Myntbandalag Evrópu og upptaka evru

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 14:20:56 (1273)

2001-11-07 14:20:56# 127. lþ. 24.1 fundur 195. mál: #A Myntbandalag Evrópu og upptaka evru# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., KHG
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[14:20]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er svo sem ekki nýtt af nálinni að menn ræði um gjaldmiðla og hvort þjóðir eigi að standa sameiginlega að því að hafa gjaldmiðil. Ég minni á að þegar íslenska krónan var tekin upp í upphafi, á síðasta ársfjórðungi 19. aldar, þá var um að ræða sameiginlega krónu fyrir öll Norðurlönd. Norðurlönd voru þá sameiginlegt myntsvæði. Þegar Íslendingar fengu fullveldi 1918 var farið að skrá íslenska krónu sérstaklega og fyrstu afleiðingarnar urðu þær að gripið var til gengishækkunar sem setti íslenskan sjávarútveg á hausinn. Það eru því auðvitað tvær hliðar á öllum málum.

Ég held að það detti ekki nokkrum manni í hug að halda því fram að ríki Evrópusambandsins sem taka upp evru séu að afsala sér sjálfstæði. En það er hins vegar jafnljóst að menn afsala sér ákveðnum hagstjórnartækjum og Íslendingar þurfa að vega og meta kostina við þetta. Ég tel ekki rétt að útiloka fyrir fram að það geti verið skynsamlegt fyrir Íslendinga að taka upp gjaldmiðil með öðrum.