilt að stjórna flotastærð þá væri það eitthvað sérstakt hér ef íslenskir dómstólar mundu hafna þessu úrræði.

[17:30]

Í öðru lagi. Þegar menn segja að það verði að opna veiðileyfin fyrir öllum og það sé í lagi vegna þess að menn hafi aflamarkskerfi þá ganga þeir út frá því að það verði að stjórna með aflamarki, að það sé raunar enginn annar möguleiki. Ég tel að það hafi ekki verið kveðið upp úr með það heldur af dómstólum Íslands að stjórnvöld séu bundin af því að styðjast við aflamarkskerfið. Ég tel að það sé heimilt að stjórna veiðum með öðrum aðferðum sem menn kunna að beita. Þær aðferðir kunna t.d. að vera á þann veg að fjöldi veiðileyfa sé takmarkaður. Þegar menn ræða hlutina eins og gert hefur verið þá gefa þeir sér forsendur sem ég tel að séu umfram það sem hægt er að styðja rökum. Ég vil þó nefna eitt dæmi um hið gagnstæða.

Samhliða frv. ríkisstjórnarinnar í desember 1998 sem varð síðar að þeim lögum sem nú eru í gildi varðandi smábátaveiðar var flutt annað frv. um grásleppuveiðar, af því að hið sama var talið gilda um grásleppuveiðar og aðrar veiðar. Grásleppuveiðum var þá eingöngu stjórnað með leyfisveitingum. En sjútvn. lagðist yfir málið og skilaði samhljóða nál. um það mál og lagði til að frv. yrði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari skoðunar. Í áliti nefndarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Eftir nánari skoðun á frumvarpi því sem liggur hér fyrir, meðal annars með hliðsjón af dómi Hæstaréttar frá 3. desember 1998 í máli nr. 145/1998, er það mat nefndarinnar að ekki þurfi að hrófla við ákvæðum laga um grásleppuveiðar. Leyfi til veiða á grásleppu eru annars eðlis en leyfi til veiða í atvinnuskyni eins og þau voru samkvæmt ákvæði 5. gr. laga nr. 38/1990 fyrir breytingarnar sem gerðar voru með lögum nr. 1/1999. Leyfi skv. 5. gr. snerist um takmörkun á rétti til veiða jafnt úr stofnum sem talið er nauðsynlegt að stjórna veiðum úr og stofnum sem talið er óhætt að stunda frjálsa sókn í. Leyfi til grásleppuveiða skv. 7. gr. laga nr. 79/1997 taka eingöngu til veiða á tilteknum fiskstofni og með þeim og tengdum aðgerðum hefur sóknin verið takmörkuð í verndarskyni.``

Nefndin komst því að þeirri niðurstöðu að það væri allt í lagi að hafa veiðileyfi sem væri útgefið eingöngu á tiltekinn stofn og stjórna veiðum með þeim aðgerðum og tengdum aðgerðum sem lúta að því að takmarka sókn. Ég veit ekki betur en þetta kerfi sé enn við lýði í dag hvað varðar grásleppuveiðar. Ég hef engan heyrt halda því fram að þetta fyrirkomulag stangist á við stjórnarskrána. Það er því ekki nauðsyn að menn styðjist við það fyrirkomulagið sem er í dag. Menn geta valið það og menn geta líka valið annað fyrirkomulag. Það er það sem ég legg áherslu á og tel að menn eigi að hafa í huga upp á síðari tíma. Ef þetta verður niðurstaðan þá er a.m.k. ljóst af minni hálfu að menn verða að hafa í huga að þessu má breyta.

Í áliti lögfræðinga ráðuneytisins frá 17. maí, sem vitnað er til til að árétta að fara verði þessa leið, er reyndar ekki mjög fast að orði kveðið. Þar er ekki neitt sagt um að það að stjórna veiðum með bundinn kvóta í einni tegund og frjálsum veiðum í öðrum stangist á við stjórnarskrá. Því er heldur ekki haldið fram með afdráttarlausum hætti að það stangist á við stjórnarskrá að takmarka leyfisfjöldann heldur segir í þessu áliti, með leyfi forseta, þegar reifuð hafa verið sjónarmiðin:

,,Þegar þetta er skoðað má vera ljóst að erfitt er að gefa einhlítt svar við þeirri spurningu hvort Hæstiréttur hafi með dómum sínum frá 3. desember 1998 tekið afstöðu til þess hvort takmarkanir 5. gr. þágildandi laga um stjórn fiskveiða stæðust ákvæði 1. mgr. 65. gr. og 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar hvað varðar reglur um krókabáta, enda vafa undirorpið hvor sjónarmiðanna sem hér hafa verið rakin yrðu ofan á ef á reyndi.``

Þannig kveða lögfræðingar ráðuneytisins ekki afdráttarlaust úr um það álit og gefa það ekki sem sitt álit að hér sé um stjórnarskrárbrot að ræða heldur álitamál. Það verður að segjast eins og er að oft hafa menn haft sterkari rökstuðning lögmanna máli sínu til stuðnings en hér er til að dreifa.

Ég vil því, herra forseti, koma þessu rækilega til skila þannig að enginn vafi leiki á því að þau sjónarmið sem hafa verið nefnd og hafa verið til staðar frá upphafi halda fullu gildi sínu hvort sem menn fara þá leið sem frv. kveður á um eða ekki.

