Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 15:43:08 (1231)

2001-11-06 15:43:08# 127. lþ. 22.5 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[15:43]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér hafa umræður leiðst út í áhugaverða hluti og þar á meðal sagnfræðilega eins og búðarmennina, fyrstu þéttbýlisbúa landsins, seinna þurrabúðarmenn, vistarbandið, píningsdóm og annað í þeim dúr. Allt getur það nú átt rétt á sér, að rifja upp söguna, en sem betur fer erum við nú stödd á ærið breyttum tímum, og það er líka varhugavert kannski að setja hlutina um of í samhengi sem þeir eiga ekki heima í.

Ég minni á að þessi lög eru réttindalöggjöf fyrir erlenda ríkisborgara, og þó að þau taki að stofni til til allra slíkra eru þau þó að mestu leyti fyrst og fremst ætluð þeim sem búa utan hins Evrópska efnahagssvæðis. Með öðrum orðum, reglurnar eru aðrar og opnari gagnvart öllu því svæði sem telur þrjú, fjögur hundruð milljónir manns og fer stækkandi. Þannig verður tæplega sagt að að þessu leyti séu miklar girðingar, held ég, í gildi hér á landi ef við höfum það nú í huga að þjóðin og vinnumarkaðurinn er nú ekki mjög stór. Við erum þó aðilar að þessu stóra sameiginlega atvinnusvæði sem Evrópska efnahagssvæðið er og á grundvelli staðfesturéttarins getur hver sem er komið hingað og sett sig hér niður í landinu og leitað sér að atvinnu og þarf ekki til þess nokkur leyfi, svo fremi að hann sé íbúi á hinu Evrópska efnahagssvæði.

Hér erum við fyrst og fremst að tala um réttindi annars vegar og síðan nauðsynleg leyfi, hins vegar, þeirra sem ekki falla undir hinn sameiginlega vinnumarkað Evrópska efnahagssvæðisins.

Þetta eru að langmestu leyti að mínu mati, herra forseti, mjög gagnlegar réttarbætur og úrbætur á gildandi lögum sem hér eru á ferðinni, og í félmn. sem fjallaði talsvert um þetta mál í fyrra var að mestu leyti ágæt samstaða um þann lagaramma sem hér er endurfluttur svo til óbreyttur. Við lögðum að vísu til, eins og komið hefur fram í máli fyrri ræðumanna, nokkrar brtt. Ég hef ekki þaullesið það til hverra þeirra hefur verið tekið tillit og hverra ekki en mér sýnist þó að að einhverju leyti hafi það gerst. Einnig vorum við með fyrirvara á ákveðnum þáttum, einstakir nefndarmenn, og þar á meðal sá sem hér talar. Ég flutti nokkrar brtt. við frv. og hafði lagt þær fram áður en umfjöllun um það var hætt hér á síðasta vori en málið náði ekki fram að ganga eins og kunnugt er. Ég kem aðeins að því hér á eftir.

[15:45]

