Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 18:03:01 (1193)

2001-11-05 18:03:01# 127. lþ. 21.1 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[18:03]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. um að hvatinn eða afgjaldið fyrir þennan kvóta sem ekki á að heyra undir kvóta skipsins verður að fara til einhverra þeirra stofnana sem sjómönnum hugnast. Ég hugsaði á sínum tíma að það væri Hafró sem stundar rannsóknir í þágu útgerðar og sjómanna. Vel má hugsa sér að þetta renni til annarra þarfa, t.d. Lífeyrissjóðs sjómanna eins og hv. þm. nefndi. Ég held að ég hafi meira að segja getið um það í þeirri þáltill. sem ég flutti á sínum tíma að það yrði gert. En það er nauðsynlegt að þetta sé eitthvað sem sjómenn hafa hag af og þeir vilji gjarnan að peningarnir renni til þannig að þeir séu enn þá viljugri til að koma með fisk að landi.

Nokkur atriði gera það að verkum að menn mundu koma með fisk að landi. Í fyrsta lagi held ég að öllu fólki leiðist að henda verðmætum og sjómenn eru ekkert undanskildir. Í öðru lagi held ég að allir vilji fara að lögum og sjómenn ekki síður, þ.e. að þeir vilji ekki henda fiski þegar það er bannað. Svo verður að vera ákveðinn fjárhagslegur hvati til að koma með fiskinn að landi og ef verðmæti þess afla sem komið er með að landi rennur að meginhluta til stofnana sem sjómenn eru sáttir við ætti það að vera enn frekari hvati til að koma með þann afla að landi. Mér finnst því að hv. nefnd eigi að skoða hvernig hægt sé að vinna þannig að þessum málum að sjómenn séu hvattir til þess að koma með þennan afla að landi því það er þjóðinni allri til heilla.