Efling félagslegs forvarnastarfs

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 17:11:19 (1243)

2001-11-06 17:11:19# 127. lþ. 22.6 fundur 14. mál: #A efling félagslegs forvarnastarfs# þál., MF
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[17:11]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni þáltill. sem ég tel fulla ástæðu til að koma í ræðustól út af og lýsa yfir stuðningi mínum við, og jafnframt við þá greinargerð sem með þáltill. er og þá hv. þm. sem töluðu á eftir flutningsmönnum. Mér finnst skipta afar miklu máli, virðulegi forseti, að farið verði í þessa skipulögðu félagslegu forvarnastarfsemi. Og þótt áfengis- og vímuvarnaráð, lýðheilsustofnun, eða hvað hún heitir eða verður látin heita, sú stofnun sem á að hafa yfirumsjón með öllum forvörnum, sé starfandi er það þannig að í dag veitum við töluverða fjármuni til t.d. íþróttahreyfingarinnar og til skátanna og til trúfélaga. Hins vegar er mjög takmarkað eftirlit með því hvernig þessir fjármunir nýtast. Þegar áætlað er samkvæmt tillögunni að setja allt að 200 millj. á ári hverju til slíkrar starfsemi er mjög nauðsynlegt að ákveðin grunnvinna fari fram þar sem starfsemi félagasamtakanna er kortlögð, tekin út og ákvarðað hvað það er í starfseminni sem nýtist sem forvarnastarfsemi, hvort t.d. á að leggja ofurkapp á keppnisíþróttir eða hvort það er annars konar starfsemi íþróttafélaganna sem nýtist best. Ég saknaði hins vegar að áhugaleikhúsin væru nefnd, líklega af því að ég horfði á hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur vegna þess að hún hefur verið nátengd þeirri starfsemi, en ég álít þau eiga fullan rétt á að falla inn í þá upptalningu sem hér er. Mér finnst eðlilegt að ríkið styrki félagsmiðstöðvarnar og þá starfsemi sem þar er oft og tíðum rekin af sveitarfélögunum ef um forvarnastarfsemi er að ræða. Og við megum ekki gleyma því að ef skipuleg forvarnastarfsemi færi fram af hálfu allra þeirra aðila sem taldir eru upp í tillögunni mundu þeir fjármunir sem væri verið að verja til starfseminnar skila sér fljótt í framtíðinni, í betri heilsu og heilbrigðara líferni ungmenna okkar. Það er það sem við erum að sækjast eftir, ekki satt?

En þegar um svona háar fjárhæðir er að ræða þarf nauðsynlega að gera úttekt á allri þessari starfsemi áður. Þótt ríkið hafi árum saman veitt fjármagn til allrar þeirrar starfsemi sem hér er nefnd, fyrir utan félagsmiðstöðvarnar sem hafa hugsanlega fengið til einstakra afmarkaðra verkefna, þá er það ekki fyrr en á síðustu árum sem þessi félög hafa skilað inn ársreikningum sínum, áætlunum og greinargerðum um starfsemi. Slíkt hefur ekki alltaf fylgt með þannig að menn hafa ekki vitað í hvað peningarnir hafa verið notaðir. Við viljum gjarnan trúa því að öll þessi samtök séu að vinna hið besta verk en einhvers staðar höfum við samt sem áður brugðist illilega vegna þess að niðurstaðan af rannsókn áfengis- og vímuvarnaráðs á neyslu ólöglegra vímugjafa, og löglegra reyndar líka, í framhaldsskólum, var uggvænleg og ekki síst vegna þess að þar eru einstaklingar að nota róandi lyf og svefnlyf án þess að hafa fengið þau ávísuð frá lækni. Og það er töluverður fjöldi einstaklinga sem í dag hefur ánetjast fíkniefnum. Aldurinn færist stöðugt neðar. Við fylgjumst jafnvel með því í fréttum að verið sé að hafa afskipti af 11--13 ára gömlum börnum sem eru með eiturlyf eða tengjast eiturlyfjaneyslu á einn eða annan hátt.

Ef við ætlum að sporna við þessu eins og hingað til virðist hafa verið samstaða um meðal allra flokka á Alþingi, eins og fram kemur í grg., því að þetta er vandi sem við verðum að bregðast við, þurfum við að gera það með mjög skipulegum hætti. Undirstaða þess er kortlagning vandans, kortlagning þess starfs sem skilar bestum árangri, og síðan að taka ákvörðun um útdeilingu fjármagns samkvæmt niðurstöðum þeirra úttekta. Ég er ósammála því, virðulegi forseti, sem hér hefur komið fram um að það sé komið nóg af þessum úttektum. Ég held að okkur vanti einmitt grunnvinnuna til þess að geta tekið skynsamlega á málinu.