Þá hefur í umræðunni verið vikið aðeins að störfum endurskoðunarnefndar sem ég átti reyndar sæti í. Eins og menn hafa bæði séð og heyrt þá hefur talsvert verið um málið fjallað á opinberum vettvangi. Það sem hefur vakið mesta athygli mína eru ummæli hæstv. sjútvrh. um þá sem ekki styðja afstöðu meiri hluta endurskoðunarnefndarinnar. Í ræðu hæstv. sjútvrh. sem olli deilum á þinginu í síðustu viku féllu ummæli sem ég tel ástæðu til að staldra við og fara aðeins yfir. Ráðherrann segir í ræðu sinni að hann hafi ekki gert ráð fyrir þeim möguleika að einstakir nefndarmenn hlypu frá samkomulagi sem í ætti að vera innsiglað í álitsgerð auðlindanefndar. Hann segir svo, með leyfi forseta:

,,Í mínum huga er það alveg skýrt að þeir sem aldrei ætluðu sér að ná saman um meiri hluta nefndarinnar og hafa haft það að markmiði að halda uppi ágreiningi eru þeir sem við er að sakast.``

Þetta finnast mér dálítið athyglisverð ummæli. Í fyrsta lagi má benda á að í þessu orðalagi felst að afstaða meiri hluta nefndarinnar hafi verið eitthvert viðmið sem aðrir nefndarmenn áttu að laga sig að. Ég get ekki fallist á að sjónarmið þeirra sem að lokum skipuðu meiri hluta nefndarinnar hafi verið einhver ballest í störfum nefndarinnar og að þeir sem ekki gátu fallist á þau sjónarmið hafi haft það að markmiði að halda uppi ágreiningi.

Mér er ekki ljóst hvort hann meinar þessi ummæli til mín eða ekki. Ég vil a.m.k. ekki lesa það með óyggjandi hætti úr þessum ummælum. Ég kýs að bíða þar til ráðherra skýrir þau gagnvart mér eða að setur fram einhver viðbrögð við þessum ummælum. Ég vil hins vegar upplýsa það sem sumir eflaust vita, hvað varðar afstöðu fulltrúa Framsfl. í auðlindanefnd, að annar þeirra studdi fyrningarleið og styður enn og hinn þeirra studdi svonefnda veiðigjaldsleið. Ég veit eiginlega ekki hvernig hæstv. ráðherra getur komist svo að orði, eins og hann gerir, að innsiglað hafi verið samkomulag í auðlindanefnd. Það a.m.k. liggur ljóst fyrir að skiptar skoðanir voru meðal fulltrúa míns flokks.

Ég vil segja það fyrir mitt leyti, af því að ég starfaði í þessari nefnd, endurskoðunarnefndinni, að ég er ekki sammála ummælum ráðherra um störf þeirra nefndarmanna sem ætla má að hann beini helst orðum sínum til. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar störfuðu í nefndinni af fullum heilindum, bæði Sighvatur Björgvinsson og Jóhann Ársælsson sem sátu í nefndinni fyrir hönd síns flokks, fyrst Sighvatur og síðan Jóhann, þegar Sighvatur sagði sig frá málinu þegar hann lét af setu á Alþingi. Sama vil ég segja um störf hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar. Ég tel að hann hafi starfað af fullum heilindum og ég tel ummæli í þeirra garð, eins og þau hafa fallið og heyra hefur mátt á opinberum vettvangi, vera ómakleg.

Ég vil einnig segja um störf beggja fulltrúa Sjálfstfl., hv. þm. Vilhjálms Egilssonar og Tómasar Inga Olrichs, að ég tel að þeir hafi starfað af fullum heilindum. Ég sé enga ástæðu til að gera neinar athugasemdir við störf þeirra. Ég tel miður að menn fari að ræða um störf nefndarinnar á þessum forsendum sem hér hefur verið gert að umræðuefni, bæði hér í þingsölum og á öðrum vettvangi. Ég tel að það hjálpi ekki í málinu að menn fari að gefa einstökum nefndarmönnum niðrandi einkunnir. Ég hvet menn til að láta af slíku og einbeita sér að því að ræða málið efnislega því að það skiptir mestu máli.

Við vitum að í þessu máli sem endurskoðunarnefndin fjallaði hvað mest um og þurfti að glíma við voru tvö mjög ólík sjónarmið. Annars vegar sjónarmið þeirra sem vilja hafa óbreytt úthlutunarkerfi og hins vegar sjónarmið þeirra sem vilja innkalla veiðiheimildir og hafa aðra úthlutun á nýjum forsendum. Samkomulag milli þessara sjónarmiða næst ekki með því að hafna öðru sjónarmiðinu og búa til niðurstöðu sem eingöngu grundvallast á hinu sjónarmiðinu. Samkomulag næst því aðeins að menn taki mið af báðum sjónarmiðum. Það var rætt í fullri alvöru innan nefndarinnar að ná samkomlagi sem tæki tillit til beggja sjónarmiða. Ég er alveg viss um það að ef hæstv. sjútvrh. hefði lagt þeim tilraunum lið þá hefðu menn náð sameiginlegri niðurstöðu í endurskoðunarnefndinni.