Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 17:45:22 (1184)

2001-11-05 17:45:22# 127. lþ. 21.1 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[17:45]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Í stjórnmálum skylmast menn stundum og taka tíma í það en slíkir stormar ganga niður. Þegar það gerist eiga menn alltaf þann möguleika að snúa sér að því sem er mikilvægast og það er að tala saman um sameiginlega niðurstöðu. Ég skal ekkert segja um hvort dregið hafi úr líkum á samkomulagi. Ég tel að afturkippur hafi orðið í málinu við það að endurskoðunarnefndin klofnaði. Ég tel líka að vel hafi verið hægt að komast hjá því að endurskoðunarnefndin skilaði fleiru en einu áliti en það þýðir ekki að menn eigi ekki þann möguleika síðar. Menn eiga alltaf möguleika á að ná samkomulagi þegar viljinn er orðinn nógu mikill.