Herra forseti. Ég vil segja að reglur um atvinnuréttindi útlendinga, erlendra ríkisborgara hér, eru mjög mikilvægur hluti af því að vel takist til um sambúð okkar og fólks af erlendu bergi brotnu. Það er mjög mikilvægur þáttur af stærra máli að atvinnuréttindum þessa fólks sé komið farsællega fyrir og þá er ég nú ekki síður að hugsa um stöðu þeirra og rétt þeirra en þær reglur og kvaðir sem af okkar hálfu eru settar í þessu sambandi. Ef það er eitthvað sem ég gagnrýni, herra forseti, þá er það að mér finnst að fara hefði mátt betur yfir það hvort ekki ættu að vera í vissum tilvikum ítarlegri ákvæði um rétt þessa fólks þegar það er hingað komið á annað borð og hefur fengið atvinnuleyfi eða er að koma í því skyni.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að útlendingar hafa verið mjög mikilvægir á íslenska vinnumarkaðnum núna um árabil og reyndar svo sem áður í sögunni. Á tímum mikillar uppbyggingar hér og þenslu hefur það reynst afar farsælt fyrir Íslendinga að geta sótt vinnuafl til nálægra eða jafnvel fjarlægra landa. Það leikur enginn vafi á því að ef það hefði t.d. ekki átt við eða verið mögulegt núna síðustu árin þá hefði þensla á vinnumarkaði hér orðið enn meiri en ella og ástandið enn alvarlegra. Það hefur því fyrst og fremst verið í okkar þágu að hafa það þannig að sæmilega greið leið væri opin til að sækja viðbótarvinnukraft inn á hinn íslenska vinnumarkað til útlanda. Að sjálfsögðu ber okkur þá að standa myndarlega og vel að því að tryggja þessu fólki réttindi og að vel sé á móti því tekið þannig að því sem kýs að dvelja hér til frambúðar sé gert það auðvelt. Vissulega er heilmikið verið að vinna í þeim málum og hefur verið á undanförnum árum. En það var sannarlega tímabært því að Íslendingar voru á ýmsan hátt heldur vanbúnir, að mínu mati, til að taka þátt í þeirri þróun sem fyrir áratugum síðan hófst í sumum nágrannalöndunum og sér auðvitað engan veginn fyrir endann á. Við höfum alveg fram undir síðustu ár getað látið það eftir okkur að vera tiltölulega kærulaus í þessum efnum, ef svo má að orði komast, einfaldlega vegna þess að þessi nýi tími er svona fyrst að banka fyrir alvöru á dyrnar hjá okkur núna þessi árin og Ísland að gerast blandaðra samfélag en áður var.

Allir vita að það er ekki lítið í húfi að vel takist til í þeim efnum. Við sjáum mjög margt jákvætt og þar sem vel hefur tekist til hafa menn náð að mæta slíkum breytingum án kannski teljanlegra samfélagslegra vandamála. En sporin hræða líka mjög og dæmin eru þekkt um hið gagnstæða þar sem miklir árekstrar og erfiðleikar hafa orðið í samskipum fólks af ólíkum uppruna.

Staðan á Íslandi á komandi árum verður væntanlega mjög svipuð og hún er þegar orðin í ýmsum nálægum löndum, t.d. á hinum Norðurlöndunum og í Vestur-Evrópu. Nú eru áætlanir um vinnuaflsþörf Vestur-Evrópu utan að frá slíkar að það þurfi tugi milljóna manna inn á vesturevrópskan vinnumarkað á næstu áratugum til þess einfaldlega að mæta þeim líffræðilegu breytingum sem þar eru að verða, breyttri aldurssamsetningu og þörf fyrir vinnuafl, eigi ekki að verða grundvallarbreyting á stöðu þessara samfélaga og þeim að hnigna eða þau að dragast langt aftur úr hvað varðar möguleika á því að bjóða þegnum sínum góð lífskjör.

En það er engin ókeypis ferð á fyrsta farrými til í þessu máli, herra forseti. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að leggja áherslu á það að hér haldast mjög í hendur bæði réttindi og skyldur og kostir og eftir atvikum byrðar sem menn verða þá sambærilega að axla. Við getum ekki bæði sleppt og haldið hér, fengið erlent vinnuafl inn á íslenskan vinnumarkað þegar okkur hentar án þess að þurfa að leggja það af mörkum, til þess að það takist sómasamlega, sem óhjákvæmilegt er. Á það er mikilvægt að leggja áherslu, herra forseti.

Síðan eru það að lokum nokkur orð um einstök efnisatriði frv., herra forseti, og þá kem ég aftur að því að ég lagði til í formi brtt. á liðnu vori breytingar á nokkrum efnisatriðum í frv. Mér sýnist nú reyndar að í frv., eins og það er nú flutt, hafi verið tekið tillit til a.m.k. eins atriðis.

