Efling félagslegs forvarnastarfs

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 17:24:48 (1247)

2001-11-06 17:24:48# 127. lþ. 22.6 fundur 14. mál: #A efling félagslegs forvarnastarfs# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[17:24]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Aðeins fáein orð. Ég vil fyrst og fremst þakka fyrir þá umræðu sem hefur orðið um þessa tillögu og í aðalatriðum jákvæð viðhorf í hennar garð þó að vissulega hafi komið fram sjónarmið um að ákveðnir þættir mættu vera öðruvísi og tillagan kannski ekki gallalaus, enda er fátt undir sólinni sem ekki má finna eitthvað að eða hugsa sér að hafa einhvern veginn öðruvísi en það er. Ég tek það strax fram að af hálfu okkar flutningsmanna tillögunnar er að sjálfsögðu allt opið í þeim efnum að skoða fyrirkomulag og form og á ævinlega að vera því að menn eiga ekki að hengja sig í slíka hluti og allra síst þegar góður málstaður á í hlut. Þá eiga menn að láta hann njóta vafans og breyta þá því eða lagfæra sem þeir telja að geti betur farið í sambandi við framkvæmdarleg atriði, form og umgjörð.

Minnt var á það af einum hv. þm. að foreldrar væru ekki mikið nefndir í tillögunni. Ég kom reyndar aðeins inn á hlutverk þeirra í framsöguræðu minni, nefndi m.a. mikilvægi foreldrafélaga í skólum og samskipti foreldra og félagsmiðstöðva t.d. þegar starfsemi þeirra er skipulögð. Hins vegar er ábendingin ágæt. Það er að sjálfsögðu aldrei of oft tekið fram að hlutur fjölskyldnanna og foreldranna er auðvitað gríðarlega stór í öllum þessum efnum og það verður seint náð miklum árangri ef foreldrar og heimili eru ekki þátttakendur í því sem verið er að reyna að gera. Reyndar er það svo samofið inn í þetta allt saman að það liggur eiginlega við að það sé það sem Þorbergur heitinn hefði kallað ,,selvfölgelighed`` því að ef við tökum t.d. íþróttahreyfinguna og starfsemi yngri flokka hjá íþróttafélögum, hverjir skyldu það nú vera sem eru þar í stjórnum nánast án undantekninga? Það eru auðvitað foreldrar iðkendanna. Það þekkir maður sjálfur og væntanlega fleiri hér inni. Það vefst því algjörlega saman við starfsemi mjög margra þessara aðila og þar af leiðandi eru að sjálfsögðu foreldrar og samtök foreldra í þeim tilvikum að þau eru til, eins og í skólunum, gríðarlega mikilvægir þátttakendur í þessu öllu.

Það sem ég vil hins vegar leggja áherslu á er að tillagan er ekki í sjálfu sér um hið hefðbundna forvarnastarf. Þá hefði hún verið öðruvísi fram sett og öðruvísi um hana búið. Tillagan er um eflingu þess sem við erum að kalla hér félagslegt forvarnastarf, sem er hugtak sem kannski á eftir að þróast og þroskast og öðlast dýpri og skýrari merkingu, en á þó að skiljast þegar samhengi hlutanna er skoðað og grg. lesin. Það þýðir að sjálfsögðu ekki að mikilvægi og gildi hins almenna eða hefðbundna forvarnastarfs sé ekki óbreytt eftir sem áður. En það er á svolítið öðrum grunni reist og ekki er endilega sjálfgefið að menn samsami sig því þó að þeir séu að sinna starfsemi, félagsmálastarfi sem hafi hins vegar jákvætt forvarnalegt gildi. Það er af því að það er grundvallað á öðrum hlutum og hefur önnur markmið í grunninn en fyrst og fremst hin forvarnalegu.

Það mundi ég segja að ætti við, með fullri virðingu fyrir öllum viðkomandi aðilum, um t.d. íþróttahreyfinguna. Það er íþróttaiðkun sem er útgangspunktur starfsemi íþróttafélaga og það að fá fólk til íþróttaiðkunar og eftir atvikum að ná árangri í þeirri iðkun. Hins vegar hefur það mikið forvarnalegt gildi.

