Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 18:04:42 (1194)

2001-11-05 18:04:42# 127. lþ. 21.1 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[18:04]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svörin og ábendingar þingmannsins. Hv. þm. sagði að lögin um stjórn fiskveiða kostuðu þjóðfélagið ómælda fjármuni. Þarna víkur hann að afar stóru máli. Ég er honum algerlega sammála um þetta. Ég er alveg viss um að útfærslan á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi með því brottkasti og verðmyndunarkerfi sem tengist því, bæði varðandi leigukvótaverðið og ýmis önnur atriði sem koma fram þegar menn eru að versla eða leigja í þessu kerfi, kostar þjóðina stórfé, einhverja milljarða á ári hverju.

Ég hef heyrt hv. þm. Einar Odd Kristjánsson nefna í þessum ræðustól 20 milljarða, ef ég man rétt, einhvern tíma þegar við vorum að ræða þetta, þ.e. í hugsanlegu útflutningsverðmæti þeirra afurða sem gætu komið að landi, m.a. varðandi brottkast. Ég tel að mörg fleiri atriði í núverandi útfærslu á stjórn fiskveiða og verðmætismyndun á fiskinum, þ.e. verðlagningu hans og sölu á markaði og leigusystemið, valdi þessari þjóð miklum skaða og að mikil verðmæti tapist. Ég vil spyrja þingmanninn hvort hann hafi svipuð sjónarmið að þessu leyti og hvort það sem hann sagði áðan um að lögin kostuðu þjóðina stórfé eigi við þessi atriði.