Í fyrsta lagi lagði ég til breytingu á 3. gr. varðandi orðskýringar. Þetta er óskaplega vandræðalegt orðalag, herra forseti, þar sem talað er um atvinnuleyfi í 1. tölulið, tímabundið atvinnuleyfi í 2. tölulið, atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna í 3. tölulið, og svo óbundið atvinnuleyfi í 4. tölulið. Mér finnst þetta eiginlega alveg ómöguleg orðnotkun. Óbundið atvinnuleyfi er nú ekki góð íslenska, finnst mér, fyrir það fyrsta og í öðru lagi þá er ekki einu sinni tær merking í þessu eða ljóst til hvers það vísar. Hver er orðskýringin sjálf í 4. tölulið 3. gr.?

,,4. Óbundið atvinnuleyfi: Ótímabundið leyfi veitt útlendingi til að vinna á Íslandi.``

Af hverju má þetta ekki bara heita ótímabundið atvinnuleyfi úr því að þetta er það? Og hefur það eitthvert gildi að búa til þetta skrýtna hugtak ,,óbundið atvinnuleyfi``? Það er svona eins og óbundinn bátur eða eitthvað svoleiðis. Ég sætti mig nú ekki við það, herra forseti, að við séum svo illa komin á því herrans ári 2001 að við getum ekki barið saman einhverja hugtakanotkun og nafngiftir sem eru ekki svona ankannalegar og við glímum eitthvað við það í félmn., vonandi með góðfúslegu leyfi hæstv. félmrh. sem ég trúi nú ekki að fari að amast neitt við því þó að við eigum eitthvað við þetta hugverk hans, þó í litlu sé.

Herra forseti. Í öðru lagi lagði ég til breytingu á 8. gr. frv. sem mér sýnist að ekki hafi náð fram að ganga. Það er varðandi 1. mgr. Það er vissulega til bóta að opna möguleikann á því að veita útlendingi sem kominn er til landsins tímabundið atvinnuleyfi, þ.e. að gera það sem sagt ekki, eins og verið hefur í reynd nánast ég held án undantekninga, að ófrávíkjanlegu skilyrði að menn séu staddir erlendis þegar hið tímabundna atvinnuleyfi er gefið út. En þannig hefur þetta verið í reynd og það hefur leitt til þess að fólk sem hefur verið hér í landinu af einhverjum ástæðum, hefur nánast án undantekninga orðið að fara til útlanda til þess að geta komið aftur og farið hér í vinnu. Ég hef persónulega haft reynslu af því og afskipti af nokkrum slíkum málum þar sem maður hefur verið að reyna að aðstoða fólk sem hefur verið statt hér í landinu. Því hefur boðist vinna. Það hefur verið þörf fyrir það í þau störf. En reglan hefur verið sú að jafnvel eiginlega alveg án tillits til þess hvernig aðstæður væru þá hefur þetta verið fortakslaust.

Frv. gerir ráð fyrir því að frá þessu sé gengið, eins og þar segir, með leyfi forseta:

,,Tímabundið atvinnuleyfi skal liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta skipti til starfa á Íslandi.``

Þarna mætti nú sjálfsagt henda út þessari tilvísun til útlendings því að það eru að sjálfsögðu ekki efni til að gefa út tímabundið atvinnuleyfi fyrir Íslending. Hann þarf ekkert slíkt.

,,Tímabundið atvinnuleyfi skal liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta skipti til starfa á Íslandi. Frá þessu má þó víkja ef ríkar sanngirnisástæður eru fyrir hendi, einnig ef skilyrði skv. 1. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 7. gr. eru fyrir hendi.``

Ég hefði talið að þarna hefði mátt segja sem svo að að jafnaði skuli það vera reglan að tímabundið atvinnuleyfi liggi fyrir. Það er auðvitað alltaf dálítið matskennt að taka svona til orða, þ.e. ef sanngirnisástæður, ég tala nú ekki um ríkar sanngirnisástæður, eins og segir í frv., eru fyrir hendi. Hins vegar fyndist mér líka að þarna ætti að tilgreina mannúðarsjónarmiðin sérstaklega. Menn telja þau sjálfsagt til sanngirnisástæðna. En þá væri alveg ljóst að hægt væri að veita þessar undanþágur af mannúðarástæðum þegar rök mæla með því.

