Tólf ára samfellt grunnnám

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 14:27:27 (1220)

2001-11-06 14:27:27# 127. lþ. 22.3 fundur 51. mál: #A tólf ára samfellt grunnnám# þál., Flm. JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[14:27]

Flm. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það hafa orðið heilmiklar breytingar í búsetu, skólahaldi og samskiptum og öllu því er lýtur að umgerð einstaklingsins. Ég man eftir því þegar skyldunámi lauk við 12 ára aldur, síðan við 14 ára aldur og svo við 16 ára aldur. Ég tel að það styttist í að það verði fært í 18 ára aldur, því meginþorri ungmenna og aðstandenda þeirra stefnir að því að fólk ljúki framhaldsskólanámi.

Á hitt ber að líta að það skiptist eftir landshlutum hvernig það gengur. Einmitt á þeim svæðum þar sem ekki eru framhaldsskólar er hæst brottfall og þar er líka lægst hlutfall þeirra sem ljúka framhaldsskólanámi og það ætti nú að segja sína sögu. Ég held því, þó vissulega megi í einhverjum tilvikum greina þau rök sem hv. þm. nefndi um einangrun, að hitt sé miklu frekar tilfellið að þetta muni styrkja viðkomandi byggðarlög. Hvað eigum við að segja um staði eins og Blönduós, Hvammstanga, Hólmavík eða Borgarnes o.s.frv.?

Fólk velur sér vissulega búsetu, en frumréttur fólks er að hafa aðgang að góðri menntun fyrir sitt fólk. Ég tel þess vegna að það sé eitt það allra brýnasta í eflingu menntunar í landinu að hún sé veitt á jafnréttisgrunni og bendi, herra forseti, m.a. á nýja skýrslu Byggðastofnunar sem bendir einmitt á að þarna liggi stærstu veikleikar hinna dreifðu byggða, og mest að sækja að efla menntun í heimabyggð.