Rekstrarstaða framhaldsskólanna

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 13:57:00 (1211)

2001-11-06 13:57:00# 127. lþ. 22.94 fundur 107#B rekstrarstaða framhaldsskólanna# (umræður utan dagskrár), KÓ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[13:57]

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Sú umræða sem á sér stað í dag um framhaldsskólana í landinu er gagnleg. Hún er gagnleg fyrir það starf sem þar er unnið. Við verðum að líta á rekstur skólanna að sumu leyti eins og rekstur fyrirtækja. Þeir verða að lúta ákveðnum lögmálum í rekstri. Hagræðing, sparnaður og ráðdeild verður að eiga sér stað þar ekki síður en í hinum almennu fyrirtækjum. Það hefur reiknilíkanið einmitt leyft stjórnendum skólanna.

Reiknilíkan það sem notað hefur verið sýnir að af 30 skólum í landinu, framhaldsskólum, hefur 1/3 þeirra staðið í mínus, 1/3 hefur verið við núllmörkin og 1/3 hefur gengið vel og haft afgang að fjármunum sínum.

Jafnvel þó að bornir séu saman skólar sem hafa svipað námsframboð og svipaðar aðstæður að öðru leyti, og á ég þá við skóla sem annars vegar eru á landsbyggðinni og hins vegar skóla sem eru á þéttbýlissvæðum, þá skiptir auðvitað máli hvernig haldið er á og farið er með. Reiknilíkanið gerir stjórnendum skólanna kleift að hafa á jákvæðan hátt áhrif á rekstur skóla sinna og taka upp nýjungar. Skólarnir verða jafnframt að aðlaga sig þeim aðstæðum sem eru á hverju sviði, t.d. með því að taka annaðhvert ár inn á þær brautir sem fámennar eru.

Reiknilíkan verður auðvitað að endurskoða á hverju ári og aðlaga að nýjum og breyttum tímum í skólastarfinu.

Herra forseti. Reiknilíkani má ekki kenna um hvernig fer hjá einstökum skólum sem illa gengur.