Rekstrarstaða framhaldsskólanna

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 13:42:12 (1204)

2001-11-06 13:42:12# 127. lþ. 22.94 fundur 107#B rekstrarstaða framhaldsskólanna# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[13:42]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það er fyrst og fremst ein spurning sem mér dettur í hug þegar ég hlusta á greinargerð hæstv. menntmrh. í þessu máli. Hvers vegna fær hæstv. ráðherra ekki að heyra sannleikann þegar hann talar við undirmenn sína? Ég legg til að hv. þingmenn velti því fyrir sér hér og nú og framvegis.

Það hefur lengi verið þekkt meðal þeirra hv. þm. sem sérstaklega fylgjast með skólamálum að á sl. ári varð mikill halli á rekstri framhaldsskólanna í landinu eða um 300 millj. kr. vegna þess að mikið brottfall nemenda varð m.a. sem afleiðing af verkfalli framhaldsskólakennara sem stjórnvöld drógu á langinn af algeru ábyrgðarleysi. Er viðbúið að hallinn verði enn þá meiri á þessu ári. Þess vegna var það mitt fyrsta verk þegar ég leit í fjárlaga- og fjáraukalagafrv. er þau litu dagsins ljós í októbermánuði að skoða hvernig hv. ráðuneyti menntamála mætti þessum vanda. Þar var aldeilis komið að tómum kofanum og hvergi sér þess stað að ráðuneytið ætli sér að rétta af þennan halla. Þó er þarna um umtalsverðan vanda að ræða, t.d. svo tekið sé dæmi af, eins og hér hefur verið til tekið, Menntaskólanum í Kópavogi sem er með mikið starfsnám innan sinna vébanda sem því miður er illa metið til fjár í núverandi reiknilíkani, þá hefur skólinn verið með um 122 millj. kr. halla á síðasta ári sem er auðvitað óviðunandi staða.

Í öðrum tilfellum munar tugum milljóna og er þar oftast um að ræða framhaldsskóla með verknám, að ekki sé talað um heimavistir sem virðast vera illa metnar inn í þetta reiknilíkan enn sem komið er.

Þá er mjög athugavert að leggja slíka ofuráherslu á að nemendur skili sér til prófs þegar slík reikniregla er búin til. Tími minn er búinn en væntanlega gefst tími síðar til að halda áfram að ræða þetta mál.