Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 17:50:03 (1189)

2001-11-05 17:50:03# 127. lþ. 21.1 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[17:50]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í ræðu hv. þm. var hann ekki viðstaddur umræðuna, var við önnur störf á föstudaginn. En mig langar að inna hann eftir því hvort hann sé sömu skoðunar og ég sem nefndarmaður í endurskoðunarnefndinni en ég lýsti því yfir þá að strax á fyrstu fundum nefndarinnar hefðu svifið yfir vötnunum tölur um gjaldtökuþol greinarinnar og það kom mjög fljótt upp talan 2,5 milljarðar sem greinin þyldi í gjaldtöku og síðar komu náttúrlega fram hugmyndir á seinni stigum um að aflétta álögum þannig að nettótalan er engan veginn þessir 2,5 milljarðar. En ég held að það sé mjög mikilvægt úr því að við erum að ræða störf nefndarinnar að vita hvort hv. þm. metur hlutina á sama hátt og ég, að í raun og veru hafi kannski einhver öfl þarna innan dyra þegar verið búin að gefa sér niðurstöðu á grundvelli þeirrar hugmyndar að gjaldtökuþolið væri 2,5 milljarðar plús aflétting á álögum á móti, 800 millj. til 1 milljarður.