Rekstrarstaða framhaldsskólanna

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 13:54:42 (1210)

2001-11-06 13:54:42# 127. lþ. 22.94 fundur 107#B rekstrarstaða framhaldsskólanna# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[13:54]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. menntmrh. að halli af heildarframlagi til framhaldsskólanna ekki nema 1--2% en það er af öllu framlagi til framhaldsskólanna. Halli framhaldsskólanna er nefnilega mjög misjafn og skuldir skólanna eru mismiklar og það er rétt sem hér hefur komið fram að reiknilíkanið sem hefur verið í gildi nokkur undanfarin ár hefur verið á kostnað minni skólanna og hallinn og vandamál framhaldsskólanna er mestur hjá minni skólunum og sérstaklega verknámsskólunum. Reiknilíkanið út af fyrir sig þegar það var sett á var gert til þess að koma í veg fyrir að verið væri að afgreiða tilviljanakennt til framhaldsskólanna, en ef reiknilíkanið á að njóta trausts verður það að mæla raunverulegar þarfir skólanna. Það verður að mæla fjárþörf skólanna vegna heimavistar, viðhalds og vegna þeirra fjárhagserfiðleika sem þeir eiga við að etja núna. Taka þarf tillit til starfsnámsins og til breytilegs nemendafjölda. Reiknilíkanið hefur skrúfað niður starfsemi minni skólanna. Því færri nemendur og minni fjölbreytni, því líklegra er að nemendur fari úr heimabyggð og leiti til stærri skólanna þar sem fjölbreytnin er meiri og svo heldur þetta áfram og skrúfast þannig niður.

Herra forseti. Til þess að efla byggð í landinu er ein af meginforsendunum að efla framhaldsskólana og efla verknám. Til þess þurfum við að sjá meira fjármagn til framhaldsskólanna og við eigum að sjá það núna á þeim fjárlögum sem við erum að afgreiða að nauðsynlegt er orðið að endurskoða reiknilíkanið og taka tillit til litlu skólanna.