Starfsskilyrði háskóla

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 13:41:13 (1255)

2001-11-07 13:41:13# 127. lþ. 23.93 fundur 110#B starfsskilyrði háskóla# (umræður utan dagskrár), menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 127. lþ.

[13:41]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Á öllum málum eru a.m.k. tvær hliðar. Einnig samningum ríkisins við einkaháskóla, en vinsældir þessara skóla meðal nemenda og aukið námsframboð hefur kallað á umræður um fjárveitingar til ríkisháskóla og stöðu þeirra í samkeppninni.

Fyrir eðlilega framvindu háskólastigsins er nauðsynlegt að ræða nýjar aðstæður með opnum huga og með sanngjarnar niðurstöðu að leiðarljósi án þess að skorður séu reistar við frjálsu framlagi nemenda í einkaháskólum til eigin menntunar. Umræður hafa orðið um fjármögnun háskólastigsins eins og hv. ræðumaður gat um. M.a. var efnt til ráðstefnu um málið í Háskóla Íslands hinn 26. október og þar voru ýmis sjónarmið reifuð. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. taldi Ólafur Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands, nauðsynlegt að taka upp umræður um þessi mál á öðrum forsendum en gert hefur verið til þessa og vísaði þar m.a. til kenninga bresks hagfræðings sem starfar við London School of Economics, Nicholas Barrs.

Ég hef oftar en einu sinni verið gagnrýndur fyrir að halda fram þeirri skoðun undanfarin ár að ekki verði undan því vikist hér frekar en annars staðar að ræða stöðu háskóla með hliðsjón af þeirri staðreynd að sumum er veitt heimild til að innheimta skólagjöld en öðrum ekki.

Ég vakti m.a. athygli á því í umræðum á Alþingi í október 1997 að OECD teldi skynsamlegt að afla aukinna tekna til háskólastigsins hér á landi með skólagjöldum. Í viðræðum við starfsbræður mína á Norðurlöndum hefur það sjónarmið komið fram hjá sumum þeirra að skynsamlegra sé að hækka skatta til að standa undir auknum kostnaði við háskólanám sífellt fleiri nemenda en áður, en veita skólum heimild til að heimta gjöld af nemendum til að standa undir kostnaði við kennslu. Ráðherrar og ráðuneyti hafi meira vit á því hvernig eigi að verja fé í þágu menntunar og skólastarfs en almenningur og þess vegna eigi að auka almennar opinberar álögur til að ráðuneytin hafi aukið fjárhagslegt svigrúm til að halda úti háskólastarfi. Með öðrum orðum, einstaklingar verða að laga nám sitt að því sem er í boði af ríkisins hálfu en ríkið eigi ekki að skapa einstaklingum svigrúm til að ráða og verja með fjárhagslegum skuldbindingum sjálfs sín gagnvart háskóla með greiðslu skólagjalda.

Fjárveitingar til allra háskóla hér á landi byggjast nú á samningsbundnu fjármögnunarkerfi með vísan til reglna um fjárframlög vegna kennslu á háskólastigi eða kennslusamningi. Innan háskóla hafa síðan verið mótuð deililíkön sem skipta hinu samningsbundna fjármagni milli deilda skólanna. Hér eru í gildi reglur um þessi heildarfjárframlög sem menntmrn. setti í fullu samkomulagi við Háskóla Íslands. Tryggði þetta samkomulag t.d. Háskóla Íslands alla þá fjármuni sem skólinn fór fram á á þeim tíma sem það var gert og í raun meira fé. Óskina um heildarfjárhæð byggði Háskóli Íslands á deililíkani sínu þar sem gert er ráð fyrir hagkvæmni stærðar í fjölmennari deilum vegi upp óhagræði af fámennum hópum í sumum námsgreinum. Tilgangurinn með þessu samkomulagi og reiknilíkaninu er að háskólar fái skýran ramma um rekstur sinn og hagi skipulagi á starfi sínu í samræmi við hann. Í því felst með öðrum orðum umsamið aðhald, en ávallt er gerð krafa um aðhald við meðferð opinberra fjármuna. Stjórnendum háskóla var með samkomulaginu og líkaninu ljóst hvernig þeir ættu að haga starfi skóla sinna til að nýta opinbera fjármuni á sem hagkvæmastan hátt. Fari skólar út af þeirri braut við innri stjórn sína lenda þeir í ógöngum, en ekki er unnt að skella skuldinni af því á þá sem sömdu um leikreglurnar eða vilja að því sé framfylgt.

Umræður um fjármögnun ríkisháskóla og skólagjöld snerta ekki þær tillögur sem eru boðaðar í fjárlagafrv. ársins 2002 um hækkun innritunargjalda í ríkisháskólum því að þar er tekið mið af verðlagsþróun síðustu tíu ára og lagt til að innritunargjöldin haldi í við hana.