Það er eitt af því sem að mínu mati er sjálfsagt mál að skoða í hv. þingnefnd, og má þakka fyrir þau sjónarmið sem komið hafa fram í umræðunni í þeim efnum, að skoða samhengið við hið hefðbundna starf Áfengis- og vímuvarnaráðs, starfsemi Forvarnasjóðs og aðra slíka þætti sem að sjálfsögðu eiga að vera með í þessu samhengi. Úttekt á stöðunni, kortlagning á þessu sviði mundi að sjálfsögðu m.a. taka til þess hvaða verkefnum hver og einn er að sinna í þessum efnum, hvar brotalamirnar eru, hvar götin eru, hvar erfiðleikarnir eru mestir við að halda úti starfseminni sem þarf þá að reyna að taka á. Ætli það sé nokkuð óskaplegt leyndarmál og megi ekki upplýsast, sem menn vita auðvitað, að mjög víða er t.d. í íþróttahreyfingunni við gríðarlega rekstrarerfiðleika að etja? Mjög algengt er að einstakar deildir, ekki síst þær sem eru með starfsemi yngri flokka á sínum vegum, dragi skuldahala á eftir sér. Og það eru líka sambúðarvandamál milli starfsemi yngri árganga og síðan aftur keppnisliða í meistaraflokkum sem hirða kannski obbann af tekjum stóru íþróttafélaganna, þau afla vissulega mikilla tekna líka. En ég þekki það og örugglega margir fleiri þingmenn að þau eru ekki alltaf alveg vandalaus samskiptin milli starfsemi yngri flokkanna og síðan aftur fullorðinsflokka og meistaraflokka og spurningin er um á hvað á að leggja áherslu og í hvað á að ráðstafa fjármunum, í uppbyggingu og starfsemi yngri flokka, sem auðvitað er frá forvarnalegu sjónarmiði tvímælalaust mikilvægast, eða þá starfsemi meistaraflokka, keppnisliða, árangur afreksmanna o.s.frv.

[17:30]

Það mætti því vel hugsa sér, herra forseti, að liður í þessu væri að skoða ekki bara starfsemina sem hér fellur undir heldur ættu allir sem mögulega geta talist sinna starfsemi sem hefur félagslegt forvarnagildi að koma til skoðunar og vera velkomnir í þann hóp. Það mætti alveg hugsa sér að reyna að nálgast niðurstöðu í málinu, m.a. út frá því að skilgreina vægi forvarnaþáttanna í starfsemi þeirra. Við getum jafnvel sagt að metið yrði forvarnagildi viðkomandi starfs. Mér finnst alls ekki fjarstæðukennt að það yrði reynt. Eftir atvikum gæti það síðan að einhverju leyti ráðið því hvernig menn stýrðu fjármunum til að efla þessa starfsemi. Það væri að sjálfsögðu rétt að gera með hliðsjón af því að efla þá starfsemi sem menn kæmust að niðurstöðu um að hefði mest forvarnagildi eða þar sem forvarnir vægju þungt.

Fyrirkomulagið getur síðan verið með ýmsum hætti. Það er hægt að hugsa sér ýmsar leiðir, t.d. beina styrki á grundvelli þeirrar fjárveitingar á fjárlögum sem þarna kæmi til sögunnar. Það væri líka hægt að hugsa sér þetta í formi sjóðs sem fengi þessa fjármuni og síðan væri sótt um í sjóðinn. Þá þyrftu menn að sjálfsögðu að reiða fram upplýsingar, rökstyðja sínar umsóknir o.s.frv. Einnig væri hægt að hugsa sér þetta að einhverju leyti í formi mótframlaga þannig að þetta verkaði sem hvatning til að reyna að afla meiri tekna og efla þessa starfsemi þannig. Þá væri ákveðið gulrótarfyrirkomulag í þessu, að ríkisframlagið, viðbótarstyrkurinn til eflingar félagslegu forvarnastarfi, væri í formi einhvers konar mótframlaga að hluta til.

Herra forseti. Það er auðvitað ótal margt af þessum toga sem hægt væri að rabba um alveg inn í nóttina ef tíminn leyfði. En það gerir hann ekki og ég ætla heldur ekki að nota hann til fulls heldur fyrst og fremst þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Ég vonast til þess að þetta mál fái jákvæð viðbrögð því að það væri svo grimmilega ósanngjarnt að bera upp á nokkurn hugsandi stjórnmálamann að hann væri ekki jákvæður í garð þess að skoða öll þau úrræði sem mögulega geta að gagni komið í baráttunni við þann skelfilega vágest sem ofnotkun vímuefna er í okkar samfélagi, en sú notkun fer hraðvaxandi því miður. Það þarf ekki að setja á ræðuhöld um það.

Við hljótum öll að vera jákvæð í garð forvarna en auðvitað er eðlilegt að menn geti haft mismunandi sjónarmið um leiðir í þeim efnum og hvernig fjármunum verði best og skynsamlegast varið og þá skulum við bara ræða það.