Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 14:58:29 (1223)

2001-11-06 14:58:29# 127. lþ. 22.5 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[14:58]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér kemur aftur til umræðu hjá okkur í Alþingi frv. til laga um atvinnuréttindi útlendinga. Eins og fram kom hjá hæstv. félmrh. kom frv. til umræðu á síðasta þingi og fékk eins og hann tók fram mjög góðar viðtökur. Við í félmn. vorum búin að því við töldum að fullvinna frv. frá okkur til þingsins, en því miður vannst ekki tími til að ljúka málinu fyrir þinglok. Nú fáum við frv. sem sagt aftur til umræðu og ég reikna með að nefndin taki svipað á málinu og áður hefur verið gert.

[15:00]

Ég vildi minnast á nokkur atriði í þessu samhengi sem komu til umræðu í nefndinni í fyrra. Þar er kannski fyrst að telja eitt atriði sem var töluvert rætt um, þ.e. 2. mgr. 5. gr. frv. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Leyfi samkvæmt lögum þessum er heimilt að binda skilyrðum öðrum en þeim er koma fram í lögum þessum og ráðherra telur nauðsynleg vegna mikilvægra almannahagsmuna.``

Nefndin leitaði álits á þessu atriði sérstaklega og taldi nauðsynlegt að það kæmi fram í nál. sem hún skilaði frá sér í fyrra að hennar skilningur væri sá að nefndin legði áherslu á að heimildinni yrði ekki beitt nema að fyrir hendi væru svokölluð ,,force majeure``-tilvik, og þá væri fyrst og fremst átt við útgáfu nýrra leyfa. Þarna urðu sem sagt mjög miklar umræður um þetta atriði og þess vegna var þetta sérstaklega tekið fram í nál.

Það var annað sem nefndin lagði til, þ.e. það sem hét í frv. á síðasta þingi og heitir raunar enn, sé ég, tímabundið atvinnuleyfi. Um það urðu miklar umræður og nefndin lagði til í brtt. sínum að tímabundið atvinnuleyfi yrði látið heita bundið atvinnuleyfi. Ég sé að ráðherra hefur ekki fundist þetta vera til bóta í málinu því hann leggur aftur til að þetta ákveðna atvinnuleyfi heiti áfram tímabundið atvinnuleyfi. Ég segi fyrir mig að samkvæmt mínum málsskilningi er betra að láta þetta heita tímabundið atvinnuleyfi. En það var niðurstaða í nefndinni í fyrra að þarna yrði fært til samræmis við það að hitt atvinnuleyfið heitir óbundið atvinnuleyfi. Þess vegna lagði nefndin til að tímabundið atvinnuleyfi yrði kallað bundið atvinnuleyfi, kannski til samræmis við það að þarna er um ýmis skilyrði að ræða sem þarf að uppfylla varðandi þetta tímabundna atvinnuleyfi. Ég held að þetta sé atriði sem við munum ræða aftur í nefndinni og athuga hvort við komumst að sömu niðurstöðu um hvað þetta ákveðna atvinnuleyfi, skammtímaatvinnuleyfi, eigi að heita.

Annað finnst mér einnig ástæða til að nefna hér eingöngu vegna þess að ég tel að það sé mjög gott atriði í frv. og ástæða til að leggja áherslu á það. Það er 9. gr. um íslenskukennslu og samfélagsfræðslu. Þar eru lagðar skyldur á atvinnurekanda og stéttarfélögin --- ég tel mjög mikilvægt að þau komi að þessu máli líka --- að þau skuli veita starfsmönnum með tímabundið atvinnuleyfi upplýsingar um grunnnámskeið í íslensku fyrir útlendinga, samfélagsfræðslu og aðra þá fræðslu sem í boði er fyrir útlendinga og fjölskyldur þeirra sem koma hér til starfa. Þetta er gífurlega mikilvægt og gott ef bæði atvinnurekendur og stéttarfélög leggjast þarna á sveif við að upplýsa okkar nýju borgara sem best um þau réttindi sem til boða standa í íslensku samfélagi. Það skiptir mjög miklu máli.

Ég vildi síðan nefna að félmn. og allshn. fóru saman í kynnisferð til Vestfjarða nú í september. Það var mjög góð og upplýsandi ferð. Við hittum þar mjög marga sem koma að málefnum útlendinga á Vestfjörðum. Ég held að það hafi verið mál allra sem í þessari ferð voru að mikill sómi væri að því hvernig staðið er að málefnum útlendinga á Vestfjörðum. Að þessu koma margir og leggjast á eitt um að þeir sem koma til starfa á Vestfjörðum og búa á Vestfjörðum af erlendu bergi brotnir eigi sem besta veru þar. Þetta á við um sveitarfélögin og ég vil nefna skólakerfið einnig og stéttarfélögin. Ég held að önnur landsvæði, önnur sveitarfélög og þeir sem koma að málefnum útlendinga mættu margt af Vestfirðingum læra í þessu efni. Þarna er sem sagt eins og best verður á kosið hvernig menn taka á móti því starfsfólki og íbúum landsins sem nýir eru hér og vilja koma og búa og vinna á Íslandi.