Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 15:34:47 (1227)

2001-11-06 15:34:47# 127. lþ. 22.5 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[15:34]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur. Ég tel að hér sé um margt gott mál á ferðinni en tel hins vegar, eins og hún raunar vék svo að í máli sínu eftir að ég var búinn að kveðja mér hljóðs, að það sé afar nauðsynlegt að erlent fólk eigi hér kost á tungumálaþjálfun. Það er okkur ekki sæmandi að taka ekki betur á í þeim efnum.

Ég er á þeirri skoðun að þegar fólk fær leyfi til að koma hingað til lands til að starfa eigi að bjóða því upp á einhverja lágmarksþjálfun áður en það fer að vinna, þó ekki sé nema í 10 daga eða hálfan mánuð þar sem fólki er kennt að skilja einföldustu atriði sem snúa að samskiptum varðandi vinnumarkaðinn, og undirstöðu í málinu.

Aðeins út af því sem hv. þm. nefndi hér um vistarbandið. Ég hef einstöku sinni komið að því í ræðum mínum um annað málefni, varðandi stjórn fiskveiða. Maður er alltaf að uppdaga eitthvað nýtt og ég rakst á það í gærkvöldi í bók sem ég var að skoða að áður en vistarbandið varð til voru til hér á fjórtándu öldinni svokallaðir búðarmenn. Það var nýtt þá í íslensku þjóðfélagi, það voru þeir menn sem voru byrjaðir að búa allt árið í sjóbúðum og þótti ekki beint fagnaðarefni hjá bændum og kirkju sem þá áttu allar stéttir.