Efling félagslegs forvarnastarfs

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 16:48:11 (1237)

2001-11-06 16:48:11# 127. lþ. 22.6 fundur 14. mál: #A efling félagslegs forvarnastarfs# þál., SoG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[16:48]

Soffía Gísladóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta er áhugaverð till. til þál. en að mörgu leyti samt undarleg. Ég hef unnið að forvarnamálum í mörg ár, bæði á vegum sveitarfélaga og á vegum ríkisins og hef fylgst með mörgum hópum sem eru að vinna við forvarnir berjast um krónuna. Ég mundi telja eðlilegra fyrst verið er að koma fram með þáltill. um að auka við fjárframlög, að talað væri um að auka við fjárframlög til þeirra sem eru nú þegar starfandi eins og t.d. áfengis- og vímuvarnaráðs sem er þó eins konar regnhlíf yfir þessum samtökum. Félagslegt forvarnastarf er kannski nýtt hugtak en við vitum að það starf sem verið er að nefna hér, ungmenna- og íþróttahreyfingarnar, nemendafélögin, skátarnir og trúfélögin, er forvarnastarf í sjálfu sér og það er mjög mikilsvert að efla slíkt starf. En varðandi það hvort við eigum að eyða peningum í að gera einhverja sérstaka úttekt á þessu starfi sem við vitum að er þegar blómlegt mjög víða, þá tel ég að peningunum væri mun betur varið til þess einmitt að styrkja þetta starf beint. Á fund fjárln. í morgun komu bæði skátar og KFUM og KFUK til þess að biðja um fjárframlög. Ég tel mjög eðlilegt að þeim verði veitt bein fjárframlög til eflingar starfsemi sinni. En það á ekki að setja peninga í einhverjar úttektir, alls ekki, því að þær kosta mjög mikið fé og við gætum varið því fjármagni mun betur, t.d. með því að efla starfsemi eins og Apótekið, eins og Tún á Húsavík sem verður opnað núna 11.11. klukkan 11.11, og slíkar miðstöðvar þurfa virkilega á opinberu fjármagni að halda því að þær eru ekki almennt styrktar. Sveitarfélögin styrkja nú þegar félagsmiðstöðvarnar og það er kannski ekki ríkisins að koma einmitt þar að.

Ég vildi bara koma því að að kannski væri eðlilegra að leggja meira fjármagn til áfengis- og vímuvarnaráðs sem síðan útdeilir.