Starfsskilyrði háskóla

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 13:48:25 (1257)

2001-11-07 13:48:25# 127. lþ. 23.93 fundur 110#B starfsskilyrði háskóla# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 127. lþ.

[13:48]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. var spurður að því af hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni hvernig hann hygðist tryggja samkeppnisstöðu ríkisháskólanna. Ég varð ekki vör við það, herra forseti, að hæstv. menntmrh. svaraði þessari spurningu, a.m.k. gat ég ómögulega greint það í máli hans.

Hæstv. menntmrh. virðist telja að ábyrgðinni á fjármálum háskólanna verði ekki varpað út fyrir veggi skólanna. Þetta kemur m.a. fram í nýlegum skrifum á heimasíðu hæstv. ráðherra.

Herra forseti. Það er eðlileg krafa til hæstv. menntmrh. að hann skoði þá heildarmynd sem hefur verið að þróast á háskólasviðinu á undanförnum árum. Nýir öflugir skólar hafa sprottið upp og þeir hafa veitt háskólanum og öðrum ríkisháskólum verðuga samkeppni sem mun án efa skila sér í betra námsframboði og meiri metnaði. Einkareknu skólarnir eru góð viðbót við það nám sem fyrir var í boði og þeir munu án efa gera það að verkum að fleiri taka ákvörðun um að leggja stund á háskólanám hér heima en áður var þegar námsvalið var einsleitara.

En leikreglurnar eru ekki sanngjarnar, herra forseti. Ríkisháskólarnir bera skarðan hlut frá boði í því fjármögnunarfyrirkomulagi sem nú tíðkast og hæstv. menntmrh. ber ábyrgð á því kerfi. Á meðan einkaskólarnir geta innheimt skólagjöld en ríkisskólarnir ekki og ríkisframlögin eru hin sömu er verið að gera samkeppnisstöðu ríkisskólanna mun lakari en hinna nýju skóla. Slíkt fyrirkomulag er einsdæmi, að framlög ríkisins séu þau sömu til einkaskóla og ríkisskóla, og það gengur ekki upp.

Leiðir til úrbóta eru að mínu mati tvær. Í fyrsta lagi er hægt að heimila skólagjöld í ríkisháskólana en Samfylkingin varar eindregið við þeirri leið og telur að hún geti mjög ógnað jafnrétti til náms. Hins vegar er það sú leið að hækka verulega framlög til ríkisháskólanna og bæta þeim þannig upp það samkeppnisforskot sem einkaskólar hafa fengið með innheimtu skólagjalda. Þannig er unnt að tryggja rétt allra til grunnnáms í háskóla án skólagjalda en auka um leið flóruna sem í boði er á háskólastiginu.