Starfsskilyrði háskóla

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 13:52:45 (1259)

2001-11-07 13:52:45# 127. lþ. 23.93 fundur 110#B starfsskilyrði háskóla# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 127. lþ.

[13:52]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Engum kemur á óvart einkavæðingarfíkn hæstv. menntmrh. og við þekkjum öll þau markmið Sjálfstfl. að einkavæða allt skólakerfið í áföngum. Þjóðin þekkir hana enda fer hæstv. menntmrh. ekkert dult með einkavæðingarstefnu sína í menntakerfinu eins og hann rakti í ræðu sinni áðan.

Í gær var utandagskrárumræða um stöðu framhaldsskólanna. Þar er einkavæðingarherferðin hafin. Litlir skólar úti á landi, verknámsskólar, heimavistarskólar, þessa skóla skal svelta út. Allt er undirbúið fyrir einkavæðinguna. Sama er uppi á teningnum með háskólana. Þar er einkavæðingin komin á fulla ferð, þar rekur hvert gæluverkefnið annað. Háskólinn í Reykjavík er nýjasta dæmið, einkavæddur háskóli að fullu styrktur af ríkinu til jafns við aðra skóla en með frjálsa heimild til að taka skólagjöld. Á meðan er Háskóli Íslands sveltur og hann skikkaður með lögum til að nær tvöfalda innheimtu skólagjalda.

Herra forseti. Einkavæðingarfíkn Sjálfstfl. kemur okkur ekki á óvart og okkur kemur ekki á óvart að skellt sé skollaeyrum við þótt skólastjórnendur og nemendur hrópi á hjálp gegn einkavæðingu ríkisstjórnarinnar. En það sem kemur okkur á óvart, herra forseti, og ég held að allri þjóðinni komi á óvart er að Framsfl. skuli styðja hæstv. menntmrh. og Sjálfstfl. í þessari einkavæðingaraðför að menntakerfi þjóðarinnar. Við spyrjum okkur öll: Hvar er félagshyggja Framsfl.? Ætla ráðherrar og þingmenn Framsfl. að láta Sjálfstfl. leika lausum hala í einkavæðingarfíkn sinni á menntakerfi þjóðarinnar?