Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 15:41:27 (1230)

2001-11-06 15:41:27# 127. lþ. 22.5 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[15:41]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók ekkert sérstaklega nærri mér þá gagnrýni sem fram kom. Ég vildi bara ekki að þessi tenging yrði allt of sterk við það frv. sem hér er, sú sögulega upprifjun sem hv. þm. fór í gegnum.

Auðvitað hafa komið fram mismunandi sjónarmið á það hvort þessi leyfi eigi að vera bundin einstaklingnum. Samtök atvinnulífsins hafa m.a. gert athugasemdir við það að það verði ekki atvinnurekandinn sem sæki um þau heldur einstaklingurinn sjálfur og að leyfið, tímabundna leyfið, verði þá bundið þeim einstaklingi. Þau benda nú samt á norsku útlendingalöggjöfina í því samhengi þar sem leyfi eru bundin fyrirtæki.

En þessi mál eru auðvitað þess eðlis að þau verða ekki rædd til hlítar í stuttu andsvari. Ég vildi eingöngu halda þessu til haga og einnig benda á hversu mikla áherslu Alþýðusambandið leggur á það nákvæmlega að hafa bæði umsagnarréttinn varðandi þessi leyfi og að þau séu með þeim hætti sem kemur fram í frv.