Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 15:37:00 (1228)

2001-11-06 15:37:00# 127. lþ. 22.5 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[15:37]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hnaut einmitt um þessa orðnotkun í ræðu hv. þm., um það að hér væri sýnin á málefni útlendinga með svipuðum hætti og vistarbandið var. Það var að vísu mjög fróðleg söguleg upprifjun sem kom hjá þingmanninum og ástæða til að þakka það. En ég get ekki fallist á að þessi sýn sé með svipuðum hætti og var á þeim tíma sem hún er að rifja upp. Hér er um löggjöf að ræða sem er réttindalöggjöf og einmitt mannréttindasýn á málefni þau sem hér er fjallað um, og ákveðið öryggisnet sem gert er ráð fyrir fyrir það fólk sem flyst hingað til okkar.

Ég vil aðeins vitna í þessu sambandi í umsögn Alþýðusambands Íslands sem tók þátt í störfum nefndarinnar sem samdi frv. og þar kemur einmitt fram að Alþýðusambandið stendur heils hugar að þessum niðurstöðum og leggur til að það frv. sem kom fram verði samþykkt óbreytt og með þeim réttarbótum sem þar er að finna. Og ASÍ telur einmitt að það sé sameiginlegt hagsmunamál aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda að vel og tryggilega sé staðið að útgáfu atvinnuleyfa og öllu eftirliti með framkvæmd laganna. Ég reikna með að þetta sé einmitt sýn Alþýðusambandsins vegna hagsmuna þess fólks sem er þeirra félagsmenn eftir að það er komið til starfa hér á landi.