Alla vega held ég, herra forseti, að þetta sé eitt af þeim atriðum sem maður áttar sig alveg á að er út af fyrir sig vandasamt í framkvæmd eða í útfærslu, þ.e. ef þetta er haft svona á annað borð, ef menn vilja halda í þessa takmörkun sem vissulega er með tilteknum hætti því að þetta er í reynd greinarmunurinn sem gerður er á íbúum hins Evrópska efnahagssvæðis og öðrum. Þeir sem eru utan Evrópska efnahagssvæðisins geta ekki komið hingað til lands og leitað sér sjálfir hér að vinnu og fengið svo atvinnuleyfi þegar þeir hafa fundið hana, vegna þessa ákvæðis. Þeir geta auðvitað komið hingað sem ferðamenn, verið hér í þrjá mánuði, en þurfa síðan að fara aftur úr landi.

Þá ætla ég að koma að öðru, herra forseti, sem þarf að taka inn í þetta mál og er óhjákvæmilegt að félmn. fari yfir, þ.e. hin nýlega til komna aðild Íslands að Schengen, sem náttúrlega var hörmulegur asnaskapur að fara inn í og menn eiga eftir að sjá að m.a. í þessu sambandi verður mönnum mjög mikill fjötur um fót, meðal annars líka vegna þess hvernig reglur um varanleg dvalarleyfi hér á landi eru núna útfærðar á erlendri grund. Vilji menn fá vegabréfsáritun og dvalarleyfi og leyfi til að vera hér í landinu lengur en í þrjá mánuði þá þurfa þeir að sækja um það samkvæmt þeim reglum sem nú eru komnar á eftir aðild að Schengen. Og hvernig eru þær? Jú, það er þannig að samið var við dönsku sendiráðin um að annast þetta fyrir Íslands hönd. Ísland er hætt að gefa þetta út sjálft í sendiráðum sínum erlendis. Þó maður sé staddur í Stokkhólmi þá fær maður þetta ekki hjá íslenska sendiráðinu heldur því danska o.s.frv. Og það sem meira er, það kostar efnislega viðveru viðkomandi aðila í sendiráðinu að fá dvarleyfið gefið út.

Tökum Ástralíu sem dæmi. Það er nokkuð stórt land og tekur tímann sinn að fara þvert yfir hana. Það getur ræðumaður borið vitni um. Ef maður er staddur í Vestur-Ástralíu og ætlar að fá þetta dvalarleyfi á Íslandi, af því að hann ætlar að koma hingað og vera hér lengur en í þrjá mánuði, þá þarf hann veskú að fara frá Vestur-Ástralíu eða Perth til Canberra, þvert yfir þetta stóra meginland og mæta þar í eigin persónu. Þannig svarar danska sendiráðið í Canberra fyrir þessa hluti fyrir Íslands hönd.

Þetta gerir það að verkum að þessu fólki eru miklu meiri erfiðaleikar á höndum að koma hingað til lengri dvalar og þetta verður að skoða í samhengi við útfærslu reglunnar í 8. gr. frv. Ætlum við að hafa hana svona gagnvart þessum hópum sem við kynnum að vilja veita undanþágu frá þessu ákvæði, að þeir komi ekki til með að geta fengið hér vinnu nema hafa fengið hið tímabundna atvinnuleyfi útgefið áður en þeir koma landsins? Þar á ofan eru svo reglurnar svona um að fá hér dvalarleyfi til lengri tíma en almennrar ferðamannaheimsóknar. Herra forseti. Ég hefði viljað leggjast yfir það að skoða þarna ákveðna rýmkun.

