Starfsskilyrði háskóla

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 13:46:02 (1256)

2001-11-07 13:46:02# 127. lþ. 23.93 fundur 110#B starfsskilyrði háskóla# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 127. lþ.

[13:46]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Það er alveg augljóst að hæstv. menntmrh. aðhyllist skólagjöld, punktur. Hann virðist vilja leiðrétta samkeppnisstöðu ríkisháskólanna með því að heimila þeim að taka skólagjöld en það er bara ekki heimilt, herra forseti. Þannig eru ekki íslensk lög. Löggjafinn hefur ekki viljað gera ríkisháskólunum það að innheimta skólagjald.

Ég ætla í stuttri ræðu að einbeita mér að því að tala um Háskóla Íslands því að mér hefur virst hæstv. menntmrh. reka háskólastefnu í einkaháskólunum sem hefur verið á kostnað ríkisreknu háskólanna. Því til staðfestu ætla ég að nefna það að Háskóli Íslands hefur umtalsverðar skyldur umfram aðra háskóla í landinu. Sá skóli getur ekki valið sér það hlutskipti að kenna bara tvö eða þrjú vinsæl fræðasvið. Nei, Háskóli Íslands menntar þjóðina í ótal greinum í 11 deildum og á 53 fræðasviðum og hann útskrifar fólk með ólíkar gráður af yfir 70 námsleiðum. Þessi fundur mundi vart nægja til að telja upp þá sérstöðu sem Háskóli Íslands nýtur umfram aðra háskóla í landinu og hann á það skilið að fá notið sérstöðu sinnar í fjárveitingum. Það nægja ekki fögur orð ráðamanna á afmælisstundum. Það þarf efndir loforða. Má ég t.d. spyrja hæstv. menntmrh.: Hvenær ætlar hann að ganga frá samningi um fjármögnun rannsókna við Háskóla Íslands? Á háskólinn að lúta því að fá á næsta ári einungis 6,6% verðbætur á rannsóknakostnað á meðan verðbætur á kennslukostnaði eru 12,1%? Hvers vegna er þetta misræmi? Og hversu lengi á Háskóli Íslands að þurfa að borga 80--90 millj. á ári fyrir einkaleyfisgjald af happdrætti sem hann hefur ekkert einkaleyfi á?

Háskóli Íslands er þjóðarskóli og menntmrh. ber skylda til að standa vörð um hann sem slíkan. Þannig mætti ráðherrann taka sér til fyrirmyndar stúdenta í háskólanum sem nú hafa séð ástæðu til þess að efna til þjóðarátaks í þágu Háskóla Íslands, á 90 ára afmæli hans, og við skulum vona að hæstv. menntmrh. verði genginn til liðs við það átak á aldarafmæli skólans þó að ég leyfi mér að vona að hann verði farinn úr stól ráðherra þegar þar að kemur.