Starfsskilyrði háskóla

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 13:57:03 (1261)

2001-11-07 13:57:03# 127. lþ. 23.93 fundur 110#B starfsskilyrði háskóla# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 127. lþ.

[13:57]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þegar rætt er um starfsskilyrði háskóla er ein af grundvallarspurningunum sú hvort jafnrétti sé til náms, hvort aðgangur sé jafn. Það er sú spurning sem við í Samfylkingunni spyrjum og viljum að svarið sé afdráttarlaust já. Afdráttarlaust. En svo er ekki. Það er mikilvægt að það sé rætt þegar skólunum er mismunað hvað varðar rekstrarfé og það virðist ásetningur hæstv. menntmrh. að þvinga ríkisskólana til að taka upp skólagjöld í stað þess að þeir njóti meiri framlaga úr ríkissjóði til að mæta þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra umfram aðra háskóla.

Það er kunnuglegt svar, herra forseti, að lánað sé fyrir skólagjöldum. En þá spyr ég aftur um jafnrétti og jafnan aðgang. Geta allir sem uppfylla inntökuskilyrðin og hin námslegu skilyrði fengið lán úr lánasjóðnum? Nei, aldeilis ekki. Það ræðst sem fyrr af aðstæðum viðkomandi, hvort hann á einhvern að sem er tilbúinn að leggja fram sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins. Herra forseti. Það ræðst af ábyrgðarmanninum.

Þegar lögin um LÍN voru endurskoðuð lögðum við til að ábyrgðarmannakerfið yrði lagt af, enda samræmdist það ekki því hlutverki sjóðsins að tryggja fólki tækifæri til náms án tillits til efnahags. Það réðist af aðstæðum vandamanna hvort lán fengist. Tillaga okkar var studd áliti Ríkisendurskoðunar sem fram kom í skýrslu þeirra frá 1995 um fjárhagsstöðu sjóðsins. En hún var felld af meiri hlutanum hér á Alþingi undir styrkri stjórn hæstv. menntmrh. Þar liggur þá fyrir viljinn til jafnréttis til náms.

Ekki er tekið tillit til ólíkra starfsskilyrða skólanna. Samkeppnin er ekki heilbrigð og jafnrétti til náms er ekki tryggt. Það er sá veruleiki sem við ræðum hér í dag, herra forseti.