Í þriðja lagi ætla ég að nefna 9. gr. um íslenskukennsluna og samfélagsfræðsluna. Hún er ágæt. En þá kem ég aftur að því sem ég sagði. Þarna finnst mér að ætti að skoða að setja inn ítarlegri ákvæði um upplýsingaskyldu til hinna erlendu starfsmanna og réttindi þeirra. Ég er að hugsa um hluti sem mér finnst vanta inn í þetta --- ég a.m.k. er þá farinn að ryðga í því ef þetta er einhvers staðar þar að finna --- t.d. upplýsingar um kjarasamninga og stöðu þessa fólks gagnvart réttindum almennt sem launamenn í landinu. Það hefur verið ærið tilviljanakennt a.m.k. í framkvæmd hingað til hvaða upplýsingar yfir höfuð hið erlenda starfsfólk hefur haft um rétt sinn sem launamenn. Að vísu hafa ákveðin verkalýðsfélög og verkalýðssambönd eins og Vestfirðingarnir gert mjög góða hluti í þeim efnum, þýtt kjarasamninga á pólsku og jafnvel tælensku. En það er ekkert um það hér t.d. að hið erlenda starfsfólk skuli fortakslaust eiga aðgang að a.m.k. lágmarksupplýsingum um launakjör sín og gildandi kjarasamninga á tungumálum sem því er skiljanlegt. Þetta ætti að mínu mati að koma þarna inn ekkert síður heldur en ákvæðin um íslenskufræðsluna, og þó það væru fleiri slíkir hlutir.

[16:00]

Það eru dæmi um það, herra forseti, að það hafi langt frá því verið nógu vel staðið að móttöku farandverkafólks eða útlendinga sem hér hafa tímabundið verið í störfum. Ég þekki dæmi af fólki frá láglaunasvæðum heimsins sem voru hér í verbúðum, nánast óíbúðarhæfum. Mestallt kaupið var hirt af þeim í húsaleigu en af því að þetta fólk hafði ekki forsendur til að meta hver væru eðlileg laun og hver væri eðlileg þénusta á Íslandi þá áttaði það sig ekki á því mánuðum saman hvernig farið var með það. Svona dæmi eru því miður til og þau eiga að vera okkur víti til varnaðar.

Varðandi 11. gr., herra forseti, þá finnst mér að þar eigi að falla út c-liður 1. mgr. Þetta er óþarflega margskilyrt, þ.e. að þegar heimilt sé að veita útlendingi óbundið atvinnuleyfi þá séu skilyrðin eftirfarandi, og þau þurfa öll að vera uppfyllt samtímis:

,,a. að hann hafi átt lögheimili og dvalið samfellt á Íslandi í þrjú ár,

b. að hann hafi öðlast búsetuleyfi á Íslandi samkvæmt lögum um útlendinga,

c. að áður hafi verið veitt leyfi skv. 7. gr.`` --- þ.e. hið tímabundna atvinnuleyfi.

Þetta finnst mér algjörlega ástæðulaust. Ef einstaklingur uppfyllir bæði fyrri skilyrðin, hefur átt lögheimili og dvalist samfellt á Íslandi í þrjú ár og hefur öðlast búsetuleyfi á Íslandi samkvæmt lögum um útlendinga þá finnst mér það eiga að vera algjört aukaatriði hvort hann, áður en hann kom til landsins upphaflega, hafði fengið ótímabundið atvinnuleyfi. Þetta vil ég að falli út.

En varðandi 3. mgr. eða núverandi 4. mgr. sömu greinar þá sýnist mér að höfundar frv., eins og það er nú flutt, hafi tekið nákvæmlega upp orðalag brtt. sem ég flutti hér á síðasta vori því að sá liður orðast nú svo:

,,Víkja má frá skilyrði c-liðar ef um er að ræða útlending sem verið hefur í námi hér á landi að lágmarki í þrjú ár og lokið því.``

Ég fagna því, herra forseti, ef ég hef tekið þarna rétt eftir, að þessi brtt. mín hafi verið tekin orðrétt upp.