Rekstrarstaða framhaldsskólanna

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 13:44:34 (1205)

2001-11-06 13:44:34# 127. lþ. 22.94 fundur 107#B rekstrarstaða framhaldsskólanna# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[13:44]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Án vafa er það ein skynsamlegasta leið sem farin hefur verið við að ákvarða fjármögnun til framhaldsskóla að taka upp svokallað reiknilíkan, ég fullyrði að svo sé, líkan sem mælir raunverulegan kostnað við rekstur á skóla. En grundvallaratriðið er að um slíkt líkan ríki sátt og jafnframt að líkanið mæli þann raunverulega kostnað sem á sér stað við rekstur á skólum. Á ég þar við stóra skóla, litla skóla hvort heldur þar er bóknám eða einstakar verknámsbrautir, ráðgjöf og önnur sérfræðiþjónusta, hversu margir nemendur hefja nám við skólann, viðhald húsnæðis og þar fram eftir götunum.

Ég fullyrði, herra forseti, að frá því fyrir um 5--6 árum hafi orðið verulegar framfarir á þessu sviði þar sem fjárveitingar byggðust áður í rauninni á slumpaðferðum. Þær eru þó mun mælanlegri nú en fyrir 5--6 árum. En brýnasta verkefnið, herra forseti, er tvímælalaust að vinna við reiknilíkanagerðina sé stöðug og að sátt ríki um þetta reiknilíkan milli annars vegar ráðuneytis og hins vegar stjórnenda skóla.

Þar sem slík líkön hafa lengst verið reynd, eins og t.d. í Kanada, er slík yfirferð og yfirlega yfir reiknilíkani stöðug og ríkir þar gjarnan sátt um slíkt líkan með þeim afleiðingum að það mælir raunverulegan kostnað við skólana og tekur mið af þeim breytingum sem verða í innra starfi skólanna og ytra umhverfi. Líkanið er eitt og sér og síðan eru fjárveitingar byggðar á slíku líkani. Það er metnaður Alþingis að láta menntamál skipa öndvegi, að þau hafi ákveðinn forgang vegna þess að fjárfesting í menntun er fjárfesting í mannauði og til að ná þeim markmiðum skiptir miklu máli að reiknilíkanið sé til staðar og mæli raunverulegan kostnað.