Rekstrarstaða framhaldsskólanna

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 13:59:15 (1212)

2001-11-06 13:59:15# 127. lþ. 22.94 fundur 107#B rekstrarstaða framhaldsskólanna# (umræður utan dagskrár), Flm. KolH
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[13:59]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er allt í sóma hjá hæstv. menntmrh. eins og fyrri daginn, liggur mér við að segja. Þar er aldrei neitt að. ,,Herslumunur`` er allt sem þarf í málefnum framhaldsskólanna. Reiknilíkanið virkar vel og við verðum að athuga það, segir hæstv. ráðherra, að það sé líka aðhaldstæki. Þá langar mig, herra forseti, að benda hæstv. ráðherra á að hann mætti kannski skoða það að láta gera reiknilíkan í ráðuneyti sínu þar sem menn eru svo flinkir að gera góð reiknilíkön fyrir útgjöld ráðuneytanna því að útgjöld þeirra eru að fara úr böndum. Ég fullyrði, herra forseti, að ekki er hægt að horfa á þetta þeim augum sem hæstv. ráðherra gerir þegar hann segir að í fjárlagafrv. sé gert ráð fyrir svo og svo mikilli hækkun til framhaldsskólanna því að hann veit fullvel að hún er komin til vegna breytinga á verðlagi og breytinga í kjarasamningum.

Í fjárlagafrv. stendur, með leyfi forseta:

,,Til þess að mæta sparnaðarmarkmiði ríkisstjórnarinnar lækkar framlag til að mæta nemendafjölgun og óvissum útgjöldum framhaldsskólanna um 82 millj. kr., framlag til framkvæmdar nýrrar skólastefnu lækkar um 30 millj. kr., framlag til að ýmissa nýjunga í skólastarfi lækkar um 15 millj. kr. og að lokum lækkar framlag til símenntunarmiðstöðva um 10 millj. kr.`` Og áfram lækkar framlagið, hér um 48 millj., og það lækkar og lækkar. Í mínu frv. hljóðar þetta svona, herra forseti. Að hæstv. ráðherra skuli stinga höfðinu í sandinn, neita að horfast í augu við vandann og neita að hlusta á þá skólastjórnendur sem hafa tjáð sig við okkur þingmenn sem störfum í fjárln. og í menntmn., er ekki sæmandi hæstv. ráðherra.