Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 18:06:40 (1195)

2001-11-05 18:06:40# 127. lþ. 21.1 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[18:06]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er þekkt í öllu atvinnulífi að eftir því sem fleiri reglur eru, því meira flækjustigið er sem atvinnugreinin þarf að vinna undir, þeim mun minni er arðsemin. Varðandi t.d. framsal á aflaheimildum og annað slíkt, þ.e. ef eignarhald á kvótanum er ekki augljóst og menn þurfa að fara í alls konar tilfæringar og snúninga til að ná því fram sem hver og einn vill, þá kostar það allt. Ég get ekki slegið á hvað er dýrast í þessu. Ég reyndi einu sinni að lesa þessi lög, herra forseti, og taldi mig hafa skilið þau. Svo las ég reglugerðirnar og þær voru svolítið öðruvísi. Svo kynnti ég mér framkvæmdina og þá var það þriðja útfærslan. Maður skilur þessi lög meðan maður les þau. Þetta er þvílíkur frumskógur að ég efast um að okkur núlifandi Íslendingur hafi alveg á tæru bæði lagasetninguna, reglugerðirnar og framkvæmdina og það hlýtur að kosta mjög mikið fyrir útgerðarmenn og sjómenn að starfa í svona frumskógi.