Rekstrarstaða framhaldsskólanna

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 13:31:48 (1202)

2001-11-06 13:31:48# 127. lþ. 22.94 fundur 107#B rekstrarstaða framhaldsskólanna# (umræður utan dagskrár), Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[13:31]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Málefni framhaldsskólanna hafa verið í brennidepli fjölmiðlaumræðunnar upp á síðkastið. Ástæðurnar eru margvíslegar og þó að umræðan kristallist einatt í kringum fjármál og skort á fjármagni er nauðsynlegt að beina sjónum að þeim atriðum sem skapa það ástand sem framhaldsskólarnir glíma nú við.

Undanfarin ár hafa skólarnir starfað samkvæmt árangursstjórnunarsamningum við menntmrn. og reiknilíkani sem búið var til í grunnatriðum árið 1993 en endurnýjað fyrir þremur árum þegar ný námskrá fyrir framhaldsskólastigið gekk í gildi. Á þessum árum hafa verið að koma í ljós stórfelldir gallar á reiknilíkaninu og nú er svo komið að af 30 skólum má segja að 20 þeirra glími við viðvarandi hallarekstur og hjá sumum er vandinn orðinn svo gífurlegur að stjórnendur og kennarar eru farnir að þjást í starfi.

Hvernig ætlar ríkisvaldið að bregðast við þeim vanda? Ekki er að finna í fjárlagafrv. að neinna breytinga sé að vænta. Samkvæmt því verður áfram keyrt eftir meingölluðum ,,vegvísi``, reiknilíkani sem útdeilir skólunum fé út frá þreyttum nemendum, fermetratölum og exelformúlum sem eiga sér engar fyrirmyndir í löndunum í kringum okkur. Hvers vegna eru þarfir skólanna fyrir fjármagn ekki skilgreindar út frá þeirri þjónustu sem námskrá einstakra skóla gerir ráð fyrir að skólarnir veiti og raunverulegum kostnaði við að veita þá skilgreindu þjónustu? Ekki var hæstv. menntmrh. svo lítið stoltur af því afkvæmi sínu, samþættri námskrá fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskólastig þegar hún leit dagsins ljós, því að í blaðaviðtali við ráðherrann frá því á haustdögum 1999, má lesa eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Er þetta í fyrsta sinn í Íslandssögunni sem þetta verk er unnið með þessum hætti og samfella mynduð milli skólastiga. Ég lít þannig á að þetta verði ekki oftar gert á þennan veg því að tekist hafi að skapa góðan ramma.``

En hvað hefur gerst, herra forseti? Hvers vegna lætur hæstv. menntmrh. það viðgangast að ekki skuli vera hægt að notast við metnaðarfulla námskrá? Hvers vegna er ekki umsvifalaust snúið af villubrautinni og reiknilíkaninu breytt þannig að skólar sem leggja sig fram um að halda nemendum sínum við námið og leggja kannski mest á sig við að halda þeim nemendum við nám sem eiga við einhverja námsörðugleika að stríða, hvers vegna er þessum skólum refsað með reiknilíkani sem ekki lætur þá hafa krónuframlag fyrir nemanda sem ekki skilar sér í próf? Hvernig rökstyður hæstv. menntmrh. það óréttlæti sem fólgið er í þessu og hvernig ætlast hann til þess að kennarar og skólastjórnendur haldi áfram að sýna starfi sínu alúð og metnað? Hæstv. ráðherra lýsir framtíðardraumum sínum í áðurnefndu blaðaviðtali þegar hann segir, með leyfi forseta:

,,Draumur minn er sá að gefa sem flestum tækifæri til að njóta sín sem best og njóta tækifæra lífsins sem best. Takist að skapa forsendur til þess með góðu menntakerfi er markmiði þess náð.``

Nú fullyrði ég, herra forseti, við hæstv. ráðherra að ekki hafi tekist að skapa forsendurnar við góða framhaldsskóla með því reiknilíkani sem þröngvað var upp á þá. Eða hvað segir hæstv. ráðherra við stjórnendur Menntaskólans í Kópavogi sem standa nú frammi fyrir því að eigið fé skólans er neikvætt um 122 millj.? Reiknilíkanið er að því er virðist eingöngu sniðið fyrir fjölmenna bóknámsskóla en því fjölþættara sem námsframboðið er, því erfiðara verður fyrir skólana að sinna hlutverki sínu, enda þá ekkert samræmi orðið í starfsemi skólanna og fjárframlögum til þeirra.

Þá er ekki annað hægt en að nefna skýrslu þá sem þróunarsvið Byggðastofnunar lét gera fyrir skemmstu en í henni er vikið að ástandinu í framhaldsmenntun ungmenna sem eiga heima á landsbyggðinni. Höfundar skýrslunnar telja það beinlínis ógna stöðu byggðarlaganna að starfsgreinar séu ekki lengur kenndar á framhaldsskólastigi í byggðarlögunum.

Spurningar þær sem ég hef lagt fyrir hæstv. menntmrh. í þessari umræðu eru svohljóðandi:

Er þess að vænta að tekið verði á fjárhagsvanda framhaldsskólanna og rekstur þeirra tryggður til frambúðar?

Hvernig verður leyst úr vanda einstakra skóla vegna uppsafnaðs rekstrarhalla og hverju svarar ráðherrann þeim skólum sem segjast hafa sparað og skorið niður alls staðar þar sem því verður við komið í þjónustu við nemendur og kennara en sjá ekki fram á neinar úrbætur í fjárlagafrv.?

Hvað líður endurskoðun reiknilíkans ráðuneytisins vegna framhaldsskólanna og hvað er verið að gera til að fella það betur að veruleika einstakra skóla, veruleika nemenda og fjölskyldna þeirra?

Er að vænta einhverra breytinga á stöðu starfsgreinamenntunar í hinum dreifðari byggðum í tengslum við niðurstöðu skýrslu þróunarsviðs Byggðastofnunar um stöðu landshlutanna?