Myntbandalag Evrópu og upptaka evru

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 14:22:12 (1274)

2001-11-07 14:22:12# 127. lþ. 24.1 fundur 195. mál: #A Myntbandalag Evrópu og upptaka evru# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., LB
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[14:22]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það væri vægt orðað að segja að þessi fyrirspurn hafi vakið mikla athygli. Á öðru var þó ekki von. Hins vegar nefndi hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson það í ræðu sinni að með því að taka upp evruna mundu menn afsala sér tilteknum möguleikum, þ.e. að beita tilteknum hagstjórnartækjum. Þetta er kannski grundvallarspurningin sem við stöndum frammi fyrir í dag. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í þeirri stöðu sem upp er komin? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í þeirri stöðu sem nú er komin upp, þegar dollarinn er kominn tæplega í 106 kr.? Hvað ætla menn að gera í þeirri stöðu þegar pundið er komið í 154 eða 155 kr.? Spurningin er náttúrlega: Hvaða hagstjórnartækjum ætla menn að beita? Það er þessi kjarnaspurning.

Úr því að menn eru svona áfjáðir í að halda í krónuna þá held ég að eðlilegast sé að spyrja núna: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í þeirri stöðu sem upp er komin? Það verður fróðlegt að heyra